Aðalfundur – ný stjórn, ný stefna og afdráttarlausar ályktanir
Kröftugur aðalfundur Neytendasamtakanna fór fram laugardaginn 28. október. Þar var samþykkt einróma ný stefna samtakanna, fimm ályktanir auk þess sem tilkynnt var um niðurstöðu stjórnarkjörs.
Stjórnarkjör
Í stjórn samtakanna sitja 12 stjórnarmenn auk formanns. Kosið er um helming stjórnar á hverju ári og er kjörtímabilið tvö ár. Sjö framboð bárust um sex sæti og náðu eftirfarandi kjöri.
Hildigunnur Hafsteinsdóttir, Margrét Dóra Ragnarsdóttir, Salka Sól Styrmisdóttir, Sigurður Másson, Stefán Hrafn Jónsson og Þórarinn Stefánsson. Þær Margrét Dóra og Salka Sól koma nýjar inn, en aðrir náðu endurkjöri. Gunnar Alexander Ólafsson og Liselotte Widing gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf. Hér má sjá stjórn Neytendasamtakanna.
Ný stefna
Fyrir aðalfundinn lá tillaga um gagnyrta og skýra stefnu samtakanna. Nýja stefna samtakanna byggir á grunni fyrri stefnu og niðurstöðum úr stefnumótunarvinnu stjórnar og starfsfólks. Var stefnan samþykkt einróma. Stefnuna má nálgast hér.
Ályktanir
Aðalfundur Neytendasamtakanna samþykkti eftirfarandi fimm ályktanir einróma:
Arðsemi banka
Aðalfundur Neytendasamtakanna skorar á bankana að lækka álögur sínar og færa í sama horf og tíðkast erlendis. Fundurinn fagnar nýlegri skýrslu um gjaldtöku og arðsemi hérlendra banka, og þeim áformum að henni verði fylgt eftir með raunverulegum aðgerðum til að ná kostnaði neytenda niður. Skýrslan sýnir svart á hvítu að betri afkoma bankanna skilar sér ekki í betri kjörum til neytenda, og að óljósar og flóknar verðskrár gera neytendum ókleift að gera verðsamanburð og veita nauðsynlegt aðhald. Vaxtamunur bankanna er allt að þrisvar sinnum hærri en sambærilegra banka erlendis og arðsemi heildareigna helmingi meiri.
Vaxtastig
Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að gerð verði raunveruleg úttekt á því hvað veldur háu vaxtastigi á Íslandi. Skorar fundurinn á stjórnvöld og verkalýðshreyfinguna að taka höndum saman um að láta gera úttekt á því hvað veldur því að vaxtakostnaður er margfalt hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum.
Reiðufjárhöft
Í nýjasta Stöðuleikariti Seðlabankans bendir Seðlabankinn á að íslensk lög banni seljendum ekki að hafna viðtöku reiðufjár. Þessi framsetning Seðlabankans ýtir undir að söluaðilar hafni viðtöku reiðufjár, þannig að neytendur geti eingöngu greitt með greiðslukortum. Slík reiðufjárhöft skylda neytendur beinlínis til viðskipta við banka. Reiðufjárhöft koma sérlega hart niður á jaðarsettum hópum, sem hafa ekki alltaf aðgang að greiðslukortum. Standi vilji til að koma á reiðufjárhöftum verður hið opinbera að tryggja aðgengi allra að rafrænni greiðslumiðlun. Aðalfundur Neytendasamtakanna áréttar að allar ákvarðanir um reiðufjárhöft eru í eðli sínu pólitískar, og krefst þess að umræða og ákvörðun um reiðufjárhöft sé tekin á vettvangi stjórnmálanna.
Dýrtíð
Afkomutölur margra fyrirtækja sýna mun meiri arðsemi en meira að segja þau sjálf gerðu ráð fyrir. Við þessar aðstæður fer aðalfundur Neytendasamtakanna fer fram á það við eigendur fyrirtækjanna að þeir skili hagnaðaraukanum til til neytenda. Í raunverulegu samkeppnisumhverfi myndi slík umframarðsemi skila sér í lægra verði vöru og þjónustu. Aðalfundur Neytendasamtakanna minnir á að við erum öll neytendur. Barátta fyrir bættum rétti neytenda er barátta fyrir bættum lífskjörum alls almennings.
Verðmerkingar
Nákvæmar upplýsingar á opnum og virkum markaði stuðla að neytendavernd og heilbrigðri samkeppni. Skýrar og nákvæmar verðmerkingar eru mikilvægar upplýsingar fyrir neytendur og gera þeim kleift að vera virkir þátttakendur á markaði. Þannig eru einingarverð mikilvægar upplýsingar sem auðvelda neytendum að velja milli vara og gera verðsamanburð. ESB-tilskipunin frá 1998 um neytendavernd að því er varðar upplýsingar um verð á vöru sem er boðin neytendum (98/6/EB) var mikilvæg réttarbót fyrir neytendur á öllu EES-svæðinu. Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki lokið við að innleiða tilskipunina. Neytendasamtökin skora á stjórnvöld að innleiða tilskipunina að fullu sem fyrst og fella niður þær undantekningar í reglugerð nr. 536/2011 um verðmerkingar og einingarverð sem ekki eiga sér stoð í tilskipuninni.