Breytinga er þörf á fjármálamarkaði
Þrátt fyrir að stóru bankarnir þrír hafi allir fallið í hruninu, hefur ekki tekist að draga úr samþjöppun og fákeppni á bankamarkaði. Þannig er vaxtamunur bankanna mjög hár og mun hærri en annars staðar á Norðurlöndum og á það sama við um þjónustugjöld. Það er almenningur sem ber byrðarnar af þessum álögum. Vernd neytenda gagnvart fjármálastofnunum hefur heldur ekki verið efld eins og tilefni er til, en eins og lýst var í rannsóknarskýrslu Alþingis fór ófullnægjandi neytendavernd á íslenskum fjármálamarkaði mjög illa með fjárhag fjölskyldna og fyrirtækja við og eftir bankahrunið.
Neytendasamtökin telja það ganga þvert gegn vernd neytenda á fjármálamarkaði að breytingar séu gerðar á eignarhaldi þess hluta sem ríkið á í bankakerfinu á meðan ekki hefur verið skýrt skilgreindur sá rammi sem bankar og önnur fjármálafyrirtæki skulu starfa innan. Í þeim efnum hefur lítið sem ekkert breyst frá hruni. Mikilvægt er að stjórnvöld marki stefnu um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi og geri gangskör að því að tryggja rétt neytenda og skilvirka neytendavernd á fjármálamarkaði hér á landi.
Áður en ríkið ákveður að selja hlut sinn í Landsbankanum telja Neytendasamtökin eðlilegt að efnt verði til ítarlegrar athugunar og umræðu um hlutverk fjármálafyrirtækja á Íslandi, rekstrarumhverfi þeirra, samfélagslegt hlutverk og stöðu neytenda gagnvart þeim. Með eignarhaldi sínu á Landsbankanum eiga stjórnvöld jafnframt að beita sér fyrir því að bankinn gangi á undan með góðu fordæmi og lækki vaxtamun.
Neytendasamtökin krefjast þess að gert verði átak í að efla neytendavernd á fjármálamarkaði með breytingum á lögum og reglum og öflugra eftirliti opinberra aðila. Við þá vinnu verði höfð hliðsjón af því sem önnur ríki hafa gert í þeim efnum. Þar verði einnig tekið mið af tillögum sem nefnd um bætta neytendavernd á fjármálamarkaði setti fram, sjá nánar: Neytendavernd á fjármálamarkaði.