Flugi aflýst, hvaða rétt á ég?
Félagsmenn Neytendasamtakanna hafa kvartað yfir því að Icelandair aflýsir ekki flugi nema með minna tveggja sólarhringa fyrirvara, jafnvel þó fullljóst sé að ekki verði af fluginu löngu fyrr. Þá hefur samtökunum borist tilkynningar um að Icelandair bendi ekki á öll réttindi sem farþegar eiga kost á lögum samkvæmt. Fyrirtæki mega bjóða inneign í stað endurgreiðslu en að sama skapi getur það einnig verið réttur neytanda að fá fulla endurgreiðslu.
Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@eldri.ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.
Það er kýrskýrt ef flugfélag fellir niður flug að þeim beri að bjóða farþega upp á þrjá valmöguleika eins og sjá má á vef Samgöngustofu.
En það virðist sem Icelandair bendi farþegum sínum ekki á þann kost sem nærtækastur er, það er að segja að fá flugferðina endurgreitt að fullu. Ber þá flugrekanda að endurgreiða flugfargjaldið, skatta og öll önnur gjöld að fullu innan 7 daga frá aflýsingu flugs. Um þetta er meðal annars fjallað í 8. gr. Evrópureglugerðar EB 261/2004 um réttindi flugfarþega.
Icelandair gerir farþegum sínum kleift að samþykkja inneignarnótur á einfaldan hátt, með nokkrum smellum úr tölvupósti sem þeim er sendur. En því miður er þeim gert óþarflega flókið að sækja endurgreiðslu. Þannig erIcelandair ekki með beinan hlekk á eyðublaðið til þess að setja fram kröfur um endurgreiðslu, heldur þarf að vafra hingað: https://www.icelandair.com/support/contact-us/flight-disruptions/
Þá þarf að velja „Delay – Cancelation Assistance“ í flettivalslistanum. Þá þarf að fylla út eyðublaðið. Í neðsta dálknum undir „Comments“ skal skrifa eitthvað á borð við:
„Ég hafna tillögum að breytingum og óska eftir fullri endurgreiðslu á flugmiðum umræddrar bókunar innan 7 daga eins og lög gera ráð fyrir.“
Það vekur athygli og spurningar að mun auðveldara er að fá inneign en endurgreiðslu, en það er sjálfsögð krafa að gera þessa tvo valmöguleika jafneinfalda.