Ný stjórn og ályktanir aðalfundar
Aðalfundur Neytendasamtakanna var haldinn 31. október 2020.
Breki Karlsson var einn í kjöri til formanns og er því sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára. Einnig var sjálfkjörið í stjórn félagsins. Nýja stjórn Neytendasamtakanna skipa Auður Alfa Ólafsdóttir, Guðjón Sigurbjartsson, Guðmundur Gunnarsson, Gunnar Alexander Ólafsson, Helga Margrét Marzellíusardóttir, Liselotte Widing, Páll Rafnar Þorsteinsson, Pálmey Helga Gísladóttir, Sigurlína G. Sigurðardóttir, Snæbjörn Brynjarsson, Stefán Hrafn Jónsson og Þórey S. Þórisdóttir.
Auk venjulegra aðalfundastarfa voru eftirfarandi ályktanir samþykktar einróma:
Um neytendarétt og Neytendastofu
Í framhaldi af áformum stjórnvalda um breytingar á Neytendastofu sem kynntar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda ályktar aðalfundur Neytendasamtakanna 2020 eftirfarandi:
Neytendasamtökin gjalda varhug við óútfærðum áformum um tilfærslu verkefna neytendaréttarsviðs Neytendastofu út frá sparnaðarsjónarmiðum fyrir ríkissjóð. Ákvarðanir um breytingar á verkefnum Neytendastofu eða um niðurlagningu hennar verður að taka fyrst og fremst með hag neytenda í huga og með samráði og samræðum við almenning og almannasamtök sem gæta hags neytenda.
Aðalfundur Neytendasamtakanna hvetur stjórnvöld til að horfa til þess sem best gerist í nágrannalöndum okkar á þessu sviði. Nú er rétti tíminn til að renna styrkari stoðum undir neytendarétt á Íslandi og stórefla neytendastarf, bæði af opinberri hálfu og hjá samtökum neytenda. Neytendasamtökin eru reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um framtíðarskipan þessara mála.
Um umbætur í endurvinnslumálum
Neytendur hafa undanfarin ár og áratugi lagt meiri og meiri áherslu á sjálfbærni og endurvinnslu. Baráttan fyrir hreinna og fjölbreyttara umhverfi nær til allra þátta hagkerfisins og þegar á skortir getur vistkerfið orðið fyrir óafturkræfum skaða sem gerir umhverfi okkar snauðara. Því er alvarlegt þegar ríki og sum sveitarfélög bregðast skyldum sínum og jafnvel alþjóðlegum skuldbindingum.
Aðalfundur Neytendasamtakanna 2020 telur stöðu endurvinnslumála á Íslandi í ólagi og hvetja sveitarstjórnir og ríkisvaldið til að gera betur. Sér í lagi veldur lök staða glerendurvinnslu áhyggjum. Neytendasamtökin skora á stjórnvöld að bæta úr hið snarasta. Málið varðar umhverfi okkar og alþjóðlegan orðstír Íslendinga, og ekki síst er í húfi trúnaðartraust samviskusamra neytenda sem vilja að endurvinnslustörfin skili raunverulegum árangri.
Um upprunamerkingu matvæla
Fyrir hendi eru þokkalega góðar reglur um upprunamerkingar matvæla í matvörubúðum. Mikilvægt er að eftir þeim sé farið, ekki síst í faraldursástandi eins og núna.
Aðalfundur Neytendasamtakanna 2020 krefst þess að öllum sem selja matvæli, hvort sem það eru matvörubúðir, veitingahús eða mötuneyti, verði gert skylt að merkja uppruna matvæla sem í boði eru, með svo skýrum hætti að það fari ekki á milli mála. Réttur til upplýsinga er ein grunnréttinda neytenda samkvæmt Neytendasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bættar upprunamerkingarnar stuðla að því að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun við kaup matvæla.