Úrskurðanefndir

Það er mikilvægt fyrir neytendur að geta leitað til úrskurðaraðila ef ekki næst lausn í ágreiningsmálum við seljendur. Í upphafi árs 2020 tóku í gildi ný lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Með gildistöku ofangreinda laga er tryggt að til staðar séu ódýrar, skilvirkar og fljótlegar leiðir fyrir neytendur til að leita til úrskurðaraðila varðandi hin ýmsu ágreiningsmál. Þannig gera lögin ráð fyrir því að Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa geti tekið á flestum þeim neytendamálum sem upp koma í viðskiptum neytenda við fyrirtæki á Íslandi. Jafnframt geta hinar ýmsu samkomulagsnefndir sótt um viðurkenningu hjá ráðherra og tekið þannig við málum sem annars myndu heyra undir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Hér að neðan má finna lista yfir viðurkenndar og lögbundnar úrskurðarnefndir.

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um flestar gerðir samninga um kaup á vöru og þjónustu. Markmið nefndarinnar er að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð við úrlausn ágreinings utan dómstóla. Neytendur geta sent inn kvörtun til nefndarinnar á vefnum kvth.is og í gegnum Ísland.is.

Kærunefnd húsamála er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem úrskurðar í ágreiningsmálum varðandi t.d. milli leigjanda og leigusala, milli eigenda í fjöleignarhúsum, milli leigusala og leigutaka lóða undir hús í frístundarbyggð. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um nefndina hér.

Úrskurðarnefnd bílgreina úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um hverskonar kvartanir frá neytendum, bæði innanlands og yfir landamæri, vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins. Úrskurðarnefndin var sett á fót með samkomulagi á milli Bílgreinasambandsins og Félags Íslenskra bifreiðaeigenda.

Hægt er að sjá hvaða fyrirtæki eru aðilar að BGS hér, og nánar má lesa um nefndina hér.

Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum  fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu á milli neytenda og vátryggingarfélaga. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um nefndina hér.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir (t.d. viðskiptabanka eða sparisjóði), verðbréfafyrirtæki eða dótturfyrirtæki þessara fjármálafyrirtækja. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga á milli landa. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um nefndina hér.