Ormsson og Ferðaskrifstofa Íslands í „skammarkróknum“
Neytendasamtökin vekja athygli á því að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur birt nöfn tveggja fyrirtækja sem neita að fara að úrskurði nefndarinnar. Það eru fyrirtækin Ormsson og Ferðaskrifstofa Íslands.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur birt tvo úrskurði þar sem nefndin úrskurðaði kaupendum í vil, en seljendur ætla ekki að verða við úrskurðum nefndarinnar. Eru þetta einu seljendurnir sem ekki ætla sér að una úrskurðum nefndarinnar frá því að hún hóf störf í janúar á þessu ári, en kærunefndin hefur fellt á sjötta tug úrskurða frá því hún tók til starfa í upphafi árs.
Ferðaskrifstofu Íslands ehf. hafnar því að endurgreiða neytanda 1.125.131 kr. ásamt vöxtum vegna pakkaferðar sem var afpöntuð.
Ormsson ehf. var gert að greiða neytanda 103.100 kr. vegna tjóns sem þvottavél frá þeim olli, en fyrirtækið hafnaði því.
Neytendasamtökin hvetja fyrirtækin til að fara að úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Samtökin munu vekja athygli á umræddum lista og upplýsa neytendur, ef fleiri fyrirtæki hafna því að fara að úrskurðum nefndarinnar.