Gjaldtöku frestað á rafrænum skilríkjum
Neytendasamtökin hafa ítrekað gagnrýnt gjaldtöku vegna rafrænna skilríkja, en boðað hafði verið að gjaldtaka myndi hefjast um næstu áramót. Einnig mótmæltu samtökin því þegar stjórnvöld notuðu „skuldaleiðréttinguna“ svokölluðu til að knýja á um að neytendur fengju sér rafræn skilríki.
Það er því fagnaðarefni að Auðkenni, sem annast um rafræn skilríki, hafi allavega ákveðið að fresta gjaldtöku. Það er sjónarmið Neytendasamtakanna að hagræði þeirra aðila sem krefjast þess að neytendur hafi rafræn skilríki sé það mikið að þeim beri að greiða þennan kostnað. Því hvetja þau Auðkenni og eigendur þess, sem m.a. eru bankarnir, að leggja til hliðar allar hugmyndir um gjaldtöku vegna notkunar rafrænna skilríkja
Neytendasamtökin telja rafræn skilríki öruggan valkost við auðkenningu á ýmsum persónulegum gjörningum á netinu. Þau leggjast því ekki gegn rafrænum skilríkjum sem slíkum heldur því að kostnaði verði velt yfir á neytendur.