Jarðheilsufæði

UMHVERFI OG MATVÆLI >  AUKEFNI Í MAT | KOFFÍNDRYKKIR | MATARSÓUN | MERKINGAR | JARÐHEILSUFÆÐI | PLAST | TEXTÍLL

Korn

Breytt mataræði til bjargar jörðinni

Mannkynið stendur frammi fyrir þeirri stóru áskorun að fæða sífellt fleiri jarðarbúa á sama tíma og matvælaframleiðsla heimsins ógnar loftslagsstöðugleika og lífríki jarðar. Samkvæmt EAT-Lancet nefndinni er stórfelldra breytinga þörf ef ekki á illa að fara og án róttækra aðgerða er útilokað að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Parísarsáttmálans verði náð.

Þótt framleiðsla á mat í heiminum, mæld í hitaeiningum, hafi vaxið í takt við vaxandi íbúafjölda jarðar búa 820 milljónir manna við fæðuskort. Þá borðar umtalsverður fjöldi jarðarbúa allt of mikinn mat og margir búa við lélegt mataræði. Óhollt mataræði er talið meiri ógn við lýðheilsu en óvarið kynlíf og tóbaks-, áfengis- og eiturlyfjaneysla til samans. Það ætti því að vera forgangsverkefni að að tryggja öllum aðgang að hollri fæðu sem er aflað á sjálfbæran hátt. EAT-Lancet nefndin leggur til tvö meginmarkmið: hollt mataræði og sjálfbæra matvælaframleiðslu.

EAT-Lancet Commission er nefnd sem telur 37 vísindamenn frá 16 löndum úr hinum ýmsu fræðasviðum. Markmið þessa vettvangs er að setja fram markmið byggð á vísindalegri nálgun um það hvernig best sé að fæða jarðarbúa þannig að hvorki heilsu fólks né lífríki stafi ógn af.

 

Jarðheilsufæði

Jarðheilsufæði (planetary health diet) vísar til mataræðis sem er gott fyrir bæði heilsu fólks og vistkerfi jarðar. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar sýna rannsóknir að heilsusamlegt mataræði byggir á fjölbreyttri fæðu úr jurtaríkinu (plant based diet), svo sem grænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum, baunum, linsum og heilkorni. Holl fita hefur sinn sess en minni áhersla ætti að vera á kjöt, mjólkurvörur, fisk, unninn mat og viðbættan sykur.

Þetta mataræði hefur einnig verið kallað flexitarian. Það byggir að mestu leyti á grænmetisfæði en getur innihaldið hóflegt magn af fiski, kjöti og mjólkurafurðum.

Breyting á mataræði jarðarbúa í þessa veru kallar á tvöfalt meiri neyslu á fæðu eins og grænmeti, ávöxtum og hnetum og helmingi minni neyslu á rauðu kjöti og viðbættum sykri. Sérstaklega þarf að draga úr óhóflegri sykurneyslu á Vesturlöndum.

Skýrsluhöfundar segja að markmiðið sé ekki að allir jarðarbúar borði nákvæmlega sama mat enda sé mataræði mismunandi eftir menningarsvæðum og sum samfélög til dæmis háð veiðum. Það þurfi að taka tillit til þess þótt að á heildina litið þurfi að draga stórlega úr kjötneyslu og auka grænmetisfæðu til muna.

 

Sjálfbær matvælaframleiðsla

Fyrir liggur að matvælaframleiðsla heimsins er ekki sjálfbær. Þau atriði sem horfa þarf til eru loftslagsbreytingar, vatnsnotkun, landnýting, notkun á nitri og fósfór í landbúnaði og eyðing vistkerfa/fækkun tegunda. Þá þarf að stórminnka matarsóun. Ekkert af þessu ætti að koma á óvart enda eru þessi vandamál vel þekkt. Það er hins vegar þrautin þyngri að takast á við vandann. Skýrsluhöfundar leggja til fimm aðgerðir sem ráðast þarf í á heimsvísu:

  1. Gera þarf alþjóðlegar skuldbindingar þannig að hollu mataræði verði gert hátt undir höfði.
  2. Áhersla verði á gæði fæðunnar og fjölbreytta framleiðslu.
  3. Breyta þarf ræktun þannig að nýting auðlinda verði betri (s.s. betri nýting á vatni og áburði, endurnýting á fosfór og fóðurstýring).
  4. Tryggja þarf skýra stefnu um stjórnun lands og hafsvæða, svo sem að ekki verði gengið meira á mikilvæg vistkerfi.
  5. Síðast en ekki síst verður að minnka matarsóun um helming. Þar er átt við þann mat sem skemmist á akri, við flutninga og við vinnslu, auk sóunar í verslunum og hjá neytendum.
  6. Niðurstaða nefndarinnar er að það sé raunhæft að tryggja öllum jarðarbúum holla næringu og jafnframt tryggja að fæðuöflun sé sjálfbær. Til að svo megi verða þurfi þó að gera stórtækar breytingar á öllum sviðum og ráðast þarf í þessar breytingar hið fyrsta.

 

Heimild: eatforum.org

Neytendafréttir tengdar matvælum