Kjör til stjórnar
Kosning til stjórnar Neytendasamtakanna fer fram dagana 23. – 27. október. Kosningin er rafræn og hefst kl. 12:00 á hádegi mánudaginn 23. október og lýkur kl. 12:00 föstudaginn 27. október. Niðurstaðan verður tilkynnt á aðalfundi samtakanna, sem fer fram laugardaginn 28. október.
Sjö frambjóðendur í sex stjórnarsæti
Í Neytendasamtökunum er tólf manna stjórn, auk formanns. Kosið er um helming stjórnarinnar á hverju ári og um formann annað hvert ár. Kjörtímabil er tvö ár. Ekki er kosið um formann í ár.
Í framboði eru
Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Ég hef setið í stjórn NS frá árinu 2021 og sækist eftir áframhaldandi stjórnarsetu til næstu tveggja ára. Ég starfaði sem lögfræðingur Neytendasamtakanna í áratug og hef um margra ára skeið átt sæti í ýmsum úrskurðar- og kærunefndum um neytendaviðskipti. Ég hef því mikla reynslu, þekkingu og áhuga á neytendamálum almennt og ekki síður starfi samtakanna og tel að þeir eiginleikar nýtist mér vel í stjórn þeirra.
Margrét Dóra Ragnarsdóttir
Eftir því sem stærri hluti viðskipta okkar fer í gegnum stafræna miðla verða þau ógegnsærri og oft erfiðara fyrir neytendur að átta sig á hvað í þeim felst. Við megum ekki leyfa fyrirtækjunum að fela sig á bakvið tæknina. „Computer says no“ er ekki ásættanlegt svar. Ég er tölvunarfræðingur og hef lagt áherslu á að tæknin eigi að vera fyrir fólk en ekki öfugt og þannig vil ég líka nálgast neytendamál.
Rafn Einarsson
Ég býð mig fram til þjónustu fyrir þig, en til þess þarf ég þitt atkvæði, þegar til stjórnarkjörs kemur í október. Ég er 66 ára, faglærður húsamíðameistari, málarameistari og dúkari! Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um góð, heiðarleg og réttlát viðskipti og tel ég mig þar af leiðandi vera þann aðila sem virkilega þarf inn í stjórn Neytendasamtakanna sem iðnaðarmaður með mikla reynslu úr atvinnulífinu.
Salka Sól Styrmisdóttir
Ég er lögfræðingur að mennt og frá útskrift árið 2016 til haustsins 2022 starfaði ég á lögmannsstofu og starfa nú hjá hjá Barna- og fjölskyldustofu. Mín sérhæfing liggur helst í stjórnsýslurétti og persónuvernd og hef ég aflað mér sérstakra réttinda í því fagi. Ég hef mikinn áhuga á neytendarétti og tel að ég geti verið góð viðbót í stjórn samtakanna.
Sigurður Másson
Ég hef mikinn áhuga á baráttunni fyrir réttindum neytenda. Ég hef setið í stjórn NS um nokkurt skeið og hef með því öðlast töluverða reynslu. Ég gegni stöðu ritara í núverandi stjórn NS og hef mikinn áhuga á neytendastöðlum og sit í stjórn Staðlaráðs þar sem ég gegni stöðu varaformanns. Ég er virkur í ANEC, sem eru evrópsk samtök sem vinna að því að koma rödd neytenda á framfæri við staðlagerð í Evrópu.
Stefán Hrafn Jónsson
Ég er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Um tíma var ég formaður Félagsfræðingafélags Íslands og starfaði áður á Lýðheilsustöð. Ég settist fyrst í stjórn Neytendasamtakanna árið 2016 og var varaformaður í ölduróti áranna 2017-2018. Ég settist aftur í stjórn árið 2021 og er reynsla mín sem stjórnarmaður er nokkur. Mikilvægi Neytendasamtakanna verður seint ofmetið og því mjög mikilvægt að í stjórn veljist gott og traust fólk.
Þórarinn Stefánsson
Ég er alinn upp í verslun þar sem leitað var allra leiða til að halda vöruverði lágu. Ég vinn í nýsköpunarbransanum og hef verið í stjórn NS í tvö ár, þar af sem gjaldkeri stjórnar í eitt ár. Ég hef sérstakan áhuga á að tempra misnotkun tækni við að svindla á neytendum og losa neytendur úr njósnahagkerfinu, ásamt því að nýta tækni til að upplýsa neytendur um bestu kjör sem í boði eru.