Saga Neytendasamtakanna

Hér að neðan má lesa sögu Neytendasamtakanna frá stofnun til ársins 2003 en hún er skrifuð af Ragnhildi Guðjónsdóttur. Ragnhildur sat í stjórn samtakanna um árabil, meðal annars sem varaformaður.

Efninu hefur verið gerð góð skil í Neytendablaðinu og hér má sjá söguna í bæði máli og myndum.

Hluti 1
Hluti 2
Hluti 3

1. kafli
Inngangur

Í þessari ritgerð er reifuð saga Neytendasamtakanna sem urðu 50 ára á árinu 2003. Sögu samtakanna er skipt í átta meginkafla en síðan er leitast við að gera helstu málaflokkum samtakanna skil á hverjum tíma sem og helstu viðburðum í sögu þeirra fyrir hvert tímabil.

Annar kaflinn fjallar um Svein Ásgeirsson sem var frumkvöðull að stofnun samtakanna og brautryðjandi í neytendamálum hér á landi. Sá kafli fjallar auk þess um stofnun samtakanna og fyrstu fimmtán ár þeirra þegar Sveinn var nánast alls ráðandi í samtökunum, um starfsemi samtakanna á þeim árum, alþjóðlegt samstarf þeirra og helstu baráttumál.

Sumarið 1968 var haldinn sögufrægasti aðalfundur Neytendasamtakanna. Sveinn missti þá tögl og hagldir í samtökunum en við stjórnartaumunum tóku ungir menn, sumir róttækir. Samtökin losnuðu þá úr þeim viðjum að vera nánast alfarið stjórnað af einum og sama manninum. Hins vegar höfðu hinir nýju stjórnarherrar vægast sagt mjög mismikinn áhuga og skilning á málefnum samtakanna. Við þessar aðstæður stóðu samtökin á afdrifaríkum tímamótum. Þau hefðu vel getað verið lögð niður eða úr þeim sprottið ný og pólitísk neytendasamtök hægri manna. En hvorugt gerðist. Þess í stað var eftir rúmt ár mynduð stjórn manna úr öllum stjórnmálaflokkum. Þriðji kaflinn fjallar um þessar dramatísku sviptingar þar sem skiptust á tímabil lægða og uppgangs, viðleitnina við að koma á félagslegum stöðugleika og pólitískri breidd í forystusveit samtakanna, og þar með fyrstu skrefin að hinni þverpólitísku afstöðu og aðferðafræði sem samtökin hafa síðan fylgt lengst af.

Fjórði kaflinn fjallar um níu ára tímabil, 1973–1982. Í upphafi þess tímabils hafði samtökunum tekist að festa sig í sessi sem þverpólitísk og almenn samtök neytenda. Auk þess hafði félagsmönnum þeirra fjölgað aftur umtalsvert eftir fylgishrun vegna sviptinganna 1968. En í upphafi þessa tímabils seig nokkuð á ógæfuhlið í fjármála- og rekstrarstjórnun samtakanna með þeim afleiðingum að þau urðu að draga mjög úr útgáfu sinni og annarri starfsemi. Aðhaldssamir og ábyrgir einstaklingar komu þá að stjórn samtakanna og þeim tókst á nokkrum árum að losa samtökin úr skuldunum og auka aftur starfsemi þeirra án þess að stofna til nýrra skulda. En jafnframt fækkaði félagsmönnum vegna lítillar starfsemi samtakanna framan af. Veruleg kaflaskil verða hjá Neytendasamtökunum 1982. Þá eru samþykktar víðtækar lagabreytingar sem breyta samtökunum úr meira eða minna staðbundnu neytendafélagi höfuðborgarsvæðisins í landssamtök neytendafélaga víðs vegar um landið. Við þessar breytingar fjölgar t.d. verulega í stjórn samtakanna. Þessar breytingar höfðu átt sér fjögurra ára aðdraganda og hófust í raun með stofnun Neytendafélags Borgarness 1978 en eru endanlega staðfestar með lagabreytingunum 1982.

Í fimmta kafla er minnst á Jón Magnússon sem var formaður samtakanna þegar þau unnu endanlegan sigur á einokun Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Þá er fjallað um Jóhannes Gunnarsson sem hefur verið formaður samtakanna lengur en nokkur annar.

Sjötti kaflinn hefst með breytingunum 1982 og fjallar svo um síðustu tuttugu árin í sögu samtakanna. Það er tími mikilla breytinga á neytendamálum Íslendinga og þar með á Neytendasamtökunum, baráttumálum þeirra og áherslum. Fjallað er um nýjar áherslur, s.s. fræðslumál og stóraukin alþjóðleg samskipti, um það hvernig samtökin verða fagleg og raunveruleg fjöldasamtök og loks um breyttar neysluvenjur þjóðarinnar og aukið vægi neytendamálefna og Neytendasamtakanna í íslenskum fjölmiðlum.

Í sjöunda kafla er gefin vísbending um hag Neytendasamtakanna á því tímabili sem þau hafa starfað.

Íslensku Neytendasamtökin eru almennt talin vera þriðju elstu neytendasamtök í heiminum. Þau eru í eðli sínu hápólitísk samtök enda snúast hugmyndir manna um almennan hag neytenda um kjarnann í hugmyndafræðilegum ágreiningi hægri- og vinstri manna, um afskipti og afskiptaleysi yfirvalda af atvinnu- og viðskiptalífi. Þegar höfð eru í huga langvarandi afskipti íslenskra stjórnmálaflokka af verkalýðsmálum og atvinnulífi og jafnframt hið hugmyndafræðilega eðli Neytendasamtakanna er engan veginn sjálfgefið að slíkum samtökum hafi tekist að starfa á þverpólitískum grunni lengst af án þess að klofna og án stöðugra afskipta stjórnmálaflokkanna. Það hefur Neytendasamtökunum samt tekist og það er líklega athyglisverðasti þátturinn í sögu þeirra. Áttundi og síðasti kaflinn fjallar um þessa staðreynd og er jafnframt tilraun til að skýra hana. Helsta niðurstaða mín er sú að samtökin hafi verið einstaklega heppin með umburðarlynda og víðsýna forystumenn, einkum þegar á reyndi. Auk þess bendi ég á þá skýringu að stjórnmálaflokkarnir hafi með verkum sínum oft lítt fylgt þeirri hugmyndafræði sem þeir hafa sagst standa fyrir.

2. kafli
Fyrstu fimmtán árin

Ekki verður svo vikið að stofnun Neytendasamtakanna að þar komi ekki mest við sögu óumdeildur brautryðjandi neytendaverndar hér á landi, Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur. Hann hafði frumkvæði að stofnun Neytendasamtakanna og bar hitann og þungann af starfsemi þeirra fyrstu fimmtán árin.

2.1 Brautryðjandinn

Sveinn Gunnar Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 17. júlí 1925. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1944, fyrrihluta prófi í lögfræði við HÍ 1945–1950, stundaði nám við Stokkhólmsháskóla frá 1945 og lauk þaðan fil.kand. prófi í þjóðhagfræði, bókmenntasögu, heimspeki og listasögu 1950. Sveinn var fulltrúi borgarstjórans í Reykjavík 1950–1963 og formaður og framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna 1953–1968. Auk þess var hann ritstjóri Neytendablaðsins á þessu tímabili. Eftir það starfaði hann sjálfstætt, einkum að ritstörfum.

Sveinn var fjölmenntaður og fjölhæfur maður. Hann hóf að sinna blaðamennsku á námsárunum, varð landsþekktur sem stjórnandi einhverra vinsælustu skemmtiþátta í sögu Ríkisútvarpsins á árunum 1952–1960, var vel ritfær, afkastamikill rithöfundur um margvísleg efni, þýddi ýmis erlend rit og sinnti útgáfumálum. Hann var hægur maður og ljúfur í viðkynningu, vel að sér um margvísleg málefni og eldhugi þegar því var að skipta, einkum hvað varðaði neytendamál og málefni blindra. Hann var sæmdur Gulllampanum, æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins 1985, og er eini heiðursfélagi Neytendasamtakanna, frá 1986. Sveinn lést eftir langvarandi og erfið veikindi 7. júní 2002.

2.2 Stofnun Neytendasamtakanna

Stofnun Neytendasamtakanna á Íslandi ber að rekja til tveggja útvarpserinda sem Sveinn Ásgeirsson flutti í Ríkisútvarpinu fyrrihluta vetrar 1952–1953. Þar ræddi hann almennt um bága stöðu íslenskra neytenda og tók fjölda dæma af ýmsu sem betur mætti fara í þeim efnum. Hugmyndin um hinn almenna neytenda sem tiltekinn hagsmunahóp var þá óþekkt hér á landi en dæmin sem Sveinn tók úr íslenskum hversdagsleika könnuðust flestir við og vöktu erindin verðskuldaða athygli. Góðkunningi Sveins, Jóhann Sæmundsson, tryggingayfirlæknir og fyrrverandi félagsmálaráðherra, hvatti hann eindregið til að stofna neytendasamtök sem fyrst. Þeir fengu til liðs við sig Jónínu Guðmundsdóttur, þá formann Húsmæðrafélags Reykjavíkur, og boðuðu þau þrjú til stofnfundar í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll þann 26. janúar 1953. Fundurinn var vel sóttur, tóku margir til máls og var samþykkt að lýsa yfir stofnun samtakanna og kjósa bráðabirgðastjórn sem skyldi undirbúa framhaldsstofnfund. Á framhaldsstofnfundinum sem haldinn var 23. mars voru samþykkt lög Neytendasamtakanna og kosin tuttugu og fimm manna stjórn.

2.3 Starfsemin fyrstu árin

Hugmyndin með svo fjölmennari stjórn var að fá sem flesta valinkunna einstaklinga til að ljá málefninu lið strax frá upphafi. En fjölmenn stjórn var þung í vöfum og var því kjörin þriggja manna framkvæmdanefnd á fyrsta stjórnarfundinum. Sveinn Ásgeirsson var kjörinn formaður samtakanna og gegndi hann formennsku í fimmtán ár eins og áður sagði. Auk þess var hann lengst af framkvæmdastjóri þeirra á tímabilinu. Á fyrsta stjórnarfundi samtakanna var ákveðið að ráðast sem fyrst í útgáfu málgagns fyrir samtökin en fyrsta málið sem samtökin beittu sér fyrir var endurskoðun á reglum um afgreiðslutíma sölubúða.
Loks var ákveðið eftir nokkrar umræður að árgjald félagsmanna yrði fimmtán krónur, þó einnig hefði komið fram tillaga um hærra árgjald.

Fljótlega gáfu samtökin út Neytendablaðið, prentað í dagblaðsbroti og komu út þrjú tölublöð á því formi. Þessi frumraun í útgáfumálum varð engin gróðaleið fyrir samtökin enda fyrst og fremst hugsuð sem almenn kynningarstarfsemi. Þá hófu samtökin fljótlega útgáfu á ýmiss konar leiðbeiningarbæklingum sem áttu eftir að verða veigamikill þáttur í starfsemi þeirra á næstu árum.

Allt frá upphafi lýstu samtökin því yfir að það væri m.a. hlutverk þeirra að upplýsa og aðstoða almenna neytendur sem teldu sig órétti beitta í viðskiptum. Fljótlega tók fólk því að hringja heim til formanns samtakanna með margvíslegar umkvartanir. Þegar hringingum fjölgaði dag frá degi varð sýnt að samtökin yrðu að opna skrifstofu. Einhverjar vomur voru á sumum stjórnarmönnum um fjárhagslegt bolmagn til slíkrar ráðstöfunar en það varð þó úr að samtökin opnuðu skrifstofu að Bankastræti 7 í nóvember á stofnárinu.

Fljótlega eftir að skrifstofan var opnuð kom þangað lögfræðingur sem var til viðtals á virkum dögum, tvo til þrjá tíma á dag. Sá var Birgir Ásgeirsson, þá lögmaður hjá Reykjavíkurborg og bróðir formannsins.  Sýndi hann mikinn dugnað og samviskusemi í starfi alla tíð.

Strax á stofnárinu höfðu verkin verið látin tala. Í byrjun vetrar 1953, ári eftir að Sveinn hélt útvarpserindin, fór því ekkert á milli mála að Neytendasamtökin voru mætt til leiks í íslensku samfélagi.

2.4 Alþjóðlegt samstarf

Sveinn var heimsborgari. Þess nutu Neytendasamtökin í alþjóðlegum samskiptum. Hann hafði kynnt sér starfsemi Rannsóknarstofnunar heimilanna í Stokkhólmi og sumarið 1952 hitti hann að máli Lis Groes, formann Neytendaráðs danskra húsmæðra. Sveinn sat fund í París sem Efnahagssamvinnustofnunin hélt fulltrúum neytendaráða aðildarríkjanna.

Sá fundur samþykkti ályktun um stofnun alþjóðlegra samtaka neytenda. Stofnfundur Alþjóðasamtakanna var síðan haldinn í Haag 1960.

Á þeim fundi kom fram að Neytendasamtökin á Íslandi eru þau þriðju elstu í heimi sem eiginleg neytendasamtök. Elstu samtökin eru þau bandarísku, stofnuð 1936 en næst elstu samtökin eru frönsk. Var fulltrúa Íslands sýndur sérstakur sómi á stofnfundinum enda gat Sveinn miðlað dýrmætri reynslu. Þá þótti einstakt að íslensku Neytendasamtökin skyldu veita félögum sínum lögfræðiaðstoð þeim að kostnaðarlausu.

Skömmu eftir stofnfund Alþjóðasamtakanna tók fulltrúi Íslands þátt í OECD-ráðstefnu í París sem fjallaði einkum um vörumerkingar. Hann kynntist auk þess Colston W. Warne, forseta bandarísku neytendasamtakanna, sem sendi íslensku samtökunum árbók sína í 3000 eintökum, þrjú ár í röð. Framkvæmdastjórn Alþjóðasamtakanna hélt fund hér á landi til undirbúnings alþjóðaþingi neytenda í Ísrael sama ár. Var formaður íslensku samtakanna einn forseta þingsins. Loks má svo geta um fund Norrænu neytendanefndarinnar í Alþingishúsinu 1967.

Alþjóðleg samskipti af þessum toga virðast sjálfsögð á okkar tímum en voru mun meira fyrirtæki fyrir fjórum áratugum, löngu fyrir daga faxtækja og tölvupósts. Utanlandsferðir voru þá mun fátíðari en síðar varð. Það er því eftirtektarvert hvernig íslensku Neytendasamtökin urðu virkir þátttakendur strax í upphafi og voru viðurkennd sem þau þriðju elstu í veröldinni.

2.5 Helstu baráttumál samtakanna 1953–1968

Ýmis helstu baráttumál Neytendasamtakanna fyrstu árin endurspegla að nokkru leyti það viðskiptaumhverfi hafta og einokunar sem hér var við lýði fram undir 1960. Í baráttunni fyrir rýmri afgreiðslutíma í Reykjavík þurftu þau að takast á við borgarstjórn. Sú barátta átti eftir að verða lengri en menn grunaði í fyrstu.

Annað erfitt stríð var háð vegna einokunar á framleiðslu, innflutningi, flokkun, pökkun og dreifingu á landbúnaðarafurðum. Skipti þar mestu áratuga viðureign samtakanna við Grænmetisverslun landbúnaðarins. Sú stofnun þverbraut margsinnis reglugerðir um flokkun kartaflna. Í skjóli einokunar sendi hún ár eftir ár í verslanir kartöflur sem gátu vart talist skepnufóður. Neytendasamtökin kærðu Grænmetisverslunina fyrir þetta framferði. Einnig kærðu samtökin Osta- og smjörsöluna fyrir að auðkenna allt smjör sem fyrirtækið sendi á almennan markað sem gæðasmjör þó hvergi kæmi fram hvaðan smjörið kæmi eða hvort og þá eftir hvaða forsendum það væri flokkað.

Neytendasamtökin stóðu fjórum sinnum í málaferlum fyrstu fimmtán árin. Þrisvar sóttu samtökin mál til dómstóla en í fyrsta tilfellinu var samtökunum stefnt. Það mál vakti langmesta athygli enda prófsteinn á það hvort samtök af þessum toga ættu framtíð fyrir sér í íslensku samfélagi. Mál þetta kom upp 1953, var nefnt Hvile-Vask málið og snerist um athugasemd samtakanna við auglýsingu á dönsku „undra“- þvottaefni. Innflytjandi þvottaefnisins hafði staðið fyrir auglýsingaherferð í útvarpinu og kynnt efnið með eftirfarandi tillögu: „Gerið þvottadaginn að hvíldardegi! Notið Hvile Vask.“ Þetta var fyrir daga sjálfvirkra þvottavéla og því von að fólk legði við eyru. Efnafræðingar í stjórn Neytendasamtakanna efnagreindu þvottaefnið og komust að þeirri niðurstöðu að hér væri engin nýjung á ferðinni heldur þvottaefni sem innihélt óvenjumikið bleikiefni og sliti því þvottinum hraðar en ella. Neytendasamtökin sendu nú frá sér fréttatilkynningu þar sem greint var frá niðurstöðu rannsóknarinnar. Sala á þvottaefninu lagðist nánast af en innflytjandinn krafðist þess að samtökin drægju fréttatilkynninguna til baka. Því var ekki sinnt og var samtökunum þá stefnt. Neytendasamtökin töpuðu málinu fyrir sjó- og verslunardómi vorið 1957 en áfrýjuðu því til hæstaréttar, söfnuðu ítarlegri gögnum um þvottaefnið og unnu málið fyrir hæstarétti 1959. Þessi málaferli voru talsverð þolraun fyrir samtökin en auk þess mikilvægur prófsteinn á afstöðu dómstóla til neytendaverndar.

Þrátt fyrir stóru málin snerist starfsemi samtakanna ekki síður um dagleg úrlausnarefni, s.s. lögfræðiaðstoðina sem leysti vanda margra sem töldu sig órétti beitta án þess að koma þyrfti til málaferla. Þannig minntu samtökin á sig og urðu þekktari með hverju árinu. Æ oftar bar Neytendasamtökin á góma ef menn töldu að sér vegið í viðskiptum. Vægi samtakanna jókst í vitund neytenda og félagsmönnum fjölgaði ár frá ári. Þeir voru orðnir um tvö þúsund árið 1956 og ríflega fjögur þúsund í ársbyrjun 1967. Um það leyti fékk Sveinn til liðs við sig á skrifstofu samtakanna Halldór Stefánsson, dugmikinn og samviskusaman mann. Þeir skipulögðu félagaöflun á landsbyggðinni sem fjölgaði félagsmönnum í um sjö þúsund einstaklinga.

3. kafli
Hallarbylting – deilur og sættir

3.1 Sögulegur aðalfundur 1968

Þegar kom fram á árið 1968 hafði Sveinn Ásgeirsson verið formaður og framkvæmdastjóri samtakanna frá stofnun, eða í fimmtán ár. Auk þess hafði hann verið ritstjóri Neytendablaðsins og upplýsingabæklinga þess. Lögfræðingur samtakanna frá því skrifstofa þeirra opnaði var Birgir, bróðir Sveins. En nú voru breytingar í aðsigi. Sveinn hafði lengst af haft ýmsa málsmetandi menn með sér í stjórninni en bar sjálfur hita og þunga af starfinu án teljandi afskipta stjórnarinnar. Á starfsárinu 1967–1968 hafði hins vegar borið nokkuð á því að stjórnarmenn vildu hafa meiri afskipti af málum samtakanna.

Sögulegasti aðalfundur Neytendasamtakanna var haldinn í Tjarnarbúð 29. júlí 1968. Á fundinn fjölmennti fólk, einkum sósíalistar og alþýðuflokksmenn sem áður höfðu ekki sýnt samtökunum sérstakan áhuga. Ýmislegt bendir til þess að Sveinn hafi sjálfur viljað róttækar breytingar á stjórn samtakanna og að starfsmaður hans, Halldór Stefánsson, hafi smalað á fundinn með vitneskju Sveins, þó svo að hann missti síðar stjórn á atburðarásinni. Við stjórnarkjör var kosin ný stjórn að því undanskildu að Sveinn náði kjöri og stjórnin kaus hann formann.  Auk Sveins voru í stjórninni einn framsóknarmaður, einn alþýðuflokksmaður, þrír alþýðubandalagsmenn og einn utanflokka.

Valdabarátta kom nú upp milli hinnar nýju stjórnar og fráfarandi stjórnar en Sveinn og Halldór urðu ósáttir við nýju stjórnina og lentu milli steins og sleggju. Rúmum mánuði eftir aðalfundinn vék stjórnin Sveini frá sem formanni og framkvæmdastjóra og samþykkti að láta fara fram opinbera rannsókn á fjárreiðum samtakanna. Sveinn svaraði þessari aðför með bæklingnum Innrásin í Neytendasamtökin þar sem hann hélt því fram að aðalfundurinn hafi verið ólöglegur. Sveinn hafði mætt á fundarstað til að tilkynna fundarmönnum þá ákvörðun stjórnarinnar að fundinum yrði frestað og auk þess hafi um þrír fjórðu hlutar fundarmanna mætt ólöglega á fundarstað með fölsuð félagsskírteini.

Heimildarmenn kannast ekki við að Sveinn hafi lýst nokkru yfir á aðalfundinum. Nokkur átök höfðu verið í stjórninni um þá ákvörðun að víkja Sveini frá. Að sögn Gísla Gunnarssonar vildi hann láta nægja að láta Svein hætta, alla vega tímabundið en sleppa lögreglukærum um fjárreiðurnar þar sem hann óttaðist að kæra gæti riðið samtökunum að fullu. Mótrök Jóns Oddssonar, héraðsdómslögmanns, voru þau að ef þessi stjórn kærði ekki, yrði fráfarandi stjórn hugsanlega að gera það og þá sæti nýja stjórnin í súpunni með Sveini. Þessar skýringar Jóns voru meginástæða þess að út í aðgerðina var farið.

Sveinn klemmdist þannig á milli vilja tveggja stjórna samtakanna. Tillaga Jóns um lögreglurannsókn var samþykkt samhljóða en Gísli sat hjá við afgreiðsluna.

Deilan um Neytendasamtökin 1968 minnir að hluta til á róttækni og pólitíska virkni ungra vinstri manna á þessum árum. Sveinn var sjálfstæðismaður en þó hógvær í skoðunum og alls enginn málsvari heildsala. Morgunblaðið dró því taum hans í miklum blaðaskrifum um málið og leit á Neytendasamtökin sem róttæklingahreiður. Samtökin urðu fyrir umtalsverðum álitshnekki meðal almennings, einkum vegna kröfunnar um opinbera rannsókn á fjárreiðum þeirra og samtökin misstu í kjölfarið helming félaga sinna sem voru um 3500 á miðju ári 1969. Auk þess varð deilan án efa persónulegt áfall fyrir Svein. Á hinn bóginn má færa sterk rök að því, að öllum ólöstuðum, að samtökin þörfnuðust uppstokkunar, sérhæfðari stjórnunar fleiri einstaklinga og ólíkra sjónarmiða ef þau áttu að þróast yfir í öflug fjöldasamtök.

Árið 1969 náðust sættir um ávirðingar á hendur Sveini í deilunni um fjárreiður samtakanna og var málið tekið úr höndum lögreglu. Þar réðu ferðinni lögmennirnir Birgir Ásgeirsson og Jón Oddsson. Í afmælisblaði Neytendasamtakanna 1983 er viðtal við Svein um fyrstu fimmtán ár samtakanna og þremur árum síðar var hann gerður að eina heiðursfélaga Neytendasamtakanna.

3.2 Nýir stjórnarherrar

Fyrsta árið eftir hallarbyltinguna var Neytendasamtökunum á margan hátt erfitt. Margir stjórnarmenn urðu fljótt óvirkir í starfi. Við formennsku tók Hjalti Þórðarson frá Selfossi og gegndi formennsku fram að næsta aðalfundi, Hjalti var framsóknarmaður eins og áður sagði. Hrafn Bragason var ráðinn í hlutastarf sem lögfræðingur samtakanna en framkvæmdastjóri var Kristján Þorgeirsson. Hann og Karl Steinar Guðnason voru alþýðuflokksmennirnir í stjórninni. Gegndi Kristján framkvæmdastjórastöðunni skamma hríð. Fulltrúar róttækra vinstri manna í nýju stjórninni voru Gísli Gunnarsson ritari, síðar sagnfræðiprófessor, Jón Oddsson lögmaður og Hafsteinn Einarsson, síðar lögfræðingur. Ólíkt því sem áður hafði ætíð tíðkast var nú enginn sjálfstæðismaður í stjórn samtakanna.

Gísli Gunnarsson átti eftir að starfa mikið fyrir samtökin næstu fjögur árin. Auk þess að vera ritari stjórnar var hann um tíma framkvæmdastjóri þegar Kristján hætti störfum 1969. Gísli kom mikið að stjórnun samtakanna fram til 1972 og var auk þess ritstjóri Neytendablaðsins 1968–1972. Efnisval og efnistök breyttust nokkuð með hans ritstjórn og töldu ýmsir sig merkja þar róttækni ritstjórans. Hann sendi okrurum tóninn, tortryggði auglýsingar almennt og gagnrýndi margar þeirra. Hann vildi banna sjónvarpsauglýsingar. En Gísli var góður ritstjóri. Blaðið var í mjög ódýru broti, kom út þrisvar á ári, var efnismikið og yfirleitt á léttum nótum. Það tók á nýjum málum, s.s. afborgunarskilmálum, og ritstjórinn vann viðamiklar kannanir og vandaðar úttektir á ýmsum vörutegundum.

3.3 Þjóðstjórnin

Árið 1969 var stjórnin nánast orðin óstarfhæf sökum áhugaleysis og ágreinings. Alþýðuflokksmennirnir Kristján og Karl höfðu dregið úr virkri þátttöku sem og Hafsteinn og Jón Oddsson vildi hætta í stjórninni við fyrsta tækifæri.

Þeir sem eftir sátu í stjórn samtakanna mynduðu nú nýja stjórn með þátttöku sjálfstæðismanna. Síðla hausts 1969 kaus aðalfundur nýja stjórn. Eftir sátu áfram frá fyrri stjórn þeir Gísli, Hjalti og Kristján. Hjalti hætti sem formaður. Óttar Yngvason, síðar forstjóri Útflutningsmiðstöðvarinnar, varð nú formaður samtakanna og gegndi því embætti til 1973. Hann var fulltrúi Alþýðuflokksins ásamt Kristjáni en Bjarni Helgason jarðeðlisfræðingur og Höskuldur Jónsson, síðar forstjóri ÁTVR, voru fulltrúar sjálfstæðismanna. Gísli var áfram ritari og ritstjóri og hafði með sér annan alþýðubandalagsmann, Hallveigu Thorlacius. Þeir Óttar, Gísli og Bjarni mynduðu nokkurs konar framkvæmdaráð þó að þeir Gísli og Bjarni kæmu mest að starfi og stefnumótun samtakanna á þessum árum.

Var samstarf þeirra mjög gott þótt auðvitað væru þeir ekki alltaf sammála. Samtökin tóku því að rétta úr kútnum í árslok 1969, festa komst á stjórn þeirra og Morgunblaðið tók samtökin í sátt sem var mjög mikilvægt á þessum áhrifatímum dagblaðanna. Félagsmönnum samtakanna fjölgaði nú jafnt og þétt og voru komnir í 5000 manns árið 1972.

Starf Bjarna var samtökunum að mörgu leyti mjög mikils virði. Hann var ráðagóður og umburðalyndur. Hins vegar var hann ekki viðbúinn að mæta þeim erfiðleikum sem komu upp þegar átök urðu 1973 milli stjórnar og starfsmanna samtakanna.

4. kafli
Skin og skúrir 1973–1982

4.1 Rekstrar- og fjármálaerfiðleikar

Gísli Gunnarsson starfaði meira fyrir Neytendasamtökin og kom meira að stefnumótun þeirra en nokkur annar maður frá 1968–1972. Var hann í hlutastarfi á tímakaupi en hann var gagnfræðaskólakennari að aðalstarfi. Hrafn Bragason, síðar hæstaréttardómari, var lögfræðiráðgjafi samtakanna, einnig í hlutastarfi á tímakaupi en hann var þá dómarafulltrúi að aðalstarfi. Frá haustinu 1969 til miðs árs 1973 var Áslaug Káradóttir fastráðinn starfsmaður samtakanna og sá þar um allt skrifstofuhald. Hrafn hætti störfum fyrir samtökin 1971. Snemma árs 1971 var Björn Baldursson lögfræðingur ráðinn í hlutastarf sem yfirmaður kvörtunarþjónustu samtakanna, einnig skyldi hann létta ritstjórnarstörf Gísla. Hann hafði titil sem framkvæmdastjóri en því fylgdu engin völd og féll honum það illa. Gísli, með aðstoð Bjarna, réð áfram því sem hann vildi. Gísla og Birni samdi ekki og vildi Gísli láta víkja Birni úr starfi snemma árs 1972 en tilaga þar um felld í stjórn.

Það urðu óneitanlega nokkur kaflaskil þegar Gísli hætti öllu starfi fyrir samtökin og hvarf utan til náms 1972. Við brottför hans voru þrír ráðnir í hlutastarf við ritstjórn samtakanna og voru þá á tímabili fimm í einhvers konar starfi við skrifstofu samtakanna. Ekki náðist að skipuleggja starfið sem skyldi. Vaxandi spennu gætti milli Björns Baldurssonar og sumra ritstjórnarmanna annars vegar og stjórnarinnar hins vegar, meðal annars vegna greiðslna fyrir vinnu. Fóru leikar svo að öllu hlutastarfsfólki var sagt upp vorið 1973. Burðarási í daglegu starfi samtakanna, Áslaugu Káradóttur, fannst stjórnin ganga of langt í uppsögnum sínum og sagði sjálf upp störfum í mótmælaskyni.

Haustið 1973 voru samtökin aftur komin í umtalsverð vandræði hvað varðar stjórn, starf og fjárhag. Bjarni Helgason sem hafði verið varaformaður samtakanna frá 1971 tók við formennsku 1973 og gegndi embættinu til 1974. Þá gegndi Guðmundur Einarsson formennsku í eitt ár, 1974–1975 og Sigurður P. Kristjánsson í annað ár, 1975–1976. Á formannsárum Bjarna, Guðmundar og Sigurðar var lögð áhersla á alhliða sparnað, niðurskurð og skuldagreiðslu. Á þessum aðhaldsárum, 1973–1976, var öll starfsemi Neytendasamtakanna skorin niður. Útgáfustarfsemi var í lágmarki og í nokkur ár kom einungis út eitt tölublað Neytendablaðsins á ári og stundum ekkert og önnur starfsemi samtakanna var eftir því. Þegar samtökin náðu svo því mikilvæga markmiði að greiða skuldir sínar að mestu leyti hafði það kostað þau þúsundir félagsmanna sem hafði fækkað í fimmtán hundruð manns í lok áttunda áratugarins.

4.2 Stjórnartíð Reynis Ármannssonar

Árið 1976 varð Reynir Ármannsson formaður Neytendasamtakanna og gegndi hann formennsku til 1982. Reynir var yfirvegaður, raunsær og gætinn. Honum tókst það erfiða verkefni að losa samtökin endanlega úr skuldum, koma aftur á festu við stjórnunina og snúa samtökunum aftur til sóknar, hægt og bítandi án þess að fjármálin færu úr böndunum. Nú var ráðinn einn starfsmaður á skrifstofuna í fullt starf og 1981 fjölgaði tölublöðum Neytendablaðsins úr einu í tvö á ári. Auðvitað var fjármálastjórnin á þessum erfiðu árum ekki eingöngu í höndum eða alfarið á ábyrgð formanna samtakanna. Gjaldkerar unnu þar mikið og oft erfitt starf og má í því sambandi nefna einstaklinga á borð við Björn Matthíasson, Eiríku Friðriksdóttur og Sigríði Friðriksdóttur.

Reynir gerði sér grein fyrir því að Neytendasamtökin væru ekki og yrðu líklega aldrei ópólitísk. Þau væru hins vegar þverpólitísk og því skipti mestu að komast hjá illvígum, pólitískum deilum með því að forðast öfgar og ræða opinskátt um ágreiningsmál. Þetta tókst í öllum meginatriðum í stjórnartíð hans, enda Reynir sjálfur öfgalaus, hógvær og víðsýnn með mikla reynslu af félagsmálum. Hann starfaði sem póstmaður á árunum 1941–1982 og hafði verið formaður Póstmannafélags Íslands á árunum 1970–1976. Reynir lést 4. desember 2002.

Jónas Bjarnason var varaformaður Neytendasamtakanna lengst af í formannstíð Reynis, eða á árunum 1976–1981. Hann er efnaverkfræðingur að mennt og stundaði framhaldsnám í næringarfræði, var yfirverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, var formaður BHM 1974–1978 og forseti Náttúrulækningafélags Íslands. Jónas kom mikið að stjórn samtakanna á þessum árum og skrifaði fjölda greina um neytendamál í tímarit samtakanna og í dagblöð.

Guðsteinn V. Guðmundsson var ráðinn framkvæmdastjóri samtakanna árið 1981 og gegndi því starfi til ársins 1987.

4.3 Baráttumál í tíð Reynis

Af stórum málum Neytendasamtakanna í stjórnartíð Reynis má einkum nefna þrjú mál: Í tómatamálinu börðust samtökin fyrir því að Sölufélag garðyrkjumanna hætti að fleygja á haugana svonefndri umframframleiðslu tómata yfir háuppskerutímann til þess að koma í veg fyrir verðlækkun þegar framboðið var mest. Þetta tókst með góðri aðstoð DV sem birti fréttir og myndir af þessari ógeðfelldu sóun.

Samtökin komu einnig mjög við sögu í svonefndu lagmetismáli. Neytandi hafði kvartað undan gölluðum, niðursoðnum sjólaxi. Við nánari athugun kom í ljós að mikið var um gallað, jafnvel skemmt lagmeti framleitt hér á landi og fengust umtalsverðar úrbætur á þeim málum í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Loks má nefna mjólkurmálið en 1981 hafði Mjólkursamsalan notast við bilað gerilsneyðingartæki í marga mánuði með þeim afleiðingum að mjólkurgæðin minnkuðu stórlega, auk þess sem mjólkin hafði nánast ekkert geymsluþol. Vegna baráttu samtakanna skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra nefnd sem kom með ýmsar mikilvægar úrbótatillögur. Mjólkurfræðingafélag Íslands studdi Neytendasamtökin í þessum málarekstri. Þá kom sér vel að Jóhannes Gunnarsson mjólkurfræðingur, síðar formaður samtakanna, var orðinn mjög virkur í samtökunum. Þess má geta að samtökunum var stefnt er þau leyfðu sér að vara við tiltekinni auglýsingu um litasjónvörp. Málið minnti á Hvile Vask-málið en Neytendasamtökin unnu nú málaferlin bæði í undirrétti og hæstarétti.

4.4  Úr staðbundnu félagi í landssamtök

Mikilvægustu breytingarnar á uppbyggingu og félagsstarfi Neytendasamtakanna hófust í stjórnartíð Reynis. Þá voru stofnuð neytendafélög víðs vegar um landið. Strangt til tekið voru Neytendasamtökin upphaflega stofnuð sem Neytendafélag Reykjavíkur. Málsvarar samtakanna fengu oft að heyra það frá alþingismönnum og öðrum ráðamönnum að hér væri í raun um að ræða hagsmunafélag sem væri svæðisbundið við höfuðborgarsvæðið. Það var því mjög mikilvægt fyrir ímynd samtakanna út á við, sem og alla félagslega uppbyggingu þeirra, að hefja stofnun öflugra neytendafélaga á landsbyggðinni.

Þessi þróun hófst með stofnun öflugs félags í Borgarnesi 1978. Sá sem þar kom mest við sögu var mjólkurfræðingurinn Jóhannes Gunnarsson. Í kjölfar Borgarnessfélagsins var stofnað neytendafélag á Akranesi sama ár, á Akureyri 1979 og síðan á Húsavík, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Höfn í Hornafirði. Neytendafélög voru stofnuð á Blönduósi og Sauðárkróki snemma árs 1980 en 1982 var stofnað neytendafélag á Ísafirði og sérstakt neytendafélag á höfuðborgarsvæðinu.

Lögum Neytendasamtakanna var síðan breytt þannig að Neytendasamtökin urðu í raun landssamtök þessara neytendafélaga. Jafnframt var stjórnarmönnum í Neytendasamtökunum fjölgað úr sjö í tólf. Þessar breytingar tóku gildi á aðalfundi samtakanna 1982.

5. kafli
Breyttir tímar – breytt samtök

5.1 Formannstíð Jóns Magnússonar

Á aðalfundi Neytendasamtakanna 1982 var Jón Magnússon lögmaður kosinn formaður og gegndi hann embættinu í tvö ár. Jón var þaulvanur stjórnmálum og félagsstörfum. Eins og góðum lögfræðingum er lagið var hann sleipur í lagakrókum, fljótur að átta sig á aðalatriðum hvers máls, flugmælskur og var því góður málsvari samtakanna í fjölmiðlum. Jón hafði starfað mikið í röðum ungra sjálfstæðismanna, var formaður Stúdentaráðs HÍ 1970–1971, formaður Heimdallar 1975–1977, sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og hafði verið formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1977–1981. Þá sat hann á Alþingi um skeið sem varaþingmaður. Jón fylgdi frjálslyndari armi ungra sjálfstæðismanna og var því aldrei bendlaður við frjálshyggjuhreyfinguna sem mikið bar á um þetta leyti.

Jón vann mikið starf fyrir Neytendasamtökin. Auk þess að vera formaður samtakanna sat hann í stjórn þeirra frá 1978–1984, sat aftur í stjórn 1988–1990 og 1996–2000 og var þá jafnframt varaformaður. Þá hefur hann verið formaður Neytendafélags höfuðborgarsvæðisins.

5.2  Finnskar kartöflur – banabiti einokunar

Á formannsárum Jóns beittu samtökin sér einkum fyrir lækkuðu verði á landbúnaðarafurðum og forystumenn samtakanna gagnrýndu mjög landbúnaðarkerfið í heild. Sú gagnrýni átti svo eftir að kristallast og ná hámarki í deilunum um finnsku kartöflurnar vorið 1984. Grænmetisverslun landbúnaðarins sem ennþá hafði einokunarrétt á því að flytja inn kartöflur hafði flutt inn og sett í dreifingu kartöflur frá Finnlandi. En þær voru þá einu fáanlegu kartöflurnar í verslunum. Þessar finnsku kartöflur voru augljóslega sýktar og að mestu leyti óætar. Mikil og almenn gremja gagnvart Grænmetisversluninni greip því enn einu sinni um sig meðal neytenda.

Neytendasamtökin sem höfðu oft áður staðið í baráttu við Grænmetisverslun landbúnaðarins gripu nú til mun harðari aðgerða en áður. Samtökin gengust fyrir undirskriftasöfnun meðal almennings þar sem farið var fram á rannsókn á innflutningi, dreifingu og sölu Grænmetisverslunarinnar á finnsku kartöflunum og jafnframt var skorað á stjórnvöld að gefa innflutning á kartöflum og öðru grænmeti frjálsan. Undirskriftalistarnir lágu frammi í verslunum frá því á hádegi á föstudegi og fram á mánudag og skrifuðu tuttugu þúsund manns á þá á þessum skamma tíma.

Jón Helgason landbúnaðarráðherra tók óánægju neytenda og undirskriftunum fálega í fyrstu. En forystumenn Neytendasamtakanna sneru sér þá til forsætisráðherra, Steingríms Hermannssonar, með þá pólitísku kröfu að einokuninni yrði aflétt. Hann lofaði viðunandi breytingum. Fljótlega var svo öðrum aðilum leyft að flytja inn kartöflur til landsins og skömmu síðar var einokunin á innflutningnum afnumin með nýjum búvörusamningi. Grænmetisverslun landbúnaðarins var lögð niður en þar með hvarf af sjónarsviðinu einhver ósvífnasti einokunaraðili í íslensku viðskiptalífi á 20. öld. Finnsku kartöflurnar höfðu orðið banabiti þess forna fjandmanns íslenskra neytenda.

Þessi málalok urðu ekki einungis sigur í áratuga löngu kartöflustríði. Málið í heild átti eftir að auka frjálsræði í heildsöluverslun með garðávexti og koma á nokkrum umbótum í hinu annars samkeppnishamlandi landbúnaðarkerfi. Auk þess fjölgaði félagsmönnum töluvert í Neytendasamtökunum í kjölfar málsins. Þá gagnrýndu Neytendasamtökin um þetta leyti meint samráð um verðlagningu á sólarlandaferðum en sú gagnrýni hafði í för með sér stóraukna samkeppni á þessu sviði og lækkandi verð.

5.3  Jóhannes Gunnarsson og neytendastarf hans

Er Jón Magnússon tók við formennsku Neytendasamtakanna 1982 varð Jóhannes Gunnarsson varaformaður. Hann hafði verið helsti drifkrafturinn í stofnun fyrsta neytendafélagsins á landsbyggðinni þegar hið öfluga félag í Borgarnesi var stofnað 1978. Auk þess vann hann ötullega að stofnun neytendafélaga víðar á landsbyggðinni. Hann fór í kynningarferðir með Reyni Ármannssyni, m.a. um Austfirði þar sem stofnuð voru neytendafélög í sex kauptúnum á jafn mörgum dögum. Þannig ruddi hann brautina þegar verið var að breyta samtökunum úr staðbundnu Reykjavíkurfélagi í eiginleg landssamtök.

Jóhannes lauk prófum sem mjólkurfræðingur frá Óðinsvéum í Danmörku 1970 og var í framhaldsnámi þar 1970–1971. Hann var mjólkurfræðingur í Mjólkurbúi Flóamanna 1972–1973, Mjólkursamlagi Neskaupstaðar 1973–1975 og Mjólkursamlagi Borgfirðinga í Borgarnesi 1975–1980. Jóhannes var upplýsinga- og útgáfustjóri hjá Verðlagsstofnun 1980–1990 og þess má geta að Jóhannes hefur síðan 1990 verið í föstu starfi hjá Neytendasamtökunum. Hann sat í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins 1985–1987 og í miðstjórn þess að auki.

Hann var fyrsti formaður Neytendafélags Borgarfjarðar 1978–1980 og varð varaformaður Neytendasamtakanna þegar Jón Magnússon varð formaður þeirra.

Þrátt fyrir ólíkar stjórnmálaskoðanir Jóns og Jóhannesar varð samvinna þeirra afar farsæl enda tók Jóhannes við formennsku af Jóni 1984 og hefur verið formaður samtakanna síðan að undanskildum tveimur árum, eða lengur en nokkur annar. Þessi tvö ár, 1996–1998 var hann þó framkvæmdastjóri samtakanna en formaður samtakanna þá var Drífa Sigfúsdóttir, fyrst kvenna.

Jóhannes hefur líklega víðtækari þekkingu á neytendamálum og þróun þeirra en nokkur annar Íslendingur. Hann hefur verið skeleggur talsmaður neytendaverndar og neytendahagsmuna um áratuga skeið, hefur sérstakt lag á að sætta ólík sjónarmið og hefur notið mikils trausts þeirra sem ráðist hafa til forystu með honum.

Í formannstíð Jóhannesar varð formannsembættið viðameira og vandasamara eftir að samtökin urðu landssamtök. Samtökin urðu raunveruleg fjöldasamtök á fáeinum árum. Þau urðu mun fyrirferðarmeiri í allri fjölmiðlaumræðu, beittu sér sífellt meira á nýjum sviðum, t.d.. á sviði tryggingamála og fjármálaviðskipta, fræðslu- og upplýsingastarfsemi samtakanna jókst til muna og alþjóðlegt samstarf samtakanna varð miklu öflugra en nokkurn tíma áður. Eftir því sem hlutverk Neytendasamtakanna hefur orðið fjölbreyttara og starfsemi þeirra markvissari og faglegri hafa opinberir aðilar óskað eftir samvinnu og umsögnum samtakanna í æ ríkari mæli, t.d. varðandi margvíslega löggjöf.

6. kafli
Helstu baráttumálin frá 1982

6.1 Neytendasamtökin verða fjöldasamtök

Eins og oft hefur komið hér fram eru Neytendasamtökin frjáls félagasamtök sem hafa alla tíð byggt starfsemi sína á félagsgjöldum. Félagsgjöldin nema nú 72% af rekstrargjöldum samtakanna. Útgáfustarfsemi samtakanna leggur til 8% af rekstrargjöldunum, framlag ríkisins er um 15% gjaldanna, framlag Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga um 3% og framlag stéttarfélaga um 2%. Ef litið er til Norðurlandanna kemur í ljós að ríkið greiðir um 80% af rekstrargjöldum sambærilegra neytendasamtaka í Danmörku og Noregi en í Finnlandi er framlag ríkisins um 90%.

Það gefur því auga leið að tilvist, styrkur og starfsemi samtakanna er algjörlega undir félagsmönnum komin, fjölda þeirra og skilvísum greiðslum félagsgjalda.
Auk þess ber að geta að samtökin hafa löngum notið dugnaðar og ósérhlífni fjölda starfsmanna og forystumanna sinna sem oft hafa þegið mjög lág eða jafnvel engin laun fyrir vel unnin störf af ýmsu tagi. Ýmis störf Neytendasamtakanna hafa því í gegnum árin verið unnin í sjálfboðavinnu.

Lengst af fram að skipulagsbreytingum samtakanna 1982 voru félagsmenn á bilinu 2000 til 4000. Félagsmönnum fækkaði umtalsvert í kjölfar hallarbyltingarinnar 1968 en með öflugu Neytendablaði og nokkru átaki fjölgaði þeim aftur og voru komnir í rúm 5000 árið 1972.

Félagsmönnum fækkaði síðan aftur á samdráttartímum samtakanna 1973–1978 og fóru þá niður í 1500 manns þegar þeir voru fæstir. Á níunda áratugnum fjölgaði nokkuð ungu og áhugasömu fólki í samtökunum og eru fyrir því ýmsar ástæður. Má þar nefna hin nýju neytendafélög á landsbyggðinni, síaukinn áhuga fjölmiðlanna á neytendamálefnum, skeleggan málflutning forystumanna samtakanna í fjölmiðlum og sigur í kartöflu- og grænmetismálunum 1984 sem varð neytendum mjög sýnilegur. Félagsmönnum fjölgaði stöðugt á hverju ári frá 1980.

Það fór ekki á milli mála að ef Neytendasamtökin ætluðu sér að verða sterkt og áhrifaríkt afl í þjóðfélaginu þá þyrftu þau að fjölga félagsmönnum enn frekar. Þar sem skilningur stjórnvalda á mikilvægi öflugs neytendastarfs í nútímahagkerfi er takmarkaður eins og er hér eru fáar aðrar leiðir færar en að höfða til neytendanna sjálfra. Hér eru þó alltof fáir til að halda uppi öflugu neytendastarfi. En þegar miðin eru léleg verður að róa þar sem mest gefur.

Í lok níunda áratugar síðustu aldar og í byrjun þess tíunda ákvað forysta Neytendasamtakanna að fara í herferð til að fá fleiri neytendur til að ganga til liðs við samtökin með það að markmiði að skapa fjöldasamtök og um leið möguleika á að efla neytendastarf í þeim mæli sem aðstæður leyfðu. Það kom forystu Neytendasamtakanna verulega á óvart hve vel þessi herferð tókst. Á þremur árum tókst að fjölga félögum úr um 5.000 í rúmlega 21.000. Þetta gerði Neytendasamtökin að hlutfallslega langfjölmennustu neytendasamtökum í heiminum.

Finnbjörg Guðmundsdóttir og Elva B. Benediktsdóttir voru ráðnar starfsmenn Neytendasamtakanna árið 1987. Þær unnu í upphafi að félagaöflun fyrir Neytendasamtökin og tókst mjög vel í því starfi. Finnbjörg tók síðan að sér skrifstofustjórastarf fyrir Neytendasamtökin sem hún gegndi til ársins 1994.

Síðan hefur gengið verr að halda þessari tölu en nú eru félagsmenn tæp 13.000. Það má skýra m.a. með þrennu, neytendur eru orðnir því afhuga að taka þátt í félögum og samtökum, mjög margir líta á Neytendasamtökin sem opinbera stofnun þar sem hægt sé að leita aðstoðar án þess að greiða fyrir eða að vera félagsmaður, þetta sé innifalið í sköttum eða félagslegri þjónustu. Samt sem áður reiða stjórnvöld af hendi innan við 20% af tekjum Neytendasamtakanna.

Þrátt fyrir fækkun í Neytendasamtökunum eru samtökin ennþá miðað við íbúafjölda þau fjölmennustu í heimi en nú fylgja hollensku samtökin fast á eftir enda eru þau samtök þekkt fyrir að vera sterk og hafa mikil áhrif.

6.2 Fræðslustarfsemi eykst

Strax í formannstíð Reynis Ármannssonar var farið að ræða nauðsyn þess að Neytendasamtökin legðu aukna áherslu á fræðslu- og upplýsingaþáttinn í starfi sínu.

Segja má að nokkur kaflaskil hafi orðið í þessum efnum í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Á fyrstu árum tíunda áratugarins bar mjög á fjárhagsvanda hjá heimilum. Neytendasamtökin ákváðu að láta að sér kveða til að knýja á um úrbætur. Í fyrsta lagi buðu Neytendasamtökin upp á námskeið um hagsýni í heimilishaldi auk ráðgjafar fyrir þá sem áttu við verulegan fjárhagsvanda að stríða. Í öðru lagi lögðu þau áherslu á aðkallandi aðgerðir stjórnvalda en ekki síður að Alþingi setti nauðsynleg lög og þá helst ný lög um greiðsluaðlögun, lög um ábyrgðarmenn og lög um innheimtustarfsemi. Jafnframt héldu Neytendasamtökin vel heppnaða ráðstefnu þar sem þessi mál voru kynnt. Einnig fengu Neytendasamtökin styrk hjá Norrænu ráðherranefndinni til að rannsaka hvernig auðveldast væri að koma á viðmiðunarneyslu fyrir íslensk heimili en slík viðmiðunarneysla hafði þá þegar verið unnin á öðrum Norðurlöndum. Í framhaldi af þessu var ákveðið að stofna Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og lögðu Neytendasamtökin fram þekkingu sína til að styrkja stofuna. Varðandi lög um greiðsluaðlögun tóku íslensk stjórnvöld illu heilli þá ákvörðun að fara ekki sömu leið og farin hafði verið á öðrum Norðurlöndum, þ.e. að setja sérstaka löggjöf um greiðsluaðlögun, heldur var ákveðið að breyta lögum til að auðvelda skuldsettum heimilum að leita nauðasamninga.

Þessi leið hefur hins vegar reynst gagnslaus og hafa Neytendasamtökin ítrekað farið fram á að borinn sé saman árangurinn af því að hjálpa skuldsettum heimilum hér á landi og á öðrum Norðurlöndum. Jafnframt hafa Neytendasamtökin margítrekað kröfu sína um að hér verði sett lög um greiðsluaðlögun að norrænni fyrirmynd.

Ekki hefur heldur tekist að fá sett lög um ábyrgðarmenn. Hins vegar hafa Neytendasamtökin, fjármálastofnanir og viðskiptaráðuneytið gert með sér samkomulag um ábyrgðarskuldbindingar. Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um að lánastofnanir skuli draga úr notkun sjálfskuldaábyrgðar og hefur verulegur árangur náðst í þeim efnum, þótt enn vanti þar mikið upp á. Gamla löggjöfin er því ennþá í gildi. Þrátt fyrir að fjórir þeirra fimm stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi hafi lýst yfir stuðningi sínum við málið hefur ekki enn tekist að fá ný lög um innheimtustarfsemi.

6.3  Neytendafræðsla

Á síðari árum hafa orðið miklar breytingar í samfélaginu á flestum sviðum. Þessar breytingar auka mjög þörf hvers og eins á vitneskju um grundvallaratriði neytendamála og mikilvægt er að þessum þætti sé sinnt í grunnskólum. Með því að leggja áherslu á neytendafræðslu hjá börnum og unglingum aukast líkur á því að þeir verði betur í stakk búnir að takast á við hlutverk sitt sem neytendur á fullorðinsárum. Einstaklingar og fjölskyldur verða að geta tamið sé neysluvenjur sem taka mið af umhverfi, fjárhagslegri afkomu og tíma hvers og eins.

Neytendasamtökin hafa í mörg ár bent á nauðsyn þess að neytendafræðslu sé sinnt í  grunn- og framhaldsskólum. Með nýrri námsgrein, lífsleikni, hefur skapast ágætur vettvangur fyrir neytendafræðslu í skólum. Markmið neytendafræðslunnar eru í fullu samræmi við markmið lífsleikninnar.  Baráttu Neytendasamtakanna fyrir neytendafræðslu er ekki þar með lokið því að ennþá þurfa þau að beita sér fyrir auknu vægi neytendafræðslunnar lífsleikni. Þá hafa Neytendasamtökin lagt áherslu á það að neytendafræðsla verði kennd í kennaranámi og endurmenntun kennara.

Neysla er snar þáttur af daglegu lífi hverrar fjölskyldu. Með hliðsjón af almennum uppvaxtarskilyrðum barna bjóða neytendamál upp á mikla möguleika á samvinnu og samábyrgð milli heimila og skóla, milli foreldra og kennara.

6.4 Leiðbeininga- og kvörtunarþjónusta Neytendasamtakanna

Þegar hugað er að starfsemi Neytendasamtakanna má ekki gleyma dýrasta þættinum í starfseminni, rekstri leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu þar sem neytendur geta fengið upplýsingar um rétt sinn í viðskiptum og aðstoð við að ná rétti sínum geti þeir það ekki sjálfir. Þessi starfsemi tekur til sín um helming allra tekna Neytendasamtakanna eða um 25 milljónir króna.

Neytendasamtökin hafa gert þjónustusamning við viðskiptaráðuneytið um rekstur þessarar þjónustu og að hún sé öllum opin. Hjá nágrannaþjóðum okkar er litið á þessa þjónustu sem samfélagslega þjónustu og hún kostuð af almannafé.

6.5 Neytendalöggjöf

Neytendasamtökin börðust lengi fyrir nýjum lögum um lausafjárkaup (kaupalög) en fyrir voru lög sem voru samþykkt 1922 að danskri fyrirmynd. Fyrir löngu höfðu verið sett ný lög á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. En Neytendasamtökin linntu ekki látunum og bar starf þeirra loks ávöxt á árinu 2001 þegar ný lög um lausafjárkaup (kaupalög) gengu í gildi. Þróunin hélt áfram og árið 2003 voru samþykkt sérstök lög um neytendakaup. Lögin um lausafjárkaup gilda þó aðeins um hluti sem við kaupum, þjónustan stendur eftir, en sama ár og nýju lögin um lausafjárkaup voru samþykkt voru einnig samþykkt lög um þjónustukaup. Mikilvæg hagsmunamál neytenda voru því loks í höfn.

Með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu náðist margvíslegur ávinningur á neytendasviðinu. Með aðildinni varð Alþingi að samþykkja margs konar mikilvæg lög á sviði neytendaverndar og má þar nefna lög um fjarsölu, neytendakaup og skaðsemisábyrgð. Í öllum tilvikum er um að ræða mál sem Neytendasamtökin höfðu í langan tíma barist fyrir að fá sett í íslenska löggjöf.

Auk lagafrumvarpa sem varða fjárhagslega hagsmuni neytenda og nefnd voru hér að framan (lög um innheimtustarfsemi, ábyrgðarmenn og greiðsluaðlögun) hafa Neytendasamtökin lengi barist fyrir að fá sérstaka löggjöf um embætti umboðsmanns neytenda.

6.6 Fákeppnin

Neytendasamtökin hafa tekið mikinn þátt í umræðu um vaxandi fákeppni hér á landi og talað fyrir virkri samkeppni og gagnrýnt minnkandi virka samkeppni sem geri kjör íslenskra neytenda lakari. Í því sambandi má nefna eftirfarandi markaði:

  •     Matvörumarkaður
  •     Fjármálamarkaður (peninga- og vátryggingamarkaðir)
  •     Olíumarkaður
  •     Bóka- og ritfangamarkaður
  •     Sportvörumarkaður
  •     Byggingavörumarkaður
  •     Símamarkaður

Neytendasamtökin hafa einnig rannsakað og gert margvíslegar kannanir á þessum mörkuðum til að veita aðhald og upplýsingar.

6.7 Alþjóðlegt samstarf

Í byrjun tíunda áratugarins juku Neytendasamtökin mjög samvinnu við erlend neytendasamtök, til dæmis með virkri þátttöku í norrænu neytendasamstarfi, samstarfi innan Evrópusamtaka neytenda (BEUC) og samstarfi neytendasamtaka um gæðakannanir (ICRT). Öll þessi samvinna hefur skilað Neytendasamtökunum veigamiklum upplýsingum og margvíslegum stuðningi.

Neytendasamtökin hafa ávallt tekið virkan þátt í umræðu um aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum og tekið einarða afstöðu með auknu frelsi, þar á meðal með landbúnaðarvörur. Þau hafa verið samstíga Alþjóðasamtökum neytenda um að það sé neytendum fyrir bestu að sem mest frelsi ríki. Fyrir allnokkrum árum þegar GATT var breytt í WTO (Aljóðaviðskiptastofnunina) leiddu Neytendasamtökin baráttuna gegn ofurtollastefnunni eins og hún var kölluð. Nokkur árangur náðist þó svo að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur séu enn allt of háir og kvótar sem hækka verð notaðir til að veita innflutningsleyfi.

Í lok árs 1989 ákváðu Neytendasamtökin, viðskiptaráðuneytið og Samkeppnisstofnun að taka virkan þátt í norrænu neytendasamstarfi. Þetta var heilladrjúg ákvörðun enda ljóst að hin Norðurlöndin voru komin miklu lengra í neytendamálum en við. Af þeim mátti læra margt og auk þess fá hugmyndir að verkefnum. Þetta samstarf hefur gefið samtökunum ómetanlega möguleika í þágu íslenskra neytenda og um leið aflað tengsla við mikilvæga aðila. Neytendasamtökin hafa haft frumkvæði að þremur norrænum verkefnum á neytendasviðinu: „Viðmiðunarneysla fyrir íslensk heimili“, „Landbúnaðarstefnan á Norðurlöndum og neytendur“og „Bankaþjónusta á hvaða kjörum“.

6.8 Breyttar neysluvenjur

Um 1970 voru matarvenjur Íslendinga að taka umtalsverðum breytingum frá því sem áður hafði tíðkast um langt skeið. Jafnframt fóru sífellt fleiri konur út á vinnumarkaðinn en þar með fækkaði þeim heimilum sem höfðu heitan mat í hádeginu. Mötuneytum á vinnustöðum fjölgaði og fyrstu alvöru skyndibitastaðirnir á borð við Sælkerann og Ask litu dagsins ljós en þeim átti eftir að fjölga mjög.

Ferskur fiskur varð hlutfallslega dýrari en áður en kjöthakk og ýmsar unnar kjötvörur lækkuðu hlutfallslega í verði á sama tíma og svína- og alifuglarækt, einkum kjúklingarækt, jókst mjög í landinu.

Miklar breytingar urðu á afgreiðslufyrirkomulagi í matvöruverslunum með kjörbúðunum á sjöunda áratugnum en þær breytingar gerðu neytandann meðvitaðri um vöruval sitt. Með sífellt stærri stórmörkuðum jókst síðan úrval matvæla til muna.

Kröfur almennings um vöruúrval jukust að sama skapi enda hafði utanlandsferðum fjölgað mjög og almenningur kynnst framandi matargerð og neysluvenjum.

6.9 Landbúnaðarstefnan

Neytendasamtökin hafa alltaf verið mjög áberandi í umræðu um landbúnaðarmál og þeim raunar oftar en ekki lýst sem sérstökum andstæðingi íslenskra bænda vegna áherslna samtakanna. Því fer þó víðs fjarri enda lögðu samtökin ávallt áherslu á að um leið og nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á landbúnaðarstefnunni væri eðlilegt að veita innlendum framleiðendum sanngjarnan aðlögunartíma til að laga sig að breyttum aðstæðum á markaði. Neytendasamtökin börðust og berjast ennþá gegn framleiðslu- og kvótastýringu. Á fyrri hluta níunda áratugarins háðu Neytendasamtökin harða baráttu gegn því að komið yrði á slíkri stýringu innan eggja- og kjúklingaframleiðslu. Þetta var þó gert með skaðlegum afleiðingum fyrir neytendur en ekki síður fyrir þessar framleiðslugreinar.

Fullyrða má að ef litið hefði verið meira til sjónarmiða Neytendasamtakanna í landbúnaðarmálum væru málum háttað á annan og betri veg hér á landi og íslenskir bændur væru betur í stakk búnir til að takast á við samkeppni frá innfluttum búvörum. Það er einnig auðvelt að sýna fram á árangur á þessu sviði og er stórlækkað verð á grænmeti skýrt dæmi þar um.

6.10 Neytendasamtökin og fjölmiðlar

Í kjölfar þessarar miklu breytinga á neyslu- og innkaupavenjum þjóðarinnar tóku fjölmiðlar nú að fjalla mun meira um neytendamál en áður hafði tíðkast. Fjölmiðlum varð nú ljóst að vöruúrval, verð og gæði væru mikilvægir þættir í lífsháttum og lífskjörum þjóðarinnar. Einkum voru það prentmiðlarnir sem fjölluðu sífellt meira um neytendamál á áttunda áratugnum en þar munaði mest um Dagblaðið sem frá stofnun þess 1975 og síðan sem DV eftir sameiningu Dagblaðsins og Vísis 1981 hafði tvær fastar neytendasíður í blaðinu á viku allt til 1987, lengst af undir stjórn Önnu Bjarnason blaðamanns.

Þetta aukna vægi neytendamála í fjölmiðlum hefur haft töluverð áhrif á starf formanns Neytendasamtakanna. Formaður samtakanna er sífellt oftar spurður álits af fréttamönnum um ýmis mál er upp koma og snerta neytendur í landinu. Segja má að vægi Neytendasamtakanna í þessum efnum hafi farið sívaxandi síðastliðinn aldarfjórðung.