Á ég að þiggja inneignarnótu?
Fjölmargir hafa leitað til Neytendasamtakanna í framhaldi af tilboðum ferðaskrifstofa um inneign í stað endurgreiðslu pakkaferða sem hafa verið felldar niður eða þær afpantaðar vegna kórónaveirunnar. Ekki er ljóst hvort allar ferðaskrifstofur hafi hreinlega nægt laust fé til endurgreiðslu fjárins og því leggja fyrirtæki og stjórnvöld áherslu á að neytendur þiggi inneignarnótu í stað endurgreiðslu í beinhörðum peningum, sem þó er skýlaus réttur neytenda samkvæmt lögum.
Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@eldri.ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.
Atvinnuvegaráðuneytið gaf í gær út tilkynningu og í kjölfarið gaf Neytendastofa út leiðbeiningar. Hvorutveggja er mikilvægt að hafa til hliðsjónar. Á sama tíma og Neytendasamtökin fagna tilkynningunni og leiðbeiningunum, sem eru um margt góðar, stendur eftir spurningin hvort það sé góð hugmynd að þiggja inneignarnótur. Neytendasamtökin telja að neytendur þurfi að hafa eftirfarandi í huga við þá ákvörðun:
1. Tilkynning ráðuneytisins og leiðbeiningar Neytendastofu eru túlkun þeirra á lögunum um að COVID inneignarnnótur falli undir pakkaferðatryggingar. Ólíklegt má teja að reynt verði á þá túlkun fyrir dómi.
2. Ferðaskrifstofur eru með sérstakar pakkaferðatryggingar sem eiga almennt séð að tryggja endurgreiðslu allra greiðslna sem ferðaskrifstofur taka við. Fari allt á versta veg er þó óljóst hvort þær tryggingar nægja til að greiða allar kröfur að fullu. Athuga skal að pakkaferðatryggingin er ekki samtryggingasjóður, heldur tryggir hver ferðaskrifstofa sína starfsemi með sinni tryggingu.
3. Ljóst er að neytendur eiga rétt á endurgreiðslu í peningum. Fari allir sem eiga slíkan rétt , fram á endurgreiðslu, er líklegt að ferðaskrifstofur muni skorta lausafé og jafnvel fara í þrot.
4. Fallist neytendur á að fá inneignarnótur, getur verið að réttur neytenda til endurgreiðslu frá greiðslukortafélagi (e. chargeback) falli niður.
5. Ljóst er að þiggi neytendur inneignarnótur samkvæmt útfærslu Atvinnuvegaráðuneytisins og Neytendastofu er líklegt, þó ekki öruggt, að a.m.k. einhverjar ferðaskrifstofur haldi velli. Þá er ljóst að vera kann að einhverjir neytendur tapi inneignarnótum sínum.
Dönsk stjórnvöld ábyrgjast pakkaferðatryggingasjóðinn
Neytendasamtökin hafa lýst því yfir að þau séu reiðubúin að mæla með inneignarnótum, sé það fyllilega tryggt að neytendur beri ekki skarðan hlut frá borði. Það er ekki gert með nægjanlega skýrum hætti í tilkynningu ráðuneytisins eða leiðbeiningum Neytendastofu. Í því samhengi má benda á að í danska ríkið hefur veitt danska pakkaferðatryggingasjóðnum fjárhagsinnspýtingu og ríkisábyrgð.
Það eru sameiginlegir hagsmunir bæði neytenda og fyrirtækja að sem flest fyrirtæki haldi velli í gegnum erfiða, en vonandi skammvinna tíma. Margir neytendur eru tilbúnir að eiga inni þjónustu í formi inneignarnótu enda getur slík tilhögun skipt sköpum fyrir margar ferðaskrifstofur. Það er þó að mati Neytendasamtakanna nauðsynlegt að tryggja neytendum vernd þannig að þeir sitji ekki uppi með skaðann ef illa fer. Hvetja samtökin því stjórnvöld til að horfa til Danmerkur hvað þetta varðar.
Þá hlýtur að skjóta skökku við að tryggingaskylda ferðaskrifstofa hafi verið lækkuð í liðinni viku, nú þegar líklegt er að reyna muni á tryggingar ferðaskrifstofa á allra næstu misserum. Neytendasamtökin fara fram á að tryggingarstaða ferðaskrifstofa verði gerð opinber svo neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um viðskipti, meðal annars í ljósi getu fyrirtækjanna til að takast á við áföll. Þá óska samtökin eftir frekari tryggingum fyrir inneign neytenda hjá ferðaskrifstofum, eigi þau að mæla með þeim við neytendur.
Neytendasamtökin árétta að þau úrræði sem stjórnvöld grípa til verði að styrkja rétt neytenda en ekki vera á kostnað hans og mega ekki undir neinum kringumstæðum verða til að veikja varnir neytenda.