Réttur til að afpanta pakkaferðir
(Eftirfarandi á við pakkaferðir, ekki flugferðir. Hér má sjá umfjöllun um réttindi flugfarþega)
Ótal fyrirspurnir hafa í vikunni borist Neytendasamtökunum um réttarstöðu farþega sem eiga bókaða pakkaferðir á næstunni til áfangastaða sem skilgreindir eru á vef Landlæknis sem áhættusvæði. Þar á meðal eru ferðir til landa sem hafa takmarkað mjög samkomu- og ferðafrelsi, jafnvel gripið til útgöngubanns. Auk gífurlegra raskana á því sem átti að vera frí, vegna aðgerða stjórnvalda á dvalarstað, þurfa farþegar sem þaðan koma að sæta tveggja vikna sóttkví við heimkomuna. Að mati samtakanna er ljóst að þetta hefur veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar. Ferðaskrifstofur hafa brugðist við ástandinu á mismunandi hátt. Sumar afar sómasamlega, en aðrar síður.
Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@eldri.ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.
Þau sem leitað hafa til samtakanna eiga það flest sammerkt að vilja hætta við fyrirhugaðar ferðir. Sum hafa þó lent í vandræðum með að fá samþykki fyrir afbókun ferðar gegn fullri endurgreiðslu, þrátt fyrir að um sé að ræða ferðir til svæða með mikla smitáhættu.
Því er rétt að fara yfir réttindi farþega pakkaferðalanga á tímum CoViD-19 veirunnar, en þau eru nokkuð vel skilgreind í lögum (sjá hér). Lögin eiga við ferðir sem innihalda a.m.k. tvær ferðatengdar þjónustur, svo sem flug og hótel, eða flug og viðburð. Í 15. gr. laganna er fjallað um afpöntun pakkaferðar og segir þar eftirfarandi:
Ferðamaður getur afpantað pakkaferð áður en ferðin hefst gegn greiðslu sanngjarnrar þóknunar. Í samningi um pakkaferð er heimilt að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
Sé ekki kveðið á um staðlaða þóknun vegna afpöntunar í samningi um pakkaferð skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
Skipuleggjandi eða smásali á ekki rétt á greiðslu þóknunar af hendi ferðamanns ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar, eða verðhækkunar umfram 8%, sbr. 12. gr.
Ferðamaður á ekki rétt til frekari skaðabóta við aðstæður skv. 3. mgr.
Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem honum ber skv. 1.–3. mgr. innan 14 daga frá afpöntun.
Ferðalangur getur á grundvelli ákvæðisins að jafnaði afpantað pakkaferð áður en hún hefst, gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar, oft staðfestingargjaldi. Ferðaskrifstofan á aftur á móti ekki rétt á umræddri þóknun ef afpöntun byggist á óvenjulegum aðstæðum sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar. Auk þess er kveðið á um að endurgreiðsla skuli berast innan 14. daga frá afpöntun.
Neytendasamtökin telja ljóst að nú séu uppi óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður sem hafa verulega áhrif á framkvæmd pakkaferðar og því eigi farþegar rétt á að afpanta ferðir og fá að fullu endurgreitt, a.m.k. í þeim tilvikum sem fyrirhuguð ferð er á svæði sem landlæknir skilgreinir með mikla smitáhættu.
Neytendasamtökin benda á mikilvægi þess að hafa samskipti skrifleg, til að draga úr hættu á misskilningi. Hér er dæmi um orðalag erindis sem senda má ferðaskrifstofu, vilji pakkaferðalangur hætta við ferð sína.
Góðan dag.
Ég, (nafn) (kennitala), á bókaða pakkaferð með (ferðaskrifstofu) þann (dagsetning ferðar) til (áfangastaður), bókunarnúmer: (….)
Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú er uppi tilkynni ég ykkur hér með um afpöntun á framangreindri ferð á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Ég tel fullljóst að umræddar aðstæður eru bæði óvenjulegar sem og hafi veruleg áhrif á framangreinda ferð. Skipuleggjandi ferðar á þar með ekki rétt á greiðslu neinnar þóknunar vegna afpöntunar á grundvelli 3. mgr. 15. gr.
Full endurgreiðsla skal skv. 5. mgr. 15. gr. sömu laga berast innan 14 daga og óska ég eftir að hún verði greidd inn á eftirfarandi reikning: (Bankaupplýsingar)
Afrit sent Neytendasamtökunum til upplýsingar (ns@eldri.ns.is).
Virðingarfyllst,
(nafn)
Neytendasamtökin vilja halda til haga að lítið hefur reynt á framangreint ákvæði og þar með óljóst með hversu löngum fyrirvara unnt er að bera því fyrir sig, þ.e. hvort unnt sé að afpanta ferðir á grundvelli ákvæðisins sem fyrirhugaðar eru eftir mánuð eða viku. Í Danmörku er sambærilegt ákvæði túlkað með hætti að unnt væri að beita því með tveggja vikna fyrirvara, þ.e. ef aðstæður eru þannig á áfangastað tveimur vikum brottför að óráðlegt væri að fara í ferð væri hægt að afpanta á grundvelli ákvæðisins. Samtökin hafa sent erindi til Neytendastofu og óskað eftir leiðbeiningum þessa efnis og er svars að vænta innan nokkurra daga.
Vilji svo til að ferðaskrifstofa hafni að endurgreiða á grundvelli framangreinds ákvæðis getur ferðalangur kannað önnur úrræði, svo sem að skjóta málinu til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.