Nýtt Neytendablað
Rjúkandi neytendafréttir í nýju Neytendablaði. Meðal efnis að þessu sinni:
Eitruð tíska.
Mikið af skaðlegum efnum eru notuð í fataiðnaði en þrátt fyrir það er lítið vitað um áhrif efnanna á heilsu fólks. Bandaríska blaðakonan Alden Wicker gaf nýlega út bókina To Dye For sem mætti útleggja sem Litað til ólífis. Við tökum höfundinn tali auk Unu Emilsdóttur umhverfislækni.
Grænþvottur í flugi
Er hægt að kolefnisjafna flug? Það er hæpið en þó hika flugfélög ekki við að nota hugtök eins og sjálfbærni og kolefnisjöfnun. Nú á að taka harft á þessum málum enda er grænþvottur grafalvarlegt mál.
Loftslagsmerki á mat
Neytendur eiga erfitt með að átta sig á kolefnisfótspori matvæla og kalla eftir skýrum og áreiðanlegum merkingum. Danir stefna nú á að verða fyrsta þjóðin sem tekur upp opinbert loftslagsmerki á mat. Við ræðum við sérfræðing hjá dönsku neytendasamtökunum Tænk.
Ný snjóhengja
Margir lántakendur sem tóku óverðtryggð lán á föstum vöxtum sjá fram á snarhækkandi greiðslubyrði. Hvað er til ráða? Við skoðum málið.
Kosning í stjórn NS
Kosið verður um sex stjórnarsæti dagana 23-27 október. Við kynnum þá sjö frambjóðendur sem gefa kost á sér.
Börn og ruslfæðisauglýsingar
Umræðan um ásókn auglýsenda í börn og unglinga er ekki ný af nálinni og hafa áhyggjur ekki síst beinst að ruslfæðisauglýsingum. Áhugaverðar fréttir berast frá Noregi og Þýskalandi en þar hafa stjórnvöld ákveðið að spyrna við fæti. Meðal fyrirhugaðra aðgerða í Noregi er að banna sölu á koffínsdrykkjum til barna yngri en 16 ára. Meira um málið í Neytendablaðinu.
Áttu erfit með að slíta þig frá símanum?
Þú ert ekki vandamálið því öll hönnun á samfélagsmiðlum miðar að því að fá okkur til að eyða sem mestum tíma fyrir framan skjáinn. En hvað ef það væri einföld leið til að minnka notkunina?
Ábyrgðarmannakerfið
Við rifjum upp hið hræðilega ábyrgðamannakerfi. Í skjóli þess gátu lánveitendur stundað óábyrga útlánastarfsemi þar sem réttindi ábyrgðarmanna voru engin. Neytendasamtökin börðust gegn þessu óréttlæti en lög um ábyrgðarmenn voru ekki sett fyrr en árið 2009.
Þá rifjum við upp olíusamráðið, fjöllum um netsvik og rifjum upp gamla tíma í tilefni af 70 ára afmæli Neytendasamtakanna.