Rúmlega 2.400% vextir
Neytendasamtökunum barst ábending frá hópi lögfræðinörda á Facebook um vanskilakostnað smálánafyrirtækisins Núnú. En krafa fyrirtækisins með 12.000 króna höfuðstól var komin í 45.440 krónur á aðeins 6 vikum, sem jafngildir rúmlega 2.400% vöxtum á ársgrundvelli. Samkvæmt lögum má árleg hlutfallstala lántökukostnaðar nema að hámarki 35% að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans, sem nú eru 5,5%. Ekkert hámark er á innheimtukostnaði og því er fyrirtækjum í sjálfsvald sett hversu hár hann er. Neytendasamtökin telja að þó þessi innheimtukostnaður sé ekki beinlínis í bága við lög, sé hann siðlaus og hafa margsinnis kallað eftir því að Alþingi stöðvi ósvinnuna með nauðsynlegum lagabreytinginum, líkt og nágrannalönd hafa gert. Hér má sem dæmi sjá erindi sem samtökin sendu dómsmálaráðuneytinu 23. nóvember 2020. Því hefur enn ekki verið svarað.