Netverslun – vert að vita
Netverslun hefur aukist til muna og líkur á að hún verði með mesta móti á næstunni. Neytendasamtökin hafa tekið saman nokkra punkta sem vert er að hafa í huga þegar verslað er á netinu.
Þegar skila þarf vöru
Þegar vörur eru keyptar á netinu er neytendaréttur að jafnaði nokkuð rýmri en þegar vara er keypt í verslun, sér í lagi hvað varðar rétt neytenda til að skila vöru.Samkvæmt lögum hefur neytandi fjórtán daga frest til að skila vöru sem keypt er á netinu. Er tekið tillit til þess að neytandinn hefur ekki sjálfur tækifæri til að skoða vöruna með eigin augum, prófa hana eða máta. Sendingarkostnaður, þegar vöru er skilað, fellur alla jafna á neytandann og ef um er að ræða innflutta vöru er líklegt að neytandinn hafi greitt virðisaukaskatt af vörunni. Það á að vera hægt að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan ef sýnt er fram á að varan sé send aftur til seljanda.
Mikilvægt er að neytandinn tilkynni ákvörðun sína um að hætta við kaup til seljanda með sannanlegum hætti (t.d. í tölvupósti) og áður en fresturinn til að falla frá kaupum rennur út, þ.e. innan fjórtán daga.
Ekki er hægt að skila öllum vörum sem keyptar eru á netinu, svo sem vörum sem rýrna eða úreldast hratt og sérpöntuðum vörum.
Réttur neytenda til upplýsinga mun meiri við kaup á netinu.
Seljandi hefur ríka skyldu til að upplýsa neytendur á sölusíðu um flest allt sem máli skiptir, svo sem um eiginleika vörunnar en einnig um rétt neytanda til að skila vörunni. Seljandi verður að gefa upp nafn fyrirtækis, netfang, símanúmer og heimilisfang. Vanti þessar upplýsingar ætti neytandi að forðast viðskipti við viðkomandi seljanda.
Hvað gerist ef fallið er frá samningi?
Þegar neytandi fellur frá samningi sem gerður er á netinu – hættir með öðrum orðum við kaupin – þá skal seljandi endurgreiða honum allan kostnað, þar á meðal sendingarkostnað. Þetta skal seljandi gera í síðasta lagi fjórtán dögum frá því neytandi tilkynnti seljanda um að hann vildi hætta við kaupin. Seljandi þarf þó ekki að endurgreiða viðbótarkostnað ef neytandi hefur óskað sérstaklega eftir öðrum afhendingarmáta en þeim ódýrasta sem seljandi bauð. Neytandi skal að sama skapi endursenda vöruna eða afhenda hana seljanda hið fyrsta og ekki seinna en fjórtán dögum frá þeim degi sem hann tilkynnti seljanda að hann ætlaði að falla frá samningnum.
Hvað á ég að gera ef fyrirtæki virðir ekki lögin?
Neytendastofa er eftirlitsaðili með lögunum og getur beitt ákveðnum viðurlögum og því er rétt að beina ábendingum þangað ef upp koma álitamál.
Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við Neytendasamtökin og fengið upplýsingar og aðstoð ef þeir verða þess áskynja að fyrirtæki virða ekki þennan rétt.