Ekki hægt að treysta á umsagnir á netinu
Amazon trónir á toppnum sem stærsta netverslun í heimi og hefur gert um árabil. Viðskiptavinir fyrirtækisins hafa eflaust tekið eftir því að söluvarningi fylgir gjarnan einkunnargjöf notenda, í formi bæði stjörnugjafar og umsagna í rituðu máli. Bresku neytendasamtökin Which? hafa afhjúpað umfangsmikið svindl sem sýnir að jákvæðar umsagnir ganga kaupum og sölum.
Þrátt fyrir aðgerðir af hálfu Amazon til að koma í veg fyrir falsumsagnir sýna rannsóknir Which? að seljendur sem eru með varning sinn til sölu á Amazon geta haft áhrif á umsagnakerfið eftir ýmsum leiðum. Which? fann þannig fjölmörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í sölu á jákvæðum umsögnum. Þar á meðal er þýska fyrirtækið AMZTigers, sem hefur á sínum snærum 62.000 kaupmælendur (e. reviewers) víðsvegar um heiminn, þar af 20.000 í Bretlandi.
Seljendur beita margir hverjir ýmsum brögðum til að auka sinn hlut og rétt fyrir neytendur að vera á varðbergi. Í nýjasta tölublaði Neytendablaðsins má finna ítarlega umfjöllun um falsumsagnir á netinu.
Ekki félagi í samtökunum? það er lítið mál að bæta úr því, skráðu þig hér