Óheimilar verðhækkanir Tripical
Neytendastofa hefur birt ákvörðun í máli gagnvart ferðaskrifstofunni Tripical sem varðar verðhækkanir á pakkaferðum.
Ferðaskrifstofan tilkynnti útskriftarnemendum um hækkanir á útskriftarferðum í maí sl. með þeim rökum að eldsneytisverð hefði hækkað. Neytendasamtökin töldu að viðbótargjald ferðaskrifstofunnar uppfyllti ekki öll skilyrði pakkaferðalaga fyrir verðhækkunum. Samtökin bentu því ferðaskrifstofunni á að verðhækkunin væri að öllum líkindum óheimil og sendu auk þess ábendingu á Neytendastofu. Ferðaskrifstofan svaraði ekki erindi Neytendasamtakanna en nú liggur niðurstaðan fyrir; verðhækkunin var óheimil.
Neytendasamtökin hvetja því þá útskriftanemendur sem hafa innt greiðsluna af hendi að setja sig í samband við ferðaskrifstofuna og óska eftir endurgreiðslu.
Hægt er að gera það með því að senda póst á netfang ferðaskrifstofunnar hallo@tripical.com og hafa Neytendasamtökin með í afriti ns@eldri.ns.is
Hér að neðan má finna tillögu að slíkum pósti.
Góðan dag.
Ég (nafn), (kennitala) innti af hendi greiðslu að fjárhæð (kr.) þann (dagsetning greiðslu) til Tripical í kjölfar tilkynningar um verðhækkun á ferð minni með ferðaskrifstofunni.
Neytendastofa hefur nú í ákvörðun sinni nr. 19/2022 komist að þeirri niðurstöðu að verðhækkunin hafi verið óheimil og fer ég því fram á fulla endurgreiðslu sem allra fyrst.
Fjárhæðina má leggja inn á eftirfarandi reikning;
(reikningsupplýsingar)
Afrit sent Neytendasamtökunum til upplýsinga.
Vinsamlegast staðfestið móttöku og staðfestingu á endurgreiðslu.
(Nafn)
Hvað varðar þá nemendur sem ekki hafa greitt umrædda kröfu ráðleggjum við þeim að fylgjast með hvort krafan verði fjarlægð á næstu dögum en ef svo er ekki væri unnt að senda álíka póst á ferðaskrifstofuna og fara fram á að það verði gert.