Ályktun vegna nýrra reglna um umbúðir drykkjarvöru
Stjórn Neytendasamtakanna hefur sent eftirfarandi ályktun til Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra:
Stjórn Neytendasamtakanna skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að gera breytingar á reglugerð um drykkjarvöruumbúðir, sem taka á gildi þann 1. júní næstkomandi. Í 9. gr. reglugerðarinnar eru sett skilyrði um að strikamerki skuli vera lóðrétt á umbúðum drykkjarvara, en greinin hljóðar svo:
,,Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir skulu strikamerktar á merkimiða á hverri skilaskyldri umbúð fyrir sig og skal strikamerki vera hluti af ISO/IEC 15420 stöðlum. Strikamerki skal vera lóðrétt á drykkjarvöruumbúð. Strikamerki skal vera a.m.k. 80% af skilgreindri grunnstærð strikamerkis samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir úr postulíni eða keramík eru óheimilar.
Fari innflytjendur eða framleiðendur ekki að kröfum skv. 1. og 2. mgr. skal Umhverfisstofnun kæra brot þeirra til lögreglu skv. 10. gr. laga nr. 52/1989, ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.“
Stjórn Neytendasamtakanna telur skilyrði um að strikamerki skuli vera lóðrétt vera til þess fallið að hamla innflutningi á drykkjarvörum og draga úr samkeppni á íslenskum drykkjarvörumarkaði. Vegna smæðar íslenska markaðarins er langsótt að erlendir framleiðendur breyti umbúðum sínum sérstaklega fyrir íslenska markaðinn og því leiðir þetta skilyrði í reglugerðinni til kostnaðarauka fyrir innflytjendur og smásala, sem lendir á neytendum í formi hærra vöruverðs og takmarkar samkeppni.
Hér er um að ræða viðskiptahindrun á kostnað neytenda og því mótmælir stjórn Neytendasamtakanna og skorar á ráðherra að breyta reglugerðinni áður en hún tekur gildi.