Aðgerðir vegna smálána
Fólk sem tekið hefur smálán á rétt á að fá skýra sundurliðun yfir skuldir sínar. Margir hafa þegar greitt upphaflega lánsupphæð til baka en eru áfram rukkaðir um ólöglega vexti og himinháan innheimtukostnað. Þetta á við um lán frá fyrirtækjunum Kredia, Smálán, Hraðpeningar, Múla og 1909. Innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu ehf. virðist fyrirmunað að útvega lántakendum skýra sundurliðun á kröfum og beitir öllum brögðum til að innheimta hin ólöglegu okurlán.
Neytendasamtökin og VR hafa nú snúið bökum saman og munu aðstoða lántakendur við að ná fram rétti sínum.
Lántakendur eru hvattir til að hafa samband við Neytendasamtökin sem munu kalla eftir upplýsingum frá innheimtufyrirtækinu fyrir þeirra hönd. Verði innheimtufyrirtækið ekki við kröfu samtakanna um að veita allar nauðsynlegar upplýsingar um kröfur sem eru í innheimtu mun fyrirtækinu verða stefnt.
Lántakendur sendi tölvupóst til samtakanna á netfangið smalan@eldri.ns.is, og þá fá þeir upplýsingar um næstu skref.