Iðnaðarmenn

idnadarmadur-malari

Kaup á þjónustu

Vinna iðnaðarmanna

Hér má finna ýmis góð ráð fyrir neytendur  sem hyggja á framkvæmdir eða þurfa að kaupa þjónustu iðnaðarmanna. Þegar upp kemur ágreiningur um þjónustu iðnaðarmanna eru það yfirleitt ákvæði laga nr. 42/2000 um þjónustukaup sem koma til skoðunar.

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga

Áður en farið er í framkvæmdir er mikilvægt að fá tilboð í verkið en áður en það er gert þarf umfang verksins að liggja fyrir. Neytendur geta ýmist sjálfir sett saman magntöluskrá eða fengið utanaðkomandi aðila til að vinna hana fyrir sig. Magntöluskrá ætti að sýna alla verkþætti og magn hvers þeirra. Þegar um er að ræða stærri og flóknari verk er mælt með því að fá tækni- eða verkfræðing eða meistara í viðkomandi iðn til að vinna magntöluskrá, verklýsingu og útboðsgögn.

Neytendasamtökin mæla eindregið með því að fólk fái tilboð í verk. Einnig mikilvægt að gera verksamning við verktaka/iðnaðarmann áður en ráðist er í verkið.

Á vef Samtaka iðnaðarins https://www.si.is/mannvirki/gatlisti-verksamningur/  má bæði finna góðan gátlista og sýnishorn af samningi sem neytendur geta nýtt sér

Í tilboði ætti að koma fram hvert aðalverk samnings er, ákvæði varðandi aukaverk/viðbótarverk sem komið geta upp sem og verkáætlun. Með því að fá skriflegt tilboð minnka líkur á að ágreiningur komi upp að verki loknu. Samþykki neytandi tilboðið er kominn á bindandi samningur – athugið að tölvupóstsamskipti flokkast sem skriflegt samkomulag. Í framhaldinu er síðan ráðlegt að gera verksamning. Ef þessu ferli er fylgt er hægt að bera tilboðin saman þar sem þau eru unnin út frá sömu forsendum.

Ef vinna þarf verk sem ekki var samið um ber iðnaðarmanni að tilkynna það til neytanda

Upp getur komið sú staða eftir að verk hefur hafist að í ljós kemur að það sé hagkvæmt eða eðlilegt fyrir neytandann að vinna annað verk samtímis. Í 8. gr. laganna er fjallað um slík tilvik og ber seljanda að tilkynna neytandanum ef í ljós kemur að eðlilegt sé að vinna viðbótarverk og óska eftir fyrirmælum neytanda. Undantekning frá þessu má finna í sömu grein þar sem kemur fram að t.d. ef seljandi nær ekki í neytandann þá skuli hann í ákveðnum tilvikum vinna viðbótarverkið en eigi þá rétt á því að fá greiðslu fyrir það verk.

  1. gr.
    Seljanda þjónustu ber að tilkynna neytanda ef í ljós kemur þegar verk er unnið að eðlilegt sé að vinna önnur verk samtímis vegna tengsla þeirra við aðalverk. Skal seljandi óska eftir fyrirmælum neytanda um viðbótarverk.
    Náist ekki til neytanda eða seljandi þjónustu fær ekki fyrirmæli frá honum innan sanngjarns frests skal hann vinna viðbótarverkið ef:
    1. viðbótarkostnaður vegna þess er óverulegur eða má teljast óverulegur miðað við verð þjónustu sem samið hefur verið um,
    2. sérstakar ástæður mæla með því að neytandi vilji láta vinna viðbótarverkið í tengslum við kaup hans á þjónustunni,
    3. ekki er unnt að fresta því vegna hættu sem af því getur stafað.
    Hafi seljandi þjónustu unnið viðbótarverk í samræmi við ákvæði þessara laga ber honum greiðsla fyrir þau verk samkvæmt ákvæðum VII. kafla.

Komi upp ágreiningur varðandi lokareikning án þess að fyrir liggi skriflegt tilboð eða samningur getur reynst erfitt fyrir neytanda að sanna að samið hafi verið um annað verð en reikningur kveður á um. Algengast er að neytandi sé ekki sáttur við fjölda vinnustunda sem iðnaðarmaður rukkar fyrir.

Ef um galla í verki er að ræða getur neytandi farið fram á það að iðnaðarmaðurinn lagfæri gallann nema það valdi iðnaðarmanninum ósanngjörnum kostnaði eða verulegu óhagræði. Yfirleitt eru það hagsmunir beggja aðila að iðnaðarmaðurinn bæti úr gallanum. Ef iðnaðarmaður býður fram úrbætur og framkvæmir þær innan sanngjarns frests er kaupandi bundinn af því að þiggja þær nema hann hafi sérstaka ástæðu til að hafna þeim. Iðnaðarmaðurinn verður þá að framkvæma úrbætur án kostnaðar og verulegs óhagræðis fyrir neytanda. Ef hann bætir hins vegar ekki úr gallanum innan sanngjarns frests getur neytandi farið fram á afslátt eða jafnvel rift í ákveðnum tilvikum. Oft og tíðum leysast svona mál með farsælum hætti og án þess að mál þurfi að fara til úrskurðar- eða kærunefnda.

Telji neytandi að iðnaðarmaðurinn hafi ekki staðið við sinn hluta, til dæmis ef verkið er illa unnið eða reikningur þykir of hár, er fyrsta skrefið að hafa samband við iðnaðarmanninn og leita lausna. Þá geta líka komið upp tilvik þar sem neytandi er ósáttur við verk en hefur greitt án þess að fá nótu. Í slíkum málum er erfitt fyrir neytandann að sækja rétt sinn, t.d. fyrir kærunefnd því engin gögn eru til.

Yfirleitt eru það hagsmunir beggja aðila að iðnaðarmaðurinn bæti úr gallanum og leysast mörg mál þannig. Ef það skilar ekki árangri geta félagsmenn leitað til Neytendasamtakanna sem taka að sér milligöngu og ráðleggingar varðandi úrlausn ágreinings. Leysist málið ekki þrátt fyrir aðkomu Neytendasamtakanna er hægt að senda mál fyrir kærunefnd. Um er að ræða ódýrt og skilvirkt úrræði fyrir neytendur sem að öðrum kosti hefðu engin úrræði önnur er að leita með mál sín fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði.

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa

Sé ekki hægt að útkljá deilumál getur neytandi farið með mál fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Það er skilyrði að neytandi hafi sett sig í samband við iðnaðarmann með það að markmiði að ná sáttum í viðkomandi máli svo kærunefndin taki það til meðferðar. Málsmeðferðartími er breytilegur eftir umfangi mála en gert er ráð fyrir að meðallengd mála sé um 90 dagar frá því að kvörtun berst. Seljandi hefur 30 daga til að tilkynna nefndinni, frá því að honum var kynnt niðurstaða, að hann muni ekki una úrskurði. Ef tilkynning berst ekki frá seljanda innan tilskilins frest verður úrskurður bindandi fyrir iðnaðarmann og aðfararhæfur. Nefndin heldur einnig úti skrá yfir þá sem fylgja ekki úrskurðum nefndarinnar og er skráin birt á heimasíðu hennar.

 

Úrskurðarnefnd og ábyrgðarsjóður MSI

Ef viðkomandi meistari er innan Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins (MSI) getur neytandi lagt ágreininginn fyrir úrskurðarnefnd MSI. Allir félagsmenn MSI eru löggiltir iðnmeistarar og eiga aðild að ábyrgðarsjóði MSI. Að baki ábyrgðarsjóði MSI standa Samtök iðnaðarins og 12 meistarafélög. Sjóðnum er ætlað að stuðla að trausti á milli neytenda og iðnaðarmanna. Skilyrði þess að mál sé lagt fyrir úrskurðarnefnd MSI er að fyrir liggi skriflegur samningur á milli neytanda og iðnaðarmanns. Fyrir úrskurðarnefndina er einungis hægt að leggja ágreining er varðar faglega vinnu iðnaðarmanna. Nefndin tekur ekki á málum er varða útgáfu reikninga, efnisgalla né nokkurs annars. Nánari upplýsingar um skilyrði málskots er hægt að finna á vefsíðu SI.

Ýmsar leiðir eru færar en til að auðvelda neytendum að finna meistara í viðkomandi verk hafa Samtök iðnaðarins gert fólki kleift að leita í félagatali þeirra. Gefst þá kostur á að velja landshluta og þá iðngrein sem þarf í viðkomandi verk. Með þessum hætti er hægt að nálgast auðveldlega allar helstu upplýsingar um viðkomandi iðnaðarmann til að hafa samband og óska eftir tilboði. Einnig er hægt að sjá lista yfir alla löggilta iðnmeistara inn á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Félag pípulagningameistara og Málarameistarafélagið bjóða neytendum upp á að óska eftir tilboðum inni á síðum félagsins. Þarf þá einungis að senda út eina beiðni um tilboð sem sjálfkrafa áframsendist til allra félagsmanna félagsins.

Samið um verð fyrirfram eða verðáætlun liggur fyrir

Hafi verið samið fyrirfram um verð þá á það að jafnaði að gilda sbr. meginregluna um skuldbindingargildi samninga. Oft gerir seljandi verðáætlun, þ.e. áætlun um hvað þjónustan kosti án þess að um endanlegt verð hafi verið samið. Í þeim tilvikum gildir regla 29. gr. laga um þjónustukaup um að verð megi ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun. Hlutlægt mat ræður því hvort að verð teljist hafa farið verulega fram úr áætlun og við matið getur þurft m.a. að líta til þess hvaða upplýsingar seljandi veitti neytandanum, þ.e. hvort einhver fyrirvari var gerður um verðið, hvaða tegund þjónustu um ræðir og svo hvaða venja gildir í umræddri þjónustugrein. Það hvílir á neytanda að sanna að gerð hafi verið verðáætlun.

Undantekningar frá því að verð eigi að halda:

Ef gert hefur verið bindandi tilboð eða verðáætlun þá getur seljandi farið fram á viðbótargreiðslu hafi verð hækkað vegna kringumstæða sem hann gat ekki séð fyrir (30. gr. laga um þjónustukaup). Seljandi ber sönnunarbyrði fyrir því að ófyrirséðar kringumstæður í skilningi 30. gr. eigi við. Seljandi getur ekki borið ákvæðið fyrir sig ef verðhækkun er vegna aðstæðna sem varða hann sjálfan, svo sem skortur á vinnuafli, veikindi o.þ.h. Ef það kemur í ljós að þær kringumstæður sem vísað er til í 30. gr. eigi við þá ber seljanda að tilkynna neytanda um það án tafar og óska eftir fyrirmælum um verkið.

  1. gr.
    Þrátt fyrir að seljandi þjónustu hafi gert tilboð eða verðáætlun ber honum viðbótargreiðsla hafi verð hækkað vegna kringumstæðna sem hann gat ekki séð fyrir.

Ef gerð hefur verið verðáætlun þá getur seljandi farið fram á viðbótargreiðslu sem ekki telst veruleg (29. gr. laga um þjónustukaup)

  1. gr.
    Hafi seljandi þjónustu látið neytanda verðáætlun í té má verðið ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun.

Rétt er að hafa í huga að iðnaðarmanni er heimilt að innheimta greiðslu fyrir tilboðsgerð þótt slíkt sé afar sjaldgæft

Oft getur verið erfitt fyrir seljanda að gefa upp verðáætlun fyrir tiltekið verk án þess að fara í undirbúningsvinnu. Þannig getur komið upp sú staða að neytandi óskar eftir því við seljanda að skilgreina hversu mikil vinna og hversu hár kostnaður myndi felast í tiltekinni þjónustu. Í 33. gr. laganna kemur fram að seljanda þjónustu sem að beiðni neytanda hefur tekið að sér undirbúningsvinnu í þeim tilgangi að skilgreina hve vinnan væri mikil eða verð þjónustu sem inna skal af hendi er heimilt að krefjast greiðslu fyrir hana

  1. gr.
    Seljanda þjónustu sem að beiðni neytanda hefur tekið að sér undirbúningsvinnu í þeim tilgangi að skilgreina hve vinna væri mikil eða verð þjónustu sem inna skal af hendi er heimilt að krefjast greiðslu fyrir hana.

Iðnaðarmanni ber að upplýsa neytandann ef verk er óhagkvæmt

Sjaldnast eru þeir neytendur sem kaupa þjónustu iðnaðarmanna sérfræðingar á því sviði sem þjónustan tekur til. Af þeim sökum getur hvílt upplýsingakvöð á seljanda að láta neytanda vita ef það verk sem neytandinn hyggst framkvæma er ekki hagkvæmt. Um þetta tilvik er fjallað um í 6. gr. laganna.

  1. gr.
    Seljanda þjónustu er skylt að veita upplýsingar um hvort fyrirhuguð kaup á þjónustu eru óhagkvæm fyrir neytandann að teknu tilliti til kostnaðar við verkið með hliðsjón af verðgildi hlutarins eða öðrum atriðum sem áhrif hafa á hagkvæmni þeirrar þjónustu sem óskað er eftir.
    Verði seljanda ekki ljóst að fyrirhuguð kaup á þjónustu eru óhagkvæm fyrr en vinna er hafin eða að verð þjónustunnar muni verða verulega hærra en neytandi hefur mátt gera ráð fyrir skal seljandi tilkynna neytanda um það og óska eftir fyrirmælum um hvort frekari vinna skuli af hendi leyst. Hafi seljandi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, ekki óskað eftir fyrirmælum og ætla má að neytandi hefði hætt við samninginn að fengnum upplýsingum skulu greiðslur fyrir verkið miðast við að neytandi hefði dregið sig út úr samningnum á því stigi.
    Hafi seljanda þjónustu ekki tekist að ná til neytanda eða hann hefur ekki fengið fyrirmæli frá neytanda innan sanngjarns frests er honum heimilt að hætta og leysa ekki frekari vinnu af hendi samkvæmt þjónustusamningnum. Þetta gildir þó ekki ef seljandi hefur sérstaka ástæðu til að ætla að neytandi vilji að lokið verði við verkið.

 

Hafi verið samið um verð fyrirfram þá á það að jafnaði að gilda sbr. meginregluna um skuldbindingargildi samninga. Oft gerir iðnaðarmaður verðáætlun, þ.e. áætlun um hvað þjónustan kosti án þess að um endanlegt verð hafi verið samið. Í þeim tilvikum gildir 29. gr. laga um þjónustukaup um að verð megi ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun. Hlutlægt mat ræður því hvort að verð teljist hafa farið verulega fram úr áætlun og við matið getur þurft m.a. að líta til þess hvaða upplýsingar seljandi veitti neytandanum, þ.e. hvort einhver fyrirvari var gerður um verðið, hvaða tegund þjónustu um ræðir og svo hvaða venja gildir í umræddri þjónustugrein. Það hvílir á neytanda að sanna að gerð hafi verið verðáætlun.

Undantekningar frá því að verð eigi að halda:

Ef gert hefur verið bindandi tilboð eða verðáætlun þá getur seljandi farið fram á viðbótargreiðslu hafi verð hækkað vegna kringumstæða sem hann gat ekki séð fyrir (30. gr. laga um þjónustukaup). Seljandi ber sönnunarbyrði fyrir því að ófyrirséðar kringumstæður í skilningi 30. gr. eigi við. Seljandi getur ekki borið ákvæðið fyrir sig ef verðhækkun er vegna aðstæðna sem varða hann sjálfan, svo sem skortur á vinnuafli, veikindi o.þ.h. Ef það kemur í ljós að þær kringumstæður sem vísað er til í 30. gr. eigi við þá ber seljanda að tilkynna neytanda um það án tafar og óska eftir fyrirmælum um verkið.

  1. gr.
    Þrátt fyrir að seljandi þjónustu hafi gert tilboð eða verðáætlun ber honum viðbótargreiðsla hafi verð hækkað vegna kringumstæðna sem hann gat ekki séð fyrir.

Það kemur fyrir að verk er unnið án þess að samið hafi verið um verð fyrirfram.

Í 28. gr. laganna kemur fram að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Ef seljandi þjónustu hefur vísað til verðs í verðlistum, auglýsingum eða bæklingum skal það lagt til grundvallar. Sé samið um verk miðað við ákveðinn tímafjölda eða verðið er ákveðið miðað við efniseiningu ræðst verðið af því hversu margir tímar voru í raun unnir eða hversu mikið efni var notað.
Verðið skal ákveðið með hliðsjón af því hve þjónustan er mikil og hvers eðlis hún er. Verðið er þannig háð því hver þjónustan er og hve mikið og vel er unnið. Við mat á því hvort efnismagn og tímafjöldi séu hæfileg skal miða við hvað yfirleitt tíðkast í greininni þegar sambærileg þjónusta er innt af hendi.
Seljanda ber að taka tillit til hagsmuna neytanda. Ef hátt verð stafar af því að skipulagning verks er ekki forsvaranleg af hálfu seljanda þjónustunnar getur neytandi neitað að greiða annað en sanngjarnt verð. Sama á við þegar seljandi þjónustu hefur notað kostnaðarsamara vinnufyrirkomulag en nauðsynlegt er eða notað er efni sem er óþarflega dýrt. Það getur einnig leitt af leiðbeiningarskyldu seljanda þjónustu að upplýsa neytanda um hversu mikla vinnu borgi sig að vinna. Ef þjónusta tekur lengri tíma en ella vegna aðstæðna sem varða neytanda getur seljandi farið fram á hærri greiðslu. Ef vinna er ekki leyst af hendi eins fljótt og unnt er eða tekur lengri tíma vegna aðstæðna er varða seljanda þjónustu þarf neytandi ekki að greiða hærra verð sem af því leiðir.

Sönnunarbyrði hvílir almennt á neytandanum um að umkrafið verð seljanda sé ósanngjarnt. Ef neytandi vill sýna fram á að umkrafið verð sé ósanngjarnt getur hann aflað sér matsgerðar hjá óháðum sérfróðum aðila.

Hafi ekki verið samið um verð getur neytandi krafist þess að seljandi geri honum sundurliðaðan reikning þannig að hann geti séð hvernig heildarverðið er reiknað út., sbr. 34. gr. laga um þjónustukaup

  1. gr.
    Hafi ekki verið samið um verð getur neytandi krafist þess að seljandi geri honum sundurliðaðan reikning fyrir hinni seldu þjónustu þannig að hann geti séð með hvaða hætti heildarverð þjónustunnar er reiknað út.
    Neytanda ber ekki skylda til að greiða seljanda fyrir þjónustu fyrr en hann hefur fengið reikning sem er í samræmi við ákvæði 1. mgr. og gildandi opinber fyrirmæli um gerð reikninga.

Neytendafréttir tengdar vörum og þjónustu