Stjórnvöld grípi til aðgerða
Skipulögð brotastarfsemi um árabil
Þann 29. desember sl. staðfesti Landsréttur ákvörðun Neytendastofu er laut að ólögmæti smálána sem veitt voru af fyrirtækjum undir hatti E-content ehf. en kostnaður vegna lánanna var margfalt hærri en lög leyfa.
Ólögleg lán til fjölda ára
Rúmlega þrjú ár eru liðin síðan Neytendastofa komst að því í ákvörðun sinni að smálán frá E-content ehf. brytu í bága við lög um neytendalán. Áður hafði smálánafyrirtæki undir öðru heiti veitt smálán með svokölluðu flýtigjaldi sem einnig brutu í bága við lög hvað varðar hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar eins og var síðar staðfest af héraðsdómi Reykjavíkur.
E-content ehf. hefur áfrýjað öllum álitum, úrskurðum og dómum og komist upp með að tefja mál eins lengi möguleg er.
Árið 2017 flutti fyrirtækið til Danmerkur og heitir nú Ecommerce2020. það hélt uppteknum hætti við ólögmætar lánveitingar, að minnsta kosti allt fram á síðasta sumar undir því yfiskyni að dönsk lög gildi um starfsemina. Neytendastofa komst hins vegar að því í ákvörðun sinni frá í ágúst sl. að starfsemin falli undir íslensk lög en þeirri ákvörðun hefur verið áfrýjað af hálfu Ecommerce2020 eins og við mátti búast.
Háar fjárhæðir úr vasa lántaka
Ólögleg smálán hafa því viðgengist hér á landi allt frá árinu 2014 en óvinnandi vegur er að meta hversu háar fjárhæðir hafa verið ofgreiddar til smálánalánafyrirtækjanna á þessum tíma. Hinn langi málsmeðferðartími er sérlega slæmur þar sem vítahringrás smálána er svo ör og snjóboltaáhrifin geigvænleg; lánin eru veitt til 30 daga og að þeim tíma liðnum er veitt annað hærra til að greiða hið fyrra niður. Og svo koll af kolli. Því eru smálánafyrirtækin afar fljót að innheimta fé, og eða koma fólki í vanskil.
Innheimta án eftirlits
Það er að mati Neytendasamtakanna ólíðandi að smálánafyrirtækin hafi komist upp með ólöglega lánastarfsemi um margra ára skeið og að úrræði eftirlitsaðila hafi reynst að mestu bitlaus. Þá er með öllu óskiljanlegt hversu lélegt eftirlit er með því innheimtufyrirtæki sem sér um innheimtu ólögmætra smálánaskulda. Þar sem fyrirtækið, Almenn innheimta ehf., er í eigu lögmanns nýtur það undanþágu í lögum og er þar með undanskilið bæði leyfisveitingu og eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Almenn innheimta ehf. hefur innheimt hin ólögmætu smálán af mikilli hörku og lántökum er ítrekað hótað með vanskilaskráningu og lögsókn greiði þeir ekki okurlánin upp að fullu og innheimtuferillinn ákaflega brattur. Í gögnum sem Neytendasamtökin hafa undir höndum sést ennfremur að innheimtukostnaður er afar hár og í engu samræmi við upphæð krafna.
Fyrir liggur að Almenn innheimta ehf. hefur lagt innheimtu- og vanskilakostnað á kröfur sem bera ólöglega vexti. Lántakendur hljóta því að eiga endurkröfu á Almenna innheimtu ehf. vegna greidds innheimtukostnaðar er byggðist á innheimtu ólögmætra smálána.
Vanskilaskráning gagnrýnd
Neytendasamtökin hafa harðlega gagnrýnt þátt Creditinfo þegar kemur að innheimtu á smálánum sem bera ólöglega vexti. Óskiljanlegt er að fólk sé sett á vanskilaskrá vegna krafna sem byggja á lánum sem standast ekki lög um neytendalán. Gera verður þá kröfu að fyrirtæki sem hefur leyfi til að setja fólk á vanskilaskrá stígi varlega til jarðar enda getur vanskilaskráning haft verulega neikvæð áhrif á lánshæfi einstaklinga. Skoða þarf með hvaða hætti lántakendur sem settir hefur verið á vanskilaskrá að ósekju, vegna umræddra lána E-content ehf. eða ólögmætra lána Ecommerce, geta náð fram rétti sínum.
Algjör skortur á neytendavernd
Neytendasamtökin líta það mjög alvarlegum augum að svo skipulögð brotastarfsemi gegn neytendum hafi viðgengist hér á landi til fjölda ára. Þekkja samtökin varla dæmi um annan eins skort á neytendavernd og hér um ræðir. Þegar vara eða þjónusta á neytendamarkaði uppfyllir ekki lög er salan stöðvuð og vörur jafnvel afturkallaðar ef svo ber undir. Ólögleg smálán hafa hins vegar verið á boðstólnum í hátt í sjö ár án þess að nokkur hafi fengið rönd við reist. Fyrir liggur að stór hópur fólks hefur orðið fyrir fjárhagsskaða vegna ófullnægjandi úrræða, skorts á eftirliti og seinagangs í kerfinu.
Kallað eftir aðgerðum stjórnvalda
Neytendasamtökin sendu þremur ráðuneytum erindi þann 29. júlí sl. þar sem gerð var grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp var komin. Óskað var svara við því hvernig stjórnvöld hyggðust aðstoða þá lántakendur sem hefðu ekki notið eðlilegrar neytendaverndar og verið gert að greiða ólöglegan lántöku- og innheimtukostnað og jafnvel verið settir á vanskilaskrá að ósekju. Svar barst frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þess efnis að verið væri að vinna frumvarp til að skerpa á lögum um neytendalán hvað smálánin varðar.
Neytendasamtökin hafa lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að bæta þurfi all verulega lagaumhverfið á þessu sviði en það hjálpar ekki þeim sem þegar hafa verið beittir órétti.
Umrædd fyrirtæki hafa komist upp með skipulagða brotastarfsemi til margra ára. Þau hafa sýnt einbeittan brotavilja en neytendur hafa ekki notið þeirrar verndar sem stjórnvöldum er skylt að tryggja. Sú staða sem upp er komin er því á ábyrgð stjórnvalda og ber þeim skylda til að koma að málum og slá skjaldborg um lántakendur sem hafa sumir hverjir tapað miklum fjármunum vegna ofgreiðslu okurlána og innheimtukostnaðar sem ekki átti rétt á sér. Neytendasamtökin hafa sent forsætisráðherra erindi og kalla eftir því að stjórnvöld komi strax að málum og tryggi að lántakar verði ekki fyrir meiri skaða en orðið er og tryggi að þeir njóti aðstoðar við að ná fram rétti sínum.