Neytendasamtökin í 65 ár
Í dag fagna Neytendasamtökin 65 ára afmæli en þau munu vera þriðju elstu neytendasamtök í heimi á eftir þeim frönsku og bandarísku. Aðal hvatamaður að stofnun samtakanna og fyrsti formaður þeirra var Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur. Honum rann til rifja bág staða neytenda og skortur á samtakamætti, enda var á þessum tíma ekki litið á neytendur sem sérstakan hagsmunahóp. Sveinn komst svo að orði í útvarpserindi árið 1952:
„Ekkert er eðlilegra en að framleiðendur yrðu langtum fyrri til en neytendur að stofna með sér samtök. Það er auðveldara að stofna félag pylsugerðarmanna en félag manna sem eta pylsur. Það er fljótlegra að hóa þeim saman en hinum síðarnefndu. Mönnum finnst að sjálfsögðu eðlilegra, að þeir sem hafi pylsugerð að atvinnu myndi með sér samtök, þar sem gera megi aftur á móti ráð fyrir að hinir hafi það ekki að atvinnu að eta pylsur. En það eru ekki sams konar störf út af fyrir sig, sem skipa mönnum saman, heldur fyrst og fremst sameiginlegir hagsmunir.“
Neytendasamtökin voru formlega stofnuð 23. mars 1953 og fagna því 65 ára afmæli í ár. Sveinn Ásgeirsson var hann kjörinn fyrsti formaður samtakanna. Útvarpserindið sem hér er vitnað í að ofan var gefið út á prenti 1954 og má segja að það hafi verið fyrsti vísirinn að útgáfu Neytendablaðsins.
Í Neytendablaðinu, sem ætti að berast félagsmönnum næstu daga, er saga Neytendasamtakanna rifjuð upp og er svo sannarlega af nógu að taka. Áherslur samtakanna hafa breyst í takt við tíðarandann og á mörgum sviðum hefur náðst góður árangur. Enn er þó verk að vinna og Neytendasamtökin því mikilvægari sem aldrei fyrr.
Sveinn Ásgeirsson var sæmdur heiðursnafnbót Neytendasamtakanna árið 1986. Hér má sjá Jóhannes Gunnarsson, formann til áratuga, afhenda Sveini blómvönd af því tilefni en sjálfur hlaut Jóhannes heiðursnafnbót samtakanna árið 2017.