Þegar vara er gölluð
Sem betur fer ganga neytendakaup vel og bæði neytandi og seljandi ganga sáttir frá borði. Þó geta komið upp vandamál svo sem þegar upp kemur galli í vöru. Þegar neytendur telja að vara sé gölluð eru ýmsir þættir sem þarf að kanna, svo sem hvort varan sé í raun göllup, hvort neytandi kvarti innan tímafrests og hvaða úrræði standa til boða.
Hægt er að lesa lög um neytendakaup hér – en að neðan má finna upplýsingar um það helsta sem varðar galla á vöru.
Eiginleikar söluhlutar og galli
Vörur eiga að vera í samræmi við samning, þ.e. í samræmi við lýsingar seljanda á þeim, henta til þeirra nota sem neytandinn ætlar þeim, henta til sömu nota og sambærilegar vörur og vera í samræmi við réttmætar væntingar neytandans hvað varðar gæði og notagildi. Þá skulu fylgja vörunni leiðbeiningar um uppsetningu o.þ.h. En um eiginleika vöru er fjallað í 15. gr. laga um neytendakaup:
- gr. Eiginleikar söluhlutar.
Söluhlutur skal, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi.
Ef annað leiðir ekki af samningi skal söluhlutur:
a. henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til;
b. hafa þá eiginleika til að bera sem neytandinn mátti vænta við kaup á slíkum söluhlut að því er varðar endingu og annað;
c. henta í ákveðnum tilgangi sem seljandinn vissi eða mátti vita um þegar kaup voru gerð, nema leiða megi af atvikum að neytandi hafi ekki byggt á sérþekkingu seljanda og mati hans eða hafi ekki haft sanngjarna ástæðu til þess;
d. hafa þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur vísað til með því að leggja fram prufu eða líkan;
e. vera í venjulegum eða öðrum forsvaranlegum umbúðum sem nauðsynlegar eru til að varðveita og vernda hann;
f. vera í samræmi við þær kröfur opinbers réttar sem gerðar eru í lögum eða opinberum ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga á þeim tíma sem kaup eru gerð, ef neytandinn ætlar ekki að nota hlutinn á þann hátt að kröfurnar séu þýðingarlausar;
g. vera laus við réttindi þriðja manns, t.d. eignarrétt eða veðrétt. Söluhluturinn skal einnig vera laus við kröfur þriðja manns um réttindi í hlutnum, enda þótt þeim sé mótmælt, nema kröfurnar séu augljóslega órökstuddar.
Þá skiptir jafnframt máli hvort að vara sé í samræmi við það sem seljandi hefur auglýst. Þannig ef seljandi hefur t.d. vanrækt að gefa upp upplýsingar um hlutinn sem hefðu skipt neytenda máli við kaupinn, eða þá að upplýsingar sem seljandi hefur gefið við markaðssetningu samræmist ekki hlutnum. Um þessi atriði er fjallað í 16. gr. laga um neytendakaup:
- gr. Gallar.
Söluhlutur telst vera gallaður ef:
a. hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 15. gr.;
b. seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði varðandi hlutinn eða not hans sem seljandi hlaut að þekkja til og neytandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin;
c. hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun nema seljandi sýni fram á að réttar upplýsingar hafi verið gefnar neytanda við kaupin eða að upplýsingarnar hafi ekki haft áhrif á kaupin;
d. nauðsynlegar upplýsingar um uppsetningu, samsetningu, notkun, umönnun og geymslu fylgja ekki söluhlut.
Regla c-liðar 1. mgr. gildir með sama hætti þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem annar en seljandi hefur gefið á umbúðum hlutarins, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu á vegum seljanda eða fyrri söluaðila.
Neytandi getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð.
Neytandi getur ekki borið fyrir sig galla ef orsök gallans má rekja til efniviðar sem neytandinn hefur sjálfur lagt til. Þetta gildir þó ekki ef seljandinn hefði átt að ráða neytanda frá notkun efnisins vegna óhentugra eiginleika þess.
Ef þessi atriði eru ekki í lagi eru allar líkur á því að vara teljist gölluð. Næsta skref væri að skoða hvort að neytandi sé innan tímafrests til að gega lagt fram kvörtun vegna gallans.
Kvörtunarfrestur neytanda
Ef söluhlutur er gallaður ber neytanda að tilkynna seljanda um að hann muni bera gallann fyrir sig án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var. Ef neytandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku getur hann ekki borið gallann fyrir sig síðar. Ef söluhlut, eða hlutum hans, er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að hlutnum var veitt viðtaka.
Þannig má segja að neytandi hefi tvö ár, eða allt að fimm árum ef hlut er ætlaður verulegri lengri endingartími, til að leggja fram kvörtun við seljanda.
Alltaf er ráðlegt að hafa samband við seljanda um leið og galla verður vart og gera það með sannanlegum hætti, svo sem með tölvupósti. Það er mikilvægt fyrir neytendur að hafa sönnun fyrir því að kvörtun hafi verið lögð fram með sannanlegum hætti innan tímafrests.
Fyrstu sex mánuði frá kaupum þá ber seljandi sönnunarbyrði á því að galli hafi ekki verið til staðar við kaupin. Eftir sex mánuði þá þarf neytandinn að sýna fram á að um galla sé að ræða sem seljandi ber ábyrgð á.
Þó svo að neytendur hafi tvö, og allt að fimm, árum til að kvarta vegna galla þá er ekki sjálfgefið að vara sé gölluð ef hún endist ekki svo lengi. Þannig þarf að leiða líkur á því að um galla sé að ræða, en ekki t.d. eðlilegt slit eða skemmdir vegna rangrar notkunar. Sumar vörur eru þannig þess eðlis að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að þær endist endilega fullkomnlega í mörg ár, svo sem slithlutir eins og bremsuborðar eða rafhlöður. Ef um galla er að ræða ber því seljanda að bæta úr því ef hleðslutæki eða rafhlaða í fartölvu eða síma reynist gölluð. Sú skylda fellur hins vegar niður ef ekki er um galla að ræða, ef t.a.m. sýnt er ram á að þessi tæki séu notuð vitlaust eða skemmd eða ef um eðlilegt slit er að ræða.
Úrræði
Sé vara gölluð þá kveða lög um neytendakaup á um ýmis úrræði fyrir neytendur. Í 26. gr. laga um neytendakaup kemur fram að ef söluhlutur reynist gallaður og það er ekki sök neytenda þá getur neytandi:
Haldið eftir greiðslu kaupverðs
-
- Þetta ætti t.d. við ef neytandi hefur ekki greitt vöru að fullu og ljóst að galli rýri verðmæti vörunnar meira en sem nemur því verði sem hann á eftir að greiða. Neytandinn getur þannig haldið eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans.
Valið milli úrbóta eða nýrrar afhendingar
-
- Úrbætur og ný afhending skulu fara fram án kostnaðar og verulegs óhagræðis fyrir neytanda, innan hæfilegs tíma og þannig að neytandinn fái bætt útgjöld sín úr hendi seljanda.
Seljandi á ekki rétt á að bæta úr sama galla eða afhenda nýjan söluhlut vegna sama galla oftar en tvisvar sinnum nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæta frekari úrbætur eða afhendingu.
Ef úrbætur eða ný afhending seljanda hafa það í för með sér að neytandi getur ekki notað söluhlut í meira en eina viku getur neytandi krafist þess að fá sambærilegan hlut til umráða á kostnað seljanda. Þetta á þó aðeins við ef krafan telst sanngjörn með hliðsjón af þörfum neytandans og þeim kostnaði og óhagræði sem það hefur í för með sér fyrir seljanda.
Ef ekki reynist um galla að ræða getur seljandi aðeins krafist greiðslu fyrir þær athuganir sem nauðsynlegar voru til að komast að raun um hvort söluhlutur væri gallaður, og greiðslu fyrir lagfæringu á hlutnum ef seljandi hefur gert neytanda það ljóst að hann þurfi sjálfur að bera umræddan kostnað.
- Úrbætur og ný afhending skulu fara fram án kostnaðar og verulegs óhagræðis fyrir neytanda, innan hæfilegs tíma og þannig að neytandinn fái bætt útgjöld sín úr hendi seljanda.
Krafist afsláttar
-
- Ef ekki verður af úrbótum eða nýrri afhendingu getur neytandi krafist afsláttar af kaupverði. Skal afslátturinn reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.
Krafist riftunar
-
- Ef ekki er unnt að bæta úr galla með úrbótum eða nýrri afhendingu, eða gallinn er verulegur, þá getur neytandinn rift kaupunum.
Krafist skaðabóta
-
- Neytandi getur krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna galla á söluhlut.