Lög Neytendasamtakanna

I KAFLI – Almenn ákvæði

 

1. gr.

Nafn samtakanna er Neytendasamtökin. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.
Neytendasamtökin eru hagsmunasamtök neytenda á Íslandi. Samtökin eru sjálfstæð og óháð einstaklingum, félögum, fyrirtækjum, samtökum, stjórnmálaflokkum og opinberum aðilum.

 

2. gr.

Tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna neytenda í þjóðfélaginu. Þau skulu ætíð taka afstöðu til mála í samræmi við hagsmuni neytenda.

 

3. gr.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná meðal annars með því að

  1. stuðla að því að sjónarmið neytenda séu virt þegar ákvarðanir eru teknar eða lög sett sem varða hagsmuni neytenda,

  2. annast útgáfu-, rannsóknar-, ráðgjafar- og fræðslustarfsemi til þess að auka skilning á hagsmunamálum neytenda,
  3. styðja réttmætar kröfur félagsmanna og berjast fyrir því að réttur almennra neytenda sé virtur,
  4. vinna að umbótum á löggjöf til hagsbóta fyrir neytendur.

 

4. gr.

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti atkvæða þegar ekki er öðruvísi kveðið á í lögum þessum.

Við val manna til setu í trúnaðarstöðum skal sem unnt er gæta jafnræðis milli kynja.

 

5. gr.

Sá stjórnarmaður, nefndarmaður eða starfsmaður sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi þess, meðferð eða úrlausn. Stjórn úrskurðar um hæfi. Maður sem vanhæfur er til meðferðar máls skal yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess.

 

II KAFLI – Félagsaðild að samtökunum

 

6. gr.

Einstaklingar sem orðnir eru 18 ára geta orðið félagsmenn í Neytendasamtökunum. Félagsaðild er til eins árs í senn og endurnýjast sjálfkrafa nema félagsmaður hafi sagt sig úr samtökunum með sannanlegum hætti. Félagsmenn njóta fullra réttinda í eitt ár frá því að greiðsla félagsgjalds berst og hafa kjörgengi og kosningarétt í kosningum til trúnaðarstarfa fyrir samtökin.

Þeir einir hafa atkvæðisrétt á aðalfundi samtakanna sem eru skuldlausir við samtökin viku fyrir aðalfundinn.

 

7. gr.

Stjórn Neytendasamtakanna ákveður upphæð árgjalds.

 

8. gr.

Félög eða samtök sem skuldbinda sig til að vinna að hagsmunamálum neytenda geta gerst stuðningsaðilar að Neytendasamtökunum eða tekið upp annars konar skipulagstengsl við þau. Óski félag eða samtök eftir stuðningsaðild eða skipulagstengslum þarf samþykki stjórnar Neytendasamtakanna. Fáist slíkt samþykki skal stjórn Neytendasamtakanna gera sérstakt samkomulag við viðkomandi félag eða samtök um það með hvaða hætti stuðningsaðildin eða skipulagstengslin skuli vera.

 

III KAFLI – Aðalfundur Neytendasamtakanna

 

9. gr.

Aðalfundur Neytendasamtakanna er æðsta vald í málefnum þeirra. Aðalfundur skal haldinn í október á ári hverju.

 

10. gr.

Til aðalfundar skal boðað með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Það skal gert með auglýsingu í  a.m.k. einum prent- eða ljósvakafjölmiðli, og í tilkynningu á vefsetri samtakanna, setri þeirra á samfélagsmiðlum og með tölvuskeyti til þeirra félagsmanna sem hafa gefið samtökunum upp netfang sitt.

 

11. gr.

Allir félagsmenn Neytendasamtakanna eiga rétt til setu á aðalfundi samtakanna séu þeir skuldlausir við samtökin viku fyrir aðalfund og hafi tilkynnt um þátttöku með a.m.k. viku fyrirvara. Þegar ákveðið er að kosning formanns og annarra stjórnarmanna Neytendasamtakanna verði rafræn hafa allir þeir félagsmenn Neytendasamtakanna atkvæðisrétt sem skuldlausir eru við samtökin a.m.k. viku fyrir aðalfund.

 

12. gr.

Aðalfundur Neytendasamtakanna er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

 

13. gr.

Verkefni aðalfundar skulu vera:

  1. Kjör fundarstjóra og annarra embættismanna fundarins.

  2. Skýrsla stjórnar um starfsemi samtakanna og rekstur þeirra á liðnu starfsári. Drög að rekstraráætlun til næstu áramóta  og fyrir næsta starfsár skulu og lögð fram.
  3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu og samþykktar.
  4. Stefnumótun.
  5. Lagabreytingar.
  6. Kjör formanns Neytendasamtakanna, að jafnaði annað hvert ár.
  7. Kjör annarra stjórnarmanna.
  8. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara, úr hópi annarra en stjórnarmanna og starfsmanna.
  9. Kjör þriggja manna kjörnefndar fyrir komandi starfsár.
  10. Ný stjórn tekur við.

  11. Önnur mál.

 

14. gr.

Stjórn ákveður fyrirkomulag aðalfundar samtakanna að öðru leyti, svo sem hvort hann skuli haldinn opinn með rafrænum hætti í heild eða að hluta, og hvort formaður og aðrir stjórnarmenn skuli kjörnir með rafrænum hætti meðal allra félagsmanna.

 

15. gr.

Fundarstjóra ber að sjá til þess að ákvarðanir fundarins séu færðar til bókar. Fundarstjóri og minnst tveir fundarmanna, sem stjórn eða aðalfundur velur til þess, skulu fara yfir fundargerðina og staðfesta hana með undirritun sinni.

 

V KAFLI – Stjórn Neytendasamtakanna

 

16. gr.

Stjórn samtakanna er skipuð 13 félagsmönnum, formanni og tólf öðrum stjórnarmönnum.

Á hverju ári skal kjósa sex stjórnarmenn á aðalfundi samtakanna til tveggja ára. Láti stjórnarmaður af embætti áður en tveggja ára tímabili lýkur er heimilt að kjósa nýjan í hans stað á aðalfundi og situr sá út kjörtímabil þess sem lætur af störfum. Um framboð í slíkum tilvikum fer eftir ákvæðum 28. gr.

 

17. gr.
Hæfisskilyrði stjórnarmanna

Almennt hæfi formanns og annarra stjórnarmanna eru að viðkomandi sé

  1. lögráða,

  2. hafi ekki á síðustu þremur árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.

 

18.gr.
Verkefni stjórnar

Stjórn Neytendasamtakanna er æðsta vald í málefnum samtakanna milli aðalfunda, ber ábyrgð á starfsemi þeirra og gætir hagsmuna þeirra á grundvelli þessara laga og ákvarðana sem teknar eru á aðalfundi. Stjórn tekur ákvarðanir í málum sem snerta rekstur samtakanna og skipulag, fylgir eftir stefnumótun aðalfundar og tekur afstöðu til stefnumarkandi mála sem upp koma. Framkvæmdastjóri annast þó starfsmannahald.

Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund og löglega er til hans boðað, sbr. 26. gr. Heimilt er að stjórnarmaður taki þátt í stjórnarfundi með hjálp fjarfundarbúnaðar.

Stjórn samtakanna ber ábyrgð á fjárreiðum þeirra. Stjórnin skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi samtakanna og ber ábyrgð á gerð ársreiknings. Stjórninni er heimilt að skuldbinda samtökin fjárhagslega, enda undirriti meirihluti stjórnarmanna slíkar skuldbindingar.

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og heyrir hann beint undir stjórn samtakanna.

 

19. gr.
Framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur samtakanna sem vera skal í samræmi við stefnu og fyrirmæli stjórnar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiri háttar. Framkvæmdastjóri sér um starfsmannamál samtakanna og getur skuldbundið samtökin í málum sem eru innan verksviðs hans. Nánar skal kveða á um verksvið framkvæmdastjóra í starfsreglum samtakanna. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald samtakanna sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna samtakanna sé með tryggilegum hætti.

 

20. gr.
Hæfi framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri skal uppfylla hæfisskilyrði 17. gr. og vera fjár síns ráðandi.

 

21. gr.
Ritun firma.

Stjórn veitir stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra heimild til að rita firma samtakanna. Ritunarréttinn má takmarka á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu.

Stjórn samtakanna getur hvenær sem er afturkallað heimild sem hún hefur veitt til að rita firma samtakanna.

 

22. gr.
Störf stjórnar

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Enginn skal sitja samfleytt í stjórn samtakanna lengur en fjögur kjörtímabil.

 

23. gr.

Stjórn Neytendasamtakanna kýs úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera.

 

24. gr.

Varaformaður tekur við hlutverki formanns tímabundið í fjarveru hans. Láti formaður af stjórnarstörfum, eða er ekki unnt að sinna skyldum sínum, skal varaformaður sinna hlutverki formanns fram að næsta aðalfundi. Skal þá kosinn formaður til tveggja ára. Gjaldkeri stjórnar hefur eftirlit með fjármálum samtakanna og hefur skoðunaraðgang að reikningum félagsins. Nánar skal fjalla um hlutverk gjaldkera í starfsreglum stjórnar.

 

25. gr.

Stjórn skal setja starfs- og siðareglur um starfshætti og ábyrgð stjórnarmanna og starfsmanna.

 

26. gr.
Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Formaður stjórnar boðar til funda með minnst þriggja daga fyrirvara. Beri brýna nauðsyn til getur formaður boðað fund með skemmri fyrirvara, þó aldrei skemmri en eins sólarhrings. Að jafnaði stýrir formaður fundi stjórnar. Ef þörf krefur getur stjórn þó kosið sérstakan fundarstjóra á stjórnarfundi.

Krefjist tveir stjórnarmenn þess að stjórnarfundur sé haldinn skal halda hann sem allra fyrst og eigi síðar en tíu dögum frá því að krafa um stjórnarfund berst.

Stjórnarfundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað.

Stjórnarfundur er ályktunarbær ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

Ritari samtakanna skal skrá fundargerðir. Fundargerð skal samþykkt eigi síðar en í upphafi næsta stjórnarfundar, nema sérstaklega standi á. Samþykktar fundargerðir skulu vistaðar með ábyrgum hætti, svo sem í þar til gerðri fundargerðarbók, og vera aðgengilegar stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra.

 

27. gr.
Ákvörðun þóknunar

Stjórn samtakanna er ekki heimilt að reikna stjórnarmönnum, endurskoðendum, skoðunarmönnum, fram­kvæmdastjóra eða öðrum sem fara með stjórnunarstörf hærra endurgjald fyrir störf hjá samtökunum en venjulegt er eftir eðli og umfangi starfanna.

 

VI KAFLI – Stjórnar- og formannskjör Neytendasamtakanna

28. gr.

Stjórn Neytendasamtakanna skal auglýsa eftir framboðum til stjórnar, þar á meðal formennsku, fyrir 1. september ár hvert á heimasíðu samtakanna og í a.m.k. einum prent- eða ljósvakafjölmiðli, á vefsetri samtakanna og setri þeirra á samfélagsmiðlum. Framboð skulu berast eigi síðar en 15. september. Kjörnefnd og framkvæmdastjóri ganga úr skugga um að frambjóðendur njóti kjörgengis, sbr. 6. gr. og 17. gr. Uppfylli frambjóðendur ekki skilyrði 6. gr. skal þeim gefinn vikufrestur til að bæta úr því.

 

29 gr.
Kjörnefnd

Kjörnefnd skal tryggja nægt framboð í þau embætti sem kosið er um. Berist ekki nægilega mörg framboð er kjörnefnd heimilt að leita eftir frekari framboðum eftir að framboðsfresti lýkur. Við slíkar aðstæður skal kjörnefnd reyna eftir fremsta megni að tryggja fjölbreytni í hópi frambjóðenda með tilliti til m.a. kyns, búsetu og aldurs.

 

30. gr.

Kosning til formanns og annarra stjórnarmanna fer fram í tengslum við aðalfund samtakanna Hún er leynileg. Séu í framboði jafnmargir og kjósa á skoðast frambjóðendur sjálfkjörnir. Kjöri stjórnar skal lýst á aðalfundi.

 

VII KAFLI – Reikningsskil o.fl.

31. gr.

Reikningstímabil Neytendasamtakanna er almanaksárið.

 

32. gr.
Lánveitingar

Samtökunum er óheimilt að veita lán.

 

VIII KAFLI – Lagabreytingar

33. gr.

Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga. Lagabreytingartillögur skulu lagðar fram á skrifstofu samtakanna eða með tölvuskeyti til þeirra eigi síðar en 15. september. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytingar verði tekin til meðferðar á fundinum og skulu lagabreytingartillögur birtar á vefsetri samtakanna ásamt greinargerð flutningsmanna eigi síðar en 1. október.

 

IX KAFLI – Slit samtakanna

34 gr.

Nú kemur fram tillaga um að samtökunum skuli slitið eða þau sameinuð öðrum samtökum og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar. Við slit skulu eignir samtakanna renna til góðgerðarmála að ákvörðun aðalfundar. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboði.

 

Lög þessi voru samþykkt á þingi Neytendasamtakanna 27.–28. október 2018.
Breytingar á 24. gr. og 34. gr. voru samþykktar á aðalfundi Neytendasamtakanna 29. október 2022.