Smálánaólán
Afar margar fyrirspurnir berast Neytendasamtökunum þessa dagana vegna smálána. Málin eru af ýmsum toga en einna helst er kvartað yfir því að Almenn innheimta ehf, sem sér um innheimtu lánanna, sé að innheimta lán langt aftur í tímann og að lítið fari fyrir sundurliðun reikninga. Lántakendur vilja eðlilega vita hvort að verið sé að innheimta lán á ólöglegum vöxtum eða hvort búið sé að endurreikna lán í samræmi við löglega vexti.
Þá líta Neytendasamtökin það alvarlegum augum að svo virðist sem að í einhverjum tilfellum sé verið að skuldfæra lán af reikningum lántakenda án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja. Hafa samtökin því sent erindi á banka og sparisjóði og spurst fyrir um þessa starfshætti. Beðið er svara.
Neytendasamtökin hvetja fólk að hafa samband, telji það sig hlunnfarið í viðskiptum við smálánafyrirtæki.