Innheimta á okurlánum
Það er ekki nóg með að smálánafyrirtæki hafi komist upp með ólöglega lánastarfsemi um árabil heldur kemst fyrirtækið Almenn innheimta ehf. upp með að innheimta þessar ólögmætu kröfur. Þá virðist innheimtufyrirtækið ekki geta látið lántakendur fá skýra sundurliðun á kröfum eins og þeir eiga rétt á.
Fáheyrt að fyrirtæki svari ekki erindum
Neytendasamtökin koma gjarnan fram fyrir hönd félagsmanna þegar ágreiningur rís vegna kaupa á vöru og þjónustu. Í gegnum ár og áratugi hafa samtökin átt í samskiptum við fjölda fyrirtæki og nær undantekningarlaust eru samskiptin góð. Fyrirtæki svara erindum samtakanna og upplýsa um sína hlið mála. Þau eru ekki alltaf sammála afstöðu Neytendasamtakanna en það heyrir sem betur fer til undantekninga að fyrirtæki svari ekki samtökunum kalli þau eftir upplýsingum fyrir hönd neytanda. Nú ber svo við að fyrirtækið Almenn innheimta ehf. sem sér um að innheimta smálánaskuldir sem bera ólöglega vexti, svarar hvorki lántakendum né Neytendasamtökunum þegar farið er fram á sundurliðun á þeim kröfum sem fyrirtækið er að innheimta. Lántakar eiga rétt á slíkri sundurliðun til að geta metið réttmæti kröfunnar. Í þeim tilfellum sem svar berst er sundurliðunin ófullnægjandi þar sem Almenn innheimta ehf. virðist nota hugtakið höfuðstóll yfir lánsfjárhæð að viðbættum vöxtum. Mikilvægt er að lántakendur fái sundurliðun á kröfum sínum þannig að þeir sjái svart á hvítu á hverju krafan byggir. Lántakendur geta haft athugasemdir við kröfur t.d. ef hluti þeirra byggir á ólögæmtum okurvöxtum.
Vinnubrögð til skammar
Neytendasamtökin fordæma vinnubrögð Almennrar innheimtu ehf. og hvetja fyrirtækið til að svara lántakendum og Neytendasamtökunum þegar þau fara fram í umboði sinna skjólstæðinga og óska sundurliðunar krafna. Það er í raun ólíðandi að innheimtuaðili skuli komast upp með vinnubrögð af þessu tagi. Neytendasamtökunum hafa af þeim sökum sent kæru til úrskurðarnefndar lögmanna vegna innheimtuhátta Almennrar innheimtu ehf.