Tollar, tap og traust
Í nýrri skýrslu starfshóps á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um þróun tollverndar er dregið fram að hvergi í aðildarríkjum OECD og Evrópusambandsins séu tollar hærri en einmitt á Íslandi, Noregi og Sviss. Það kemur því ekki á óvart að hvergi sé matvælaverð hærra en einmitt í þessum löndum.
Tilgangur tolla er að vernda innlenda framleiðendur með því að hækka verð innfluttra vara og draga þannig úr eftirspurn eftir þeim. Tollheimta skilar ríkissjóði auknum tekjum og innlendum framleiðendum hugsanlega einhverjum ávinningi, en tap annarra er samt meira en sem því nemur. Vegna hærra vöruverðs kaupa neytendur minna og markaðurinn dregst saman. Þá draga tollar úr hvata til nýsköpunar, þar sem samkeppnisforskotið verður álögur á aðra, en ekki gæði vöru. Tollvernd er því í raun rangnefni því tollar mynda tap alls samfélagsins. Réttnefni væri tollatap.
Nýlega skipuðu utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óformlegan vinnuhóp sem gera á úttekt á tollasamningi við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur og meta hagsmuni Íslands af óbreyttum tollasamningi. Ekki er hægt að skilja starf vinnuhópsins öðruvísi en að verið sé að láta undan áhrifabeitingu þrýstihóps sem krefst meiri álaga á neytendur í formi hærri tolla. Jafnvel hafa heyrst kröfur um að stöðva eigi innflutning á kjöti þar sem hætta sé á að birgðir af innlendu kindakjöti safnist upp vegna samdráttar í neyslu innanlands og minni útflutnings. Enn á ný telja einhverjir hagsmunagæslumenn í lagi að láta neytendur borga brúsann þegar harðnar á dalnum.
Neytendasamtökin gjalda verulegum varhug við því að hróflað verði við tollasamningnum nema markmiðið sé að auka tollkvóta enn frekar. Samningurinn var mikilvægt og löngu tímabært skref sem hefur skilað neytendum lægra verði. Hafi áætlanir um útflutning ekki gengið eftir er ekki við íslenska neytendur að sakast. Þá eru allar hugmyndir um að stöðva innflutning á kjöti vegna minni sölu ekkert annað en neyslustýring, sem á engan hátt er réttlætanleg. Slíkt gæti auk þess þýtt brot á fyrrnefndum samningi. Það verður að leggja af þá lensku að fyrsta hugmynd sem komi upp þegar eitthvað bjátar á sé að seilast í vasa neytenda.
Tollar og verndarhyggja eru hamlandi stuðningur sem til leiða til taps neytenda, og framleiðenda þegar litið er til lengri tíma. Þessi hamlandi stuðningur er hluti af gamalli og hverfandi arfleifð sem verður að láta af. Þess í stað þarf að leggja áherslu á styðjandi stuðning, stuðning við nýsköpun og beinan stuðning við bændur. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur hafa sýnt að þeim er heilt yfir er treystandi til að framleiða holl og góð matvæli. Matvælaframleiðendur verða að treysta eigin framleiðslu. Treysta verður neytendum til að velja, en láta af kröfum um tollmúra og neyslustýringu.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. nóvember 2020