Smálánaólánið
Neytendasamtökin furða sig á því hversu illa hefur gengið að stöðva ólöglega smálánastarfsemi hér á landi. Ennþá er verið að veita smálán með ólöglega háum vöxtum og því munu Neytendasamtökin halda áfram að krefjast aðgerða af stjórnvöldum og fyrirtækjum.
-Samtökin hafa frá árinu 2009 kallað eftir raunhæfum aðgerðum til að sporna við þessari meinsemd sem jafnvel dagsektir og dómsniðurstöður bíta ekki á.
-Árið 2018 sendu samtökin erindi til atvinnuvegaráðuneytisins og í kjölfarið var skipaður starfshópur um starfsemi smálánafyrirtækja. Hópurinn skilaði skýrslu í febrúar 2019.
-Þá sendu samtökin fyrirspurn til Almennrar innheimtu og kallað eftir svörum við því hvers vegna fyrirtækið taki að sér að innheimta ólögleg lán. Erindinu hefur ekki verið svarað.
-Kallað var eftir svörum við því hvers vegna Sparisjóður Strandamanna útbúi greiðsluseðla fyrir Almenna innheimtu. Svör bárust þess efnis að verið sé að skoða málið.
-Í síðustu viku komu samtökin á framfæri ábendingar til ríkislögreglustjóra, héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra um hvort ástæða sé til að rannsaka starfsemina í kjölfar fréttaskýringaþáttarins Kveiks. Jafnframt voru erindi send á Neytendastofu og Póst- og fjarskiptastofnunar vegna ágengrar markaðssetningar og aðgerða krafist.
-Þá voru í síðustu viku send erindi til fjármálafyrirtækja og kallað eftir svörum við því hvers vegna ólöglegar smálánaskuldir séu skuldfærðar beint af bankareikningum lántakenda að þeim forspurðum.