Eru gjafabréf glapræði?
Gjafabréf eru vinsæl gjöf en því miður fá Neytendasamtökin á hverju ári alltof margar kvartanir vegna gjafabréfa sem ekki nýtast.
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagar, þeim mun öflugri samtök. Gerast félagi.
Oftast er kvartað yfir því að seljandi leyfi viðskiptavininum ekki að nýta gjafabréf sem er útrunnið. Slíkir viðskiptahættir verða að teljast mjög sérstakir enda hefur seljandi ekki orðið fyrir neinum búsifjum, þvert á móti. Búið er að greiða fyrir ákveðna vöru eða þjónustu og eðlilegt að seljandi veiti hana óháð því hvenær greiðslan fór fram. Að mati samtakanna ættu fyrirtæki, sem ekki treysta sér til að hafa eðlilegan gildistíma á gjafabréfum, að sleppa því að selja slík bréf. Eins ættu neytendur að forðast gjafabréf með stuttum gildistíma.
Hvergi er fjallað um gildistíma gjafabréfa í lögum en Neytendasamtökin telja eðlilegt að gildistími gjafabréfa sé fögur ár eins og almennur fyrningarfrestur á kröfum. Helst ættu gjafabréf þó ekki að renna út frekar en peningaseðlar.
Ekki er vitað hversu háar upphæðir tapast vegna gjafabréfa sem ekki eru notuð en ætla má að þær séu umtalsverðar. Í könnun sem dönsku neytendasamtökin létu gera fyrir nokkrum árum kom í ljós að á fimm ára tímabili höfðu 40% aðspurðra lent í því að sitja uppi með gjafabréf sem var útrunnið.
Neytendasamtökin vilja ekki ganga svo langt að segja að gjafabréf séu í öllum tilvikum glapræði eða ráða fólki frá því að kaupa gjafabréf yfirhöfuð en í ljósi þess hversu mörg gjafabréf fyrnast eða týnast er rétt að hafa varann á. Stundum gæti reynst farsælla að gefa einfaldlega reiðufé.
- Ef þú ert að kaupa gjafabréf skaltu passa að gildistíminn sé ekki of stuttur. Flest mál sem koma til kasta samtakanna varða gjafabréf með eins árs gildistíma.
- Ef þú átt útrunnið gjafabréf skaltu samt sem áður rétt að láta reyna á það. Margir seljendur taka við gjafabréfum þótt gildistíminn sé liðinn.
- Alltaf er eitthvað um að neytendur sitji uppi með sárt ennið því seljandi hefur hætt rekstri. Það er því góð regla að lúra ekki á gjafabréfum heldur nýta þau sem fyrst.