Lífræn flúorefni – Skaðleg efni í algengum neysluvörum
Lífræn flúorsambönd (yfirleitt skammstöfuð PFAA eða PFC) eru þrávirk efni sem hafa verið í notkun í meira en 50 ár. Samtals eru hundruð tegunda slíkra efna í notkun og nýjar bætast sífellt við. Algengustu tegundir efnanna eru í daglegu tali kallaðar PFOS og PFOA.
Rétt er að taka fram að þrátt fyrir nafnið eiga lífræn flúorsambönd ekkert sameiginlegt með flúor í tannkremi eða flúormengun frá álverum.
PFAA efnin eru afar gagnleg því þau hrinda frá sér vatni og fitu og er þar af leiðandi að finna í mörgum algengum neysluvörum. Best þekkt eru án efa vatnsverndandi lögin í útivistarfatnaði og skóm svo sem Gore-tex og Teflon-pönnurnar frægu. Auk þess eru PFAA efni notuð meðal annars í ýmiss konar vefnaðarvörur og húsgögn, teppi, málningu og lakk, matvælaumbúðir og vax, og þau voru áður notuð í slökkvitækjafroðu fyrir olíubruna.
Því miður hefur komið í ljós að lífrænu flúorsamböndin brotna mjög hægt niður í náttúrunni og safnast fyrir í mönnum og dýrum. Þau eru ekki baneitruð en geta valdið margvíslegum skaða í líkamanum. Til dæmis kom það vísindamönnum á óvart að PFAA efnin geta borist í heilann, en þau voru nýlega greind í heila grænlenskra ísbjarna.
Árið 2012 voru birtar niðurstöður úr rannsókn á færeyskum konum og börnum þeirra þar sem ályktað var að há gildi lífrænna flúorsambanda í blóði leiddu til lélegri ónæmissvörunar barna við bólusetningar. Þetta vekur upp spurningar um möguleg áhrif efnanna á ónæmiskerfið í heild, en einnig hafa menn sérstakar áhyggjur af hormónaraskandi áhrifum þeirra.
Erfitt að forðast efnin
Lífrænu flúorsamböndin er að finna í svo mörgum tegundum nútímaneysluvara að erfitt getur verið að forðast þau.
Nýlega hefur notkun PFAA efna í matvælaumbúðum vakið athygli, en þau er víða að finna í umbúðum utan um skyndimat svo sem pizzur og hamborgara, í bökunarpappír o.fl. Þaðan berast þau í matinn og áfram í líkamann. Í danskri rannsókn fundust PFAA í 40% matvælaumbúða, meðal annars í umbúðum fyrir örbylgjupopp, kökur, brauð, kex og skyndifæði, oft í hærri styrk en leyfilegt er. Í ljósi niðurstaðnanna hefur matvælaráðherra Danmerkur lýst því yfir að hann vilji banna notkun lífrænna flúorefna í matvælaumbúðum.
Stærsta efnamengunarslys sögunnar í Svíþjóð?
Lífræn flúorsambönd hafa vakið athygli víða. Í vor varð uppi fótur og fit í Svíþjóð þegar í ljós kom að um þriðjungur allra Svía, eða um 3,6 miljónir manns, fær vatnið sitt úr vatnsveitum sem eru mengaðar af PFAA. Mengunin stafar af áratuga notkun PFAA efna í slökkvifroðu. Í blóðprufum frá fólki sem býr á menguðu svæðunum mældist 20-50 sinnum hærri styrkur lífrænna flúorefna en talið er eðlilegt.
Åke Bergman, prófessor í eiturefnafræði við Háskólann í Stokkhólmi, telur að um sé að ræða stærsta efnamengunarslys sögunnar í Svíþjóð. Hann segir mengunina ógna einni helstu forsendu góðrar heilsu – aðgangi að hreinu vatni. Sænska matvælastofnunin hefur gefið út leiðbeiningar til vatnsveitna og eftirlitsaðila um aðgerðir til að meta og stýra þeirri áhættu sem stafar af menguninni. Einnig hefur verið lagt til að stofnuð verði sérstök rannsóknarnefnd til að meta afleiðingar mengunarinnar.
Verður notkun lífrænna flúorefna alfarið hætt innan tíðar?
Nú þegar eru takmarkanir settar á notkun PFAA og líklegt er að í framtíðinni verði æ fleiri efni bönnuð þegar heilsuáhrif þeirra koma betur í ljós. PFOS er þegar bannað í Stokkhólmssamningnum um þrávirk lífræn efni og notkun PFOA er háð takmörkunum innan ESB. Noregur hefur gengið lengst og bannað notkun PFOA í neysluvörum. Bannið tók gildi í júní á þessu ári. Norðmenn hafa auk þess lýst því yfir að þeir hyggist mæla með því að PFOA verði bannað í Evrópu. Hröð þróun efnanna og skortur á þekkingu á áhrifum þeirra gerir stjórnvöldum þó erfitt að bregðast við vandanum.
Hvernig skyldi staðan vera hérlendis?
Blóðsýni sem tekin voru úr 10 íslenskum konum árið 2009 gáfu til kynna að styrkur PFAA efnanna hérlendis væri sambærilegur því sem fundist hefur annars staðar. Sóttvarnarlæknir lýsti því yfir árið 2012 að ekkert benti til þess að lífræn flúorefni í umhverfinu væru ógn við lýðheilsu á Íslandi, en að mikilvægt væri að fylgjast með hugsanlegum heilsufarslegum áhrifum þeirra í framtíðinni.
Hver sem styrkur PFAA er í umhverfinu hérlendis má ekki gleymast að ein helsta uppspretta efnanna í daglegu lífi fólks eru venjulegar neysluvörur. Flest borðum við stundum skyndifæði, notum teflonpönnur, vatnsfráhrindandi fatnað, bökunarpappír o.fl. Svo má velta fyrir sér hve algeng PFAA efni eru í umbúðaframleiðslu hérlendis. Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir hefur hvatt stjórnvöld til að mæla styrk lífrænna flúorsambanda í blóði íslenskra barna og hefur varað konur á barnseignaraldri við að nota vörur sem geta innihaldið efnin.
Hvað er til ráða?
Þeir sem vilja lágmarka inntöku lífrænna flúorsambanda geta fylgt eftirfarandi ráðleggingum:
- Henda gömlu teflonpönnunum
- Forðast skyndifæði og einnota matvælaumbúðir
- Velja fatnað sem inniheldur ekki vatnsfráhrindandi efni
- Nota náttúruleg vatnsþéttiefni og vax sem innihalda ekki PFAA
- Velja Svansmerktar vörur, en Svanurinn leyfir ekki notkun PFAA