Ályktun frá stjórn
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur öllu starfsfólki Neytendasamtakanna verið sagt upp í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu samtakanna. Þessi staða er að mestu leyti tilkomin vegns óhóflegra útgjalda sem formaður samtakanna, Ólafur Arnarson, hefur efnt til án aðkomu stjórnar. Þegar stjórn varð ljóst hver staðan var lýsti hún yfir vantrausti á formanninn og skoraði á hann að stíga til hliðar. Þá hefur starfsfólk samtakanna einnig lýst yfir vantrausti á formann og biðlað til hans að segja af sér. Þrátt fyrir að formanni hafi verið gerð grein fyrir alvarleika málsins, sem hann ber að miklu leyti ábyrgð á, situr hann sem fastast.
Ljóst er að fara þarf í aðgerðir til að bjarga samtökunum og er það mat bæði stjórnar og starfsmanna og að slíkt verði ekki gert með formanninn innanborðs. Stjórn hefur nú þegar gripið til aðgerða til að takmarka aðgang formanns að daglegum rekstri. Hann er ekki lengur starfsmaður skrifstofu og hefur ekki heimildir til að skuldbinda samtökin né að efna til nokkurra útgjalda af hálfu þeirra.
Stjórn og starfsfólk vinnur samhent að því að koma Neytendasamtökunum aftur á réttan kjöl enda er mikilvægi þeirra fyrir þjóðfélagið óumdeilt.