Kvartanir vegna áskriftarleiða DV
Neytendasamtökin hafa undanfarið fengið nokkurn fjölda erinda er varða áskriftarleiðir DV og símtöl sem félagsmenn hafa fengið, þar sem þeim er boðin áskrift. Áskriftarleiðir sem nefndar hafa verið eru margvíslegar en svo virðist sem félagsmenn séu í einhverjum tilfellum ósáttir þar sem þeir telja þær upplýsingar sem fram hafi komið í umræddum símtölum ekki hafa staðist þegar á reyndi.
Neytendasamtökin taka að sér milligöngu fyrir félagsmenn sína í málum sem þessum og hafa þegar verið í sambandi við DV vegna málsins. Hvetja samtökin þá félagsmenn sem lent hafa í vandræðum vegna viðskipta við DV að hafa samband við skrifstofu Neytendasamtakanna. Einnig geta þeir sem ekki eru félagsmenn gengið í samtökin, vilji þeir að samtökin taki að sér milligöngu vegna málsins.