Að skila og skipta
Mikið er spurt um skilarétt þessa dagana enda ekki alltaf sem jólagjafirnar falla í kramið. Ýmsar spurningar vakna, svo sem hvaða reglur gilda um inneignarnótur þegar útsala er hafin, hvað sé eðlilegur skilafrestur og hvort hægt sé að takmarka gildistíma á inneignarnótum. Engin lög gilda um skil á ógölluðum vörum en Neytendasamtökin telja eðlilegt að styðjast við leiðbeinandi reglur sem komið var á fyrir margt löngu í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu.
Hér má sjá umfjöllun um skilarétt
Og hér er svarið við vinsælustu spurningunni þessa dagana;
Hvaða reglur gilda um inneignarnótur á útsölum?
Ef útsala er hafin á neytandinn rétt á að fá fullt söluverð á inneignarnótu en seljandi hefur að sama skapi rétt til að meina neytenda að nota nótuna meðan á útsölu stendur. Ákveði neytandi að fá inneignarnótu eftir að útsala hefst og nýta nótuna á útsölunni hefur seljandi rétt til að setja útsöluverð á nótuna.
Gildistími á inneignarnótum ætti að mati Neytendasamtakanna aldrei að vera minna en eitt ár og skora samtökin á seljendur að sýna sveigjanleika og þjónustulund þótt gildistími inneignarnótu sé útrunninn. Gildistíminn er alfarið ákveðinn af hálfu seljanda sem getur því hæglega ákveðið að framlengja gildistímann til að koma til móts við viðskiptavininn.