Gjafabréf flugfélaga
Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina gagnrýnt skamman gildistíma gjafabréfa, en samtökin telja eðlilegt að gildistími þeirra sé fjögur ár, sem er almennur fyrningarfrestur á kröfum.
Þau gjafabréf sem langmest er kvartað yfir eru gjafabréf flugfélaga en allt of algengt er að gildistími þeirra renni út áður en eigandinn nær að nýta sér inneignina. Gildistími fluggjafabréfanna er afar stuttur. Hjá Icelandair er hann tvö ár, en hjá WOW air aðeins eitt ár og ekki nóg með það heldur þarf eigandi bréfsins að vera búinn að fara í ferðina innan ársins. Samkvæmt þeim kvörtunum sem samtökunum berast vegna gjafabréfa WOW air hefur hins vegar verið lítill vilji til að framlengja gildistímann. Neytendasamtökin hvetja WOW air til að leysa úr þeim gjafabréfamálum sem út af standa enda skilmálar gjafabréfanna beinlínis ósanngjarnir.
Fyrirtæki sem selja gjafabréf hafa fengið fjármagn inn í reksturinn og í raun mætti í þessu sambandi tala um vaxtalaust lán. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að inneignin fyrnist án þess að neytandinn hafi nokkuð um það að segja.
WOW air hætti blessunarlega sölu á gjafabréfum eftir að Neytendasamtökin höfðu sent félaginu erindi og farið fram á að gildistíminn yrði lengdur. Enn berast þó kvartanir enda eflaust töluvert magn af gjafabréfum enn í umferð. Kvartanir berast einnig vegna gjafabréfa Icelandair en þær eru færri enda gildistíminn aðeins lengri. Icelandair er að sjálfsögðu einnig hvatt til að leysa úr málum sinna viðskiptavina og að lengja gildistíma gjafabréfa í fjögur ár.
Í ljósi fjölda kvartana geta Neytendasamtökin ekki ráðlagt fólki að kaupa gjafabréf flugfélaga þótt hugurinn sé góður. Þá telja samtökin að fyrirtæki sem ekki treysta sér til að hafa sanngjarnan gildistíma á gjafabréfum ættu að sleppa því að selja slík bréf.