Kalkað tyggjó – hækkað verð
Neytendasamtökunum barst í liðinni viku ábending um að tyggjóum í pokum frá Extra hafi fækkað úr 25 í 21 en verðið haldist óbreytt. Það þýðir í raun 19% hækkun hvers tyggjóstykkis. Í kjölfarið fjallaði Morgunblaðið um málið og ræddi við Pál Hilmarsson, framkvæmdastjóra markaðssviðs heildverslunarinnar Innness. Hann skýrði nær fimmtungshækkunina á þá leið að tyggjóið hefði verið fært upp um gæðaflokk og fengið eiginleika „Professional línunnar og inniheldur núna meðal annars mikrókorn.“ Haft var eftir honum: „Eiginleiki vörunnar hefur breyst. Hún er orðin enn betri fyrir tennurnar og almenna tannheilsu“.
Í kjölfarið sendu Neytendasamtökunum Innnesi fyrirspurn um hvort fullyrðingin um að varan sé betri en áður fyrir tennur og tannheilsu væri studd gögnum og hvað átt væri við með „míkrókornum“.
Innnes gat ekki sýnt fram á að atvinnumannatyggjóið væri betra fyrir tannheilsuna en leikmannatyggjóið, en svaraði því til að míkrókornin væru úr „kalsíum fosfat fylliefni“. Örstutt leit á netinu leiðir í ljós að „kalsíum fosfat fylliefni“ eru skrauthvörf fyrir það sem í daglegu tali er kallað kalk. Þannig greiðir fólk nú 19% meira fyrir hvert Extra tyggjóstykki þar sem einhverjum markaðssnillingnum datt í hug að drýgja það með kalki.
Eftir stendur að órökstudd fullyrðing Páls um að tyggjóið sé betra fyrir tannheilsu en áður og hafa Neytendasamtökin sent ábendingu til Neytendastofu vegna villandi viðskiptaaðferðar og fer fram á að fyrirtækið sýni fram á réttmæti fullyrðingarinnar eða dragi hana ella til baka með fullnægjandi hætti.