Villandi fullyrðingar á matvælum
Algengt er að matvælaframleiðendur skreyti vörur sínar með ýmsum fullyrðingum um jákvæð áhrif þeirra á heilsu og vellíðan. Það er þó ekki allt leyfilegt í þessum efnum og mörg dæmi eru um að verið sé að nota óleyfilegar fullyrðingar á matvörum. Matvælastofnun ásamt heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga gerði úttekt á stöðunni hér á landi og er niðurstaðan sú að í meira en helmingi tilfella er verið að nota fullyrðingar sem ekki eru leyfðar og eru þar af leiðandi villandi fyrir neytendur. Fæðubótarefni skera sig sérstaklega úr en af 19 fullyrðingum voru einungis 3 í lagi.
Neytendasamtökin fagna þessari úttekt sem er mjög mikilvæg til að kortleggja vandann en hún sýnir jafnframt að frekari aðgerða er þörf. Ástæðan fyrir því að settar hafa verið reglur um fullyrðingar á matvörum og fæðubótaefnum er til að tryggja að ekki sé verið að villa um fyrir neytendum. Neytendur eiga að geta treyst því að fullyrðingar á matvælum og fæðubótarefnum byggi á rökstuddum grunni og séu þar af leiðandi marktækar. Úttektin sýnir hins vegar að neytendur eru ítrekað blekktir og það er að mati Neytendasamtakanna algerlega ólíðandi.
Dæmi um villandi fullyrðingar sem sjá má í úttektinni:
Losnaði við verki og bólgur af vefjagigt
Um er að ræða svokallaða sjúkdómsfullyrðingu en þær eru aldrei leyfðar.
Á sýrðri mjólkurafurð segir Ríkt af hágæðapróteinum
þessi fullyrðing er ekki á lista yfir leyfðar næringarfullyrðingar.
Á grófu brauði segir Gott fyrir uppbyggingu vöðva
Þessi fullyrðing er ekki á lista yfir leyfðar heilsufullyrðingar.
Á sýrðri mjólkurafurð stendur Létt
Ekki er útskýrt hvað það er sem geri þessa afurð létta og er fullyrðingin þar af leiðandi ekki heimil.