Örtröð á flugvöllum – hvaða rétt áttu?
Eftir að kórónuveiran var að mestu kveðin í kútinn hefur orðið sprenging í ferðalögum milli landa. Fréttir hafa borist af löngum biðröðum á flugvöllum sem hafa í verstu tilfellum leitt til þess að fólk missir af flugi jafnvel þótt það hafi mætt tímanlega. Ástæðan fyrir þessari örtröð mun vera sú að mörgum flugvöllum hefur ekki tekist að ráða nógu margt starfsfólk. Er öryggisgæslan ekki síst nefnd til sögunnar því þjálfa þarf sérstaklega starfsfólkið sem sinnir henni.
En hvaða rétt á fólk sem mætir tímanlega á völlinn en missir af flugi vegna þess að innritun eða öryggisleit tekur of langan tíma?
Í stuttu máli er réttur ferðalanga ekki alveg skýr.
Flugvellir bera ábyrgð á öryggisgæslunni en þar hefur gjarnan myndast flöskuháls sem verður til þess að fólk missir af flugi. Farþegi á ekki í neinu viðskiptasambandi við flugvöllinn sem flækir málið. Það er þó ekki þar með sagt að farþegi geti ekki gert kröfu um bætur ef óeðlilega löng biðröð í öryggisleit verður til að hann missir af flugi. Slíkt mál þyrftu þó að fara fyrir dómstól.
Neytendur eiga þó alltaf rétt á að fá endurgreidd flugvallagjöld missi þeir af flugi eða mæti þeir ekki í flug einhverra hluta vegna. Rétt er að taka fram að sum flugfélög innheimta hærri umsýslugjöld fyrir endurgreiðsluna en nemur flugvallagjöldunum.
Ef óvenju miklar tafir við innritun leiða til þess að farþegi missi af flugi, t.a.m. sökum manneklu mætti mögulega líta á það sem vanefnd af hálfu flugfélagsins. Þá að því gefnu að farþegi mæti tímanlega og í samræmi við þær upplýsingar sem flugrekandi hefur mælt með í samningsferlinu. Það er á ábyrgð flugfélagsins að manna innritunarborð og tryggja að sjálfsafgreiðsluvélar virki. Farþegi þyrfti þó að geta sýnt fram á með sannanlegum hætti að hafa mætt tímanlega svo sem með því að taka mynd af klukku í komusal.
Neytendasamtökunum er ekki kunnugt um að reynt hafi á slíkt ágreiningsefni hér á landi.
Sumir vellir verri en aðrir
Nokkrir flugvellir hafa hafa verið nefndir sérstaklega í fréttum þar sem raðir og örtröð hefur valdið ferðalöngum miklum vandræðum; Manchester, Heathrow, Dublin, Arlanda Stokkhólmi og Schiphol í Amsterdam. Þá hafa dönsku Neytendasamtökin Tænk vakið athygli á töfum á Kastrup flugvelli. Svo slæm var staðan á flugvellinum í Dublin að 1.400 manns misstu af flugi síðustu helgina í maí. Þurfti forstjóri flugvallarins að mæta fyrir samgöngunefnd írska þingsins og útskýra hvernig flugvöllurinn hyggðist bæta úr málum. Mikil örtröð hefur einnig verið á Arlanda flugvellinum í Stokkhólmi en eigendur vallarins þurftu einnig að útskýra sitt mál fyrir þingnefnd. Arlanda hefur gefið út að búast megi við meiri biðröðum en venja er út sumarið.
Ekki hafa borist fréttir af því að ferðalangar hafi misst af flugi hér á landi vegna langra biðraða. Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir í samtali við Neytendasamtökin að vel hafi gengið eftir heimsfaraldur að manna í störf á vegum Isavia á Keflavíkurflugvelli, svo sem í öryggisgæslu. Einnig hafi gengi vel að ráða í sumarstörf. Það sé þó viðbúið að það verði erill á flugstöðinni í sumar og er ferðalöngum bent á að mæta þremur tímum fyrir brottför á álagstímum, þ.e. snemma á morgnana og svo síðdegis.