Google Analytics ólöglegt í Danmörku
–Neytendasamtökin telja það sama eiga við á Íslandi
Stórt skref var stigið í dag þegar persónuverndaryfiröld í Danmörku gáfu út að notkun danskra vefsíðna á vefvöktunarforritinu Google Analytics bryti í bága við persónuverndarlög. Fyrr á árinu bönnuðu frönsk og austurrísk persónuyfirvöld notkun þarlendra vefsíðna á vefvöktunarforritinu. Við það tækifæri gaf Persónuvernd út frétt, sem túlka má sem viðvörun til íslensks vefumsjónarfólks, þar sem fram kemur að líklega lyti notkun íslenskra vefsíðna á Google Analytics sömu lögmálum, þ.e.a.s. bryti í bága við lög.
Neytendasamtökin hafa barist fyrir aukinni persónuvernd á netinu (sjá hér) og hafa ítrekað skorað á Persónuvernd að banna notkunina hérlendis. En örlítil könnun sýnir að nánast öll íslensk fyrirtæki og stofnanir nota Google Analytics. Það á jafnt við um Alþingi sem og Stjórnarráð Íslands.
Nú gilda samskonar persónuverndarlög á Íslandi og víðast hvar í Evrópu og því hafa Neytendasamtökin skorað á Persónuvernd að fara að dæmi danskra starfssystkina sinna og leggja tafarlaust bann við notkun vefvöktunarforritsins á Íslandi.
Af hverju er persónuvernd á netinu svona mikilvæg? Svör við því má meðal annars finna á www.ns.is/kettir.