Persónuverndarstefna
Neytendasamtökin (hér eftir NS) eru félagasamtök sem vinna að bættum hag félagsmanna sinna og neytenda almennt. NS vinnur með persónugreinanleg gögn fyrir félagsmenn og aðra sem til samtakanna leita svo sem þegar leysa þarf úr ágreiningi. Persónuverndarstefna NS tekur til skráningar, vörslu og vinnslu á þeim persónuupplýsingum sem safnað er vegna milligöngumála og skráningar í félagakerfi. Um meðferð persónuupplýsinga, hvort sem snýr að vinnslu, vörslu eða miðlun, gilda lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 (hér eftir lög um persónuvernd) ásamt breytingum.
Félagsmenn eru skráðir í félagakerfi sem DK-hugbúnaður býr til og varðveitir. Í félagakerfinu eru skráðar nauðsynlegar upplýsingar svo hægt sé að innheimta félagsgjöld, og senda Neytendablaðið á skráð heimilisfang félagsmanns, svo sem nafn, kennitala og heimilisfang.
NS hefur það að leiðarljósi að halda útprentun gagna í lágmarki. Þegar þörf er á útprentun gagna eru þau varðveitt í læstum hirslum á meðan mál er til meðferðar og eytt með viðunandi hætti eigi síðar en ári eftir að máli er lokað.
Á meðan mál er til meðferðar getur verið að persónugögn séu vistuð á sérstöku lokuðu skýi (One-drive) sem einungis viðkomandi starfsmaður/starfsmenn hafa aðgang að. Skýið er viðurkennt svæði sem uppfyllir staðla um persónuvernd.
Óskir þú eftir ráðgjöf símleiðis hjá NS á auglýstum símatíma ákveður þú hvaða upplýsingum þú deilir með ráðgjafanum. Engar persónuupplýsingar eru skráðar niður símleiðis, nema óskað sé eftir símtali eða tölvupósti. Þeim er í kjölfarið eytt.
Söfnun og notkun
Í samræmi við gildandi lög um persónuvernd (og eftir atvikum samþykkis þíns) geta starfsmenn NS safnað persónuupplýsingum um þig sem nauðsynlegar eru til að svara erindum, fyrirspurnum eða annast milligöngu fyrir þína hönd. Þetta geta verið upplýsingar m.a. um nafn þitt, símanúmer, netfang, kennitölu, heimilisfang. Starfsmenn NS munu ávallt gæta fyllsta trúnaðar en nauðsynlegt getur verið í milligöngumálum eða þegar óskað er eftir því að NS setji sig í samband við fyrirtæki fyrir þína hönd að slíkar upplýsingar séu látnar fylgja með erindi samtakanna til hlutaðeigandi fyrirtækis. Starfsmenn samtakanna gæta að því að láta ekki meiri upplýsingar af hendi en nauðsynlegt er til að ná markmiði í viðkomandi máli. Allir starfsmenn NS eru bundnir trúnaði og hafa undirritað yfirlýsingu um þagnareið.
Varðveisla
NS mun reyna eftir fremsta megni að varðveita persónuupplýsingar um þig með nákvæmum og áreiðanlegum hætti. Þær eru varðveittar í þann tíma sem nauðsynlegur er til að uppfylla markmið þessarar stefnu um persónuvernd nema lengri geymslutíma sé krafist eða hann leyfður samkvæmt lögum. Gögnum tengd milligöngumálum eru ekki geymd lengur en þörf krefur og lög heimila.
Neytendasamtökin vinna tölfræðigögn sem eru ópersónugreinanleg og eru m.a. notuð í ársskýrslur.
Miðlun
Við miðlum aldrei persónuupplýsingum til þriðja aðila án þess að samþykki þitt liggi fyrir (þér er frjálst að hafna) nema þar sem okkur er það skylt samkvæmt lögum eða í þeim tilvikum sem nauðsynlegt er fyrir okkur að vinna að máli þínu eða samkvæmt næstu málsgrein.
Okkur er heimilt að miðla persónuupplýsingum til þriðja aðila (vinnsluaðila) sem er þjónustuveitandi, umboðsmaður eða verktaki okkar í þeim tilgangi að ljúka verkefni eða veita þér þjónustu sem þú hefur beðið um eða samþykkt (t.d. félagsaðild að NS). Jafnframt er okkur heimilt að deila upplýsingum með vinnsluaðilum þegar það er nauðsynlegt til að vernda brýna hagsmuni. Við deilum einnig upplýsingum í tölfræðilegum tilgangi, en þær eru ópersónugreinanlegar.
Rétt er að taka fram að allt það efni sem þú birtir eða deilir með öðrum hætti á eða með samfélagssíðum okkar eru opinberar upplýsingar. Persónuverndarstefna okkar nær ekki til upplýsinga eða vinnslu þriðja aðila, en við höfum þá enga stjórn á þeim né getum við tekið ábyrgð á notkun, birtingu eða öðrum verkum þriðja aðila.
Tilkynning um öryggisbrest
Ef öryggisbrestur á sér stað og hann hefur í för með sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklings munu NS tilkynna hinum skráða um brestinn án ótilhlýðilegrar tafar. Með öryggisbresti í þeim skilningi er átt við brot á öryggi sem leiðir til óviljandi eða ólögmætrar eyðingar persónuupplýsinga eða að þær glatist breytist, verði birtar eða aðgangur veittur að þeim í leyfisleysi.
Öryggisbrestir verða jafnframt tilkynntir til Persónuverndar í samræmi við ákvæði og skyldur laganna.
Réttindi þín
Þú átt rétt á og getur óskað eftir því að NS veiti þér upplýsingar um þær persónuupplýsingar sem fyrirtækið býr yfir sem og vinnslu og meðferð upplýsinga um þig.
Þú átt rétt á því í vissum tilvikum að persónuupplýsingar um þig séu leiðréttar eða þeim eytt, t.d. ef upplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þágu þess tilgangs sem þeirra var upphaflega aflað.
Beiðni þín verður tekin til greina og þér afhentar upplýsingar (þegar það á við) innan hæfilegs tíma, þó með þeim takmörkunum sem réttindi og frelsi annarra gera, þ.m.t. viðskiptaleyndarmál og hugverkaréttindi. Þér verður tilkynnt og gefin skýring ef töf verður á afgreiðslu eða ef ekki er unnt að verða við beiðninni að fullu eigi síðar en mánuði frá móttöku hennar. Þú getur kvartað til Persónuverndar ef við neitum að afhenda þér ákveðnar upplýsingar.
Persónuupplýsingar sem unnið er með á vef Neytendasamtakanna ns.is
Á vefsíðunni ns.is eru persónuupplýsingar meðhöndlaðar í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Í þeim tilfellum þar sem persónuupplýsingar eru skráðar, t.d. vegna fyrirspurna eða skráninga, þar sem þú þarft að skrá nafn þitt, heimilisfang, tölvupóstfang eða aðrar persónulegar upplýsingar gætir starfsfólk NS þess að varðveita framangreindar upplýsingar á öruggan og tryggan hátt. Slíkum upplýsingum verður ekki miðlað áfram til þriðja aðila án samþykkis viðkomandi eða dómsúrskurðar.
Á vefnum ns.is er engum persónugreinanlegum gögnum safnað sjálfkrafa um notkun og notendur. Hýsing vefsins og gagna sem þar eru vistuð er hjá innlendum hýsingaraðila sem notar vottaðar öryggisvarnir.
Ábyrgð
Neytendasamtökin bera ábyrgð á skráningu og meðferð persónuupplýsinga sem snýr að starfsemi þeirra. Hægt er að hafa samband og óska eftir nánari upplýsingum hjá Neytendasamtökunum:
Neytendasamtökin
Guðrúnartúni 1
105 Reykjavík
ns@eldri.ns.is
545-1200
Persónuverndarstefna síðast uppfærð: 15. febrúar 2022