Svör stjórnmálaflokka – 3 af 5
Um skýrari lög um hópmálsóknir
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem standa vörð um og efla réttindi neytenda. Við erum öll neytendur og því afar mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra stefnu í neytendamálum og að neytendur séu upplýstir um hana, ekki síst nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Stjórn Neytendasamtakanna sendi stjórnmálaflokkum sem bjóða sig fram til alþingis fimm spurningar og óskaði svara. Hér er þriðja spurningin og svör flokkanna við henni:
Neytendasamtökin telja brýna þörf á skýrari lögum um hópmálsóknir og skýrari heimildum fyrir almannaheillasamtök að efna til hópmálsókna. Hver er afstaða flokksins til þess?
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þessa.
Sósíalistaflokkur Íslands
Hópmálssóknir eru tæki almennings til að ná fram rétti sínum og þar sem oft er við ofurefli að etja er eðlilegt að slíkar málssóknir séu ávallt auðsóttar og að kostnaðarþáttaka hins opinbera sé fest í lög.
Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands
Samfylkingin telur að það sé mikilvægt fyrir neytendur að geta sótt sér skaðabætur þegar brotið er á rétt þeirra til þess að lög um neytendavernd geti haft áhrif. Það er ljóst að það þurfi að skýra lög hér á landi um hópmálsóknir til þess að gera það raunverulega mögulegt fyrir einstaklinga að sækja til saka þá sem hafa brotið á rétti sínum. Það er að verða enn mikilvægara en áður að almannaheillasamtök geti efnt til hópmálssókna fyrir hönd félaga sinna og annarra.
Er það ekki síst mikilvægt að almannheillasamtök geti efnt til hópmálssókna í ljósi þeirra loftagsvár þar sem vilja villandi upplýsingar um vörur og kosti þeirra eða galla getur verið hvorutveggja neytendamál og málefni fyrir framtíðina. Að sama skapi þá hafa umbreytingar í hinum stafræna heimi og með frekari neyslu sem byggist á eða byrjar á internetinu, til að mynda með verslun eða notkun á samfélagsmiðlum, þá verður réttur bæði einstaklinga og almannaheillasamtaka að vera skýrari til þess að geta höfðað málsókn.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn myndi nálgast slíkt mál með opnum huga enda brýnt að bæta og styrkja réttarstöðu neytenda.
Flokkur fólksins
Flokkur fólksins er heilshugar fylgjandi skýrari lögum um hverskyns úrræði samtaka á sviði neytendaverndar til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Slíkar aðgerðir ættu jafnframt að vera fjármagnaðar beint úr ríkissjóði, sem myndi gera hópmálsóknir á kostnað neytendanna sjálfra eins og þekkjast í öðrum löndum óþarfar. Til að ná því markmiði þarf í fyrsta lagi að breyta lögum þannig að samtök á sviði neytendaverndar teljist alltaf eiga lögvarða hagsmuni í slíkum málum svo ekki sé hægt að vísa þeim frá vegna meints aðildarskorts. Í öðru lagi þarf að breyta lögum um lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda til að kveða skýrt á um að réttur hvers og eins hlutaðeigandi neytanda til skaðabóta standi ekki í vegi fyrir slíkum aðgerðum, en frumvarp þess efnis er tilbúið og við viljum leggja það fram á næsta kjörtímabili. Í þriðja lagi þarf að þrýsta á um skjóta upptöku í EES samninginn á Tilskipun 2020/1828/ESB um fulltrúaaðgerðir til verndar sameiginlegum hagsmunum neytenda og tafarlausa innleiðingu hennar í íslenskan rétt.
Framsóknarflokkurinn
Sjá svör við spurningum 1. og 2. Lög um hópmálsóknir voru fyrst sett hér á landi 2010 og eðlilegt er að skoða þau að nýju núna og meta hvort breytinga er þörf. Það ætti að verða hluti af úttektinni sem vísað er til að ofan [svörum við spurningum 1. og 2.].
Píratar
Píratar hafa haft horn í síðu þess hvernig dómskerfið túlkar „aðila máls“ í langan tíma. Það kristallaðist sérstaklega vel í máli Jóns Þórs Ólafssonar og VR þegar þau kærðu ákvörðun kjararáðs um hækkun þingmannalaunanna – en var vísað frá af því að þau töldust ekki vera aðilar máls.
Í grunnstefnu Pírata er sérstaklega kveðið á um vernd hinna valdaminni gangvart hinum valdameiri. Það er því svo sannarlega í anda flokksins að efla stöðu almannaheillasamtaka gagnvart réttindum skjólstæðinga þeirra að geta sótt mörg mál í einu í hópmálsókn. Það er skynsamlegt og skilvirkt fyrir dómskerfið að taka við slíkum málum og þannig er betur farið með almannafé.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Flokkurinn tekur undir og styður heilshugar álit NS varðandi skorts á lögum um hópmálsóknir og afgerandi heimilda fyrir almannheillasamtök til að efna til hópmálsókna.
Vinstrihreyfingin – Grænt framboð
Í stefnu VG er ekki sérstaklega fjallað um hópmálsóknir en þingmenn Vinstrigrænna hafa haft forystu um flutning þingmála um hópmálsóknir ásamt þingmönnum annarra flokka. Með því að innleiða slíkt úrræði væri réttarstaða fjölda manna bætt sem hafa svipaðar eða sams konar kröfur en þó svo lágar að þeim yrði vart fylgt eftir af einstaklingum m.a. vegna kostnaðar. Einnig væri það þjóðhagslega mjög hagkvæmt að heimila hópmálsóknir í stað þess að allir sem hagsmuni kunna að eiga af niðurstöðu dómsmáls fari hver fyrir sig í mál.
Viðreisn
Hópmálsókn er eitt þeirra verkfæra sem eiga tvímælalaust að vera í verkfærakistu samtaka á borð við Neytendasamtökin. Gildandi íslensk löggjöf á þessu sviði er mjög veikburða og allsendis ófullnægjandi. Því þarf að breyta.