Svik við neytendur
Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir harðlega meðferð Alþingis á tollafrumvarpi landbúnaðarráðherra á upprunatengdum ostum og hvetur Alþingi til þess að gera nauðsynlegar breytingar strax og þing verður sett að nýju
Þegar búvörusamningar voru samþykktir árið 2016 var ákveðið að flýta tollfrjálsum innflutningi á svokölluðum sérostum til að koma á móts við neytendur. Búvörusamningurinn var mjög umdeildur, ekki síst vegna þess hve hagsmunum neytenda var gert lágt undir höfði, og var þessi leið því m.a. farin til að lægja öldurnar.
Forsvarsmenn Neytendasamtakanna fengu vilyrði fyrir því að opnað yrði á aukin innflutning á ostum til að auka val neytenda. Var þetta liður í að koma til móts við háværa gagnrýni fjölmargra aðila, m.a. Neytendasamtakanna vegna fyrirhugaðra tollahækkana á ákveðnar vörur, þ.á.m. osta. Töldu samtökin að um langþráð og jákvætt skref væri að ræða og beittu sér því ekki gegn samþykkt búvörusamningsins að öðru leyti. Nú hafa stjórnvöld og meirihluti Alþingis gengið á bak orða sinna og enn og aftur kastað hagsmunum neytenda fyrir róða. Stjórn Neytendasamtakanna lýsir yfir miklum vonbrigðum með þessar málalyktir og hvetur Alþingi til að taka málið upp í haust og standa við þá samninga sem gerðir voru við hagsmunaaðila á sínum tíma.
Þess má geta að Neytendasamtökin sendu erindi á landbúnaðarráðherra árið 2011 og hvöttu til þess að tollar á sérorstum væru felldir niður. Töldu samtökin ekki forsvaranlegt að leggja háar álögur á osta sem ekki væru einu sinni framleiddir hér á landi. Afnám tolla á sérosta væri því eðlilegt fyrsta skref í átt að minni tollvernd.