Neytendasamtökin í 65 ár – ert þú félagi?
Í ár fagna Neytendasamtökin 65 ára afmæli en þau munu vera þriðju elstu neytendasamtök í heimi á eftir þeim frönsku og bandarísku. Aðalhvatamaður að stofnun samtakanna og fyrsti formaður þeirra var Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur. Þegar hann sneri heim úr námi frá Svíþjóð blöskraði honum hversu lítill samtakamáttur íslenskra neytenda var. Sveinn komst svo að orði í útvarpserindi árið 1952:
„Ekkert er eðlilegra en að framleiðendur yrðu langtum fyrri til en neytendur að stofna með sér samtök. Það er auðveldara að stofna félag pylsugerðarmanna en félag manna sem eta pylsur. Það er fljótlegra að hóa þeim saman en hinum síðarnefndu. Mönnum finnst að sjálfsögðu eðlilegra, að þeir sem hafi pylsugerð að atvinnu myndi með sér samtök, þar sem gera megi aftur á móti ráð fyrir að hinir hafi það ekki að atvinnu að eta pylsur. En það eru ekki sams konar störf út af fyrir sig, sem skipa mönnum saman, heldur fyrst og fremst sameiginlegir hagsmunir.“
Ári síðar, eða 23. mars 1953 voru Neytendasamtökin formlega stofnuð. Eitt meginverkefni samtakanna hefur alla tíð verið að aðstoða neytendur við að leita réttar síns. Í upphafi áttu neytendur það til að hringja beint í Svein formann og leita ráða svo ekki varð hjá því komist að opna skrifstofu og ráða fólk til starfa. Þessi þjónusta er enn í dag langveigamesti þáttur starfseminnar. Árið 2011 bættist við aðstoð við leigjendur með þjónustusamningi við ríkið auk þess sem samtökin reka líka Evrópsku neytendaaðstoðina sem hjálpar neytendum á evrópska efnahagssvæðinu að leita réttar síns þvert á landamæri.
Stuðningur frá stjórnvöldum hefur alla tíð verið óverulegur og mun minni en þekkist í nágrannalöndunum og því reiða samtökin sig á félagsmenn sem standa að langmestu leyti undir rekstrinum. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna til áratuga, minnti gjarnan á að þótt Neytendasamtökin væru hlutfallslega fjölmenn miðað við höfðatölu, borið saman við neytendasamtök annarra þjóða, hjálpaði það lítið í svo fámennu landi. Öflug neytendasamtök þyrftu því bæði stuðning neytenda og stjórnvalda.
Í 65 ár hafa Neytendasamtökin staðið vaktina fyrir neytendur og það munu þau gera áfram – vonandi með þínum stuðningi.
Brynhildur Pétursdóttir
framkvæmdarstjóri Neytendasamtakanna
(birtist fyrst á Kjarnanum þann 16. febrúar 2018)