Ferðaskrifstofa endurgreiði
-Skilmálar björgunarflugs halda ekki
Neytendasamtökin vekja athygli á úrskurðum Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa (nr. 11/2020 og 55/2020) þar sem ferðaskrifstofu er gert að endurgreiða ferðamanni sem þurfti að stytta ferð sína vegna kórónuveirufaraldursins, helming kaupverðs ferðarinnar. Telja samtökin afar líklegt að úrskurðurinn hafi fordæmisgildi fyrir þau hundruð ferðamanna sem neyddust til að stytta ferðir sínar og koma heim úr pakkaferðalagi sínu vegna kórónuveirufaraldursins.
Félagsmaður Neytendasamtakanna fór á vegum ferðaskrifstofu í pakkaferð til Kanaríeyja í mars sl. Fjórum dögum síðar var honum tilkynnt að honum yrði flogið heim daginn eftir vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust við úrbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Í kjölfarið fór hann fram á að ferðaskrifstofan endurgreiddi honum helming kaupverðs ferðarinnar sem hún hafnaði. Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur nú staðfest að pakkaferðalangurinn átti rétt á endurgreiðslunni, jafnvel þó hann hafi skrifað undir plagg þess efnis að hann afsalaði þessum rétti sínum.
Neytendasamtökin benda félagsmönnum sem eru í sömu sporum á að sækja rétt sinn. Félagsmenn geta haft samband við Neytendasamtökin og fengið nánari upplýsingar og aðstoð. Best er að senda tölvupóst á ns@eldri.ns.is með upplýsingum um málavexti.