Neytendasamtök í 70 ár
Neytendasamtökin fagna 70 ára afmæli í dag 23. mars. Í tilefni af þessum tímamótum fengu samtökin fjárstyrk frá Ríkisstjórn Íslands, Viðskipta- og menningarmálaráðuneytinu og VR til þess að vinna ítarlega úttekt á tryggingamarkaði.
Neytendasamtökin voru formlega stofnuð á fjölmennum fundi þann 23. mars 1953. Á fundinum voru lög samtakanna samþykkt og 25 manna stjórn skipuð. Var hugmyndin með svo fjölmennari stjórn að fá sem flesta valinkunna einstaklinga til að ljá málefninu lið strax frá upphafi.
Stofnun hagsmunasamtaka neytenda markaði tímamót og strax frá stofnun létu samtökin til sín taka. Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur var formaður samtakanna fyrstu 15 árin og óumdeildur brautryðjandi neytendaverndar á Íslandi. Margt hefur áunnist á þessum 70 árum en verkefnin eru ennþá ærin.