Flugi aflýst eða seinkað
Mikið ber á fyrirspurnum þessa dagana um seinkanir og aflýsingar á flugi. Hér að neðan má sjá upplýsingar um helstu réttindi flugfarþega en þau gilda jafnt um innanlandsflug sem og flug innan evrópska efnahagssvæðisins. Neðst á síðunni má sjá flugreikni þar sem farþegar geta slegið inn forsendur röskunar og séð hvaða rétt þeir eiga.
Flugi er aflýst
- Þegar flugfélag aflýsir flugi ber því að bjóða farþegum að velja á milli þess að fá endurgreiðslu sem nemur fullu verði miðans, eða að koma farþega á lokaáfangastað við fyrsta hentugleika.
- Velji farþegi seinni kostinn, að flugrekandi komi honum á lokaáfangastað, getur fallið til kostnaður sem farþegi á rétt á að fá bættan, svo sem máltíðir, gisting, flutningskostnaður til og frá flugvelli o.s.frv. Þegar flugi er aflýst í heimalandi farþega er þó oft hægt að takmarka kostnaðinn s.s. með því að gista heima hjá sér.
- Ef flugi er aflýst með minna en tveggja vikna fyrirvara á farþegi jafnframt rétt á að fá skaðabætur sem nema 250-600 evrum. Flugfélag þarf þó almennt ekki að greiða skaðabætur ef sýnt þykir að aflýsing hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna svo sem slæm veðurskilyrði, styrjaldir, hryðjuverk og alvarlegar náttúruhamfarir. Aflýsing flugs vegna algengra tæknilegra vandamála eða verkfalla leysir flugfélög almennt ekki undan skaðabótaskyldu.
Flugi er seinkað
- Þegar flugi er seinkað geta farþegar átt rétt á bótum. Það skiptir þó máli hversu löng seinkunin er, hversu langt flugið er og hvert er verið að fljúga.
Auðvelt að sækja bætur
Ef röskun verður á flugi, hvort sem er vegna mikillar seinkunar eða aflýsingar, er fyrsta skrefið að hafa samband við flugfélagið. Ef sækja þarf bætur er almennt einfalt að gera það í gegnum vefsíður flugfélaga og engin ástæða til að greiða lögmönnum eða fyrirtækjum þóknun fyrir slíkt, sjá hér.
Neytendasamtökin aðstoða félagsmenn sína við að ná fram réttindum sínum, meðal annars endurgreiðslur og skaðabætur. Hér er hægt að gerast félagsmaður.