Svör stjórnmálaflokka – 4 af 5
Um skaðabætur vegna samkeppnislagabrota
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem standa vörð um og efla réttindi neytenda. Við erum öll neytendur og því afar mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra stefnu í neytendamálum og að neytendur séu upplýstir um hana, ekki síst nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Stjórn Neytendasamtakanna sendi stjórnmálaflokkum sem bjóða sig fram til alþingis fimm spurningar og óskaði svara. Hér er fjórða spurningin og svör flokkanna við henni:
Neytendasamtökin vilja að auðveldara verði fyrir neytendur að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota með því að innleiða tilskipun 2014/104/ESB í íslensk lög eða að sambærileg lög verði sett. Hver er afstaða flokksins til þess?
Framsóknarflokkurinn
Sjá svör við spurningum 1.-3. Þessi tilskipun gæti hugsanlega verið tekin upp i EES samninginn síðar en hingað til hafa EES ríkin þrjú ekki orðið sammála um að taka hana upp. Samkeppniseftirlitið hefur hvatt til innleiðingar, en verði af úttektinni sem vísað er til að ofan þarf þetta að vera eitt af því sem þar kemur til skoðunar.
Píratar
Í kosningastefnu Pírata, í kaflanum um baráttu gegn , er sérstaklega fjallað um eflingu samkeppniseftirlits. Að við „byggjum upp eftirlitsstofnanir eftir markvisst niðurrif undanfarinna ríkisstjórna, með sérstaka áherslu á stofnanir sem rannsaka spillingu, efnahagsbrot, skattsvik, samkeppnisbrot og peningaþvætti.“
Grunnstefna Pírata er mjög skýr hvað þetta varðar, að efla og vernda borgararéttindi. Að fólk geti sótt rétt sinn er þar lykilatriði og ef einhverju er ábótavant á þeim vettvangi viljum við gera betur. Einfalda svarið við þessari spurningu er því já.
Þessu tengt, í kosningastefnu okkar um aðgengi að réttlæti, þá viljum við setja á fót smákröfudómstól þar sem hægt yrði að útkljá ágreining um kröfur upp að ákveðinni fjárhæð til að auðvelda fólki aðgang að réttarkerfinu án verulegra fjárútláta.
Frjálslyndi lýðæðisflokkurinn
Flokkurinn styður eindregið lagasetningu sem auðvelda neytendum að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota. Flokkurinn er tilbúin til að styðja slíka lagasetningu á komandi þingi
Vinstrihreyfingin – Grænt framboð
Í stefnu VG er ekki sérstaklega fjallað um skaðabætur vegna samkeppnislagabrota en þetta ber að skoða enda er erfitt á Íslandi fyrir tjónþola að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota ef við berum það saman við önnur Evrópulönd.
Hreyfingin mun beita sér fyrir heildarendurskoðun á löggjöf um neytendamál þar sem þetta yrði meðal annars tekið til umfjöllunar með það að markmiði að bæta rétt neytenda.
Viðreisn
Samkeppnislagabrot geta verið mjög alvarleg og valdið miklu tjóni fyrir samfélagið í heild. Það sama gildir um neytendur sem heild og einstaka neytendur. Af þeim sökum er mikilvægt að greið réttarúrræði séu til þess að sækja bætur fyrir slíkt tjón. Viðreisn styður umbætur í þá veru sem felst í spurningunni.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki talið skynsamlegt að innleiða tilskipun 2014/104/ESB, en vill fremur að réttur neytenda til að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota verði skýrður og styrktur samhliða endurskoðun samkeppnislaga.
Sósíalistaflokkur Íslands
Samkeppnislagabrot hafa fengið allt of „þægilega“ meðferð í kerfinu og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála virðist hafa það eina hlutverk að skera þau fyrirtæki niður úr snörunni sem framið hafa brot á samkeppnislögum með mikilli lækkun sekta. Samkeppnisstofnun þarf að hafa miklu víðtækari heimildir til stöðvunar reksturs þar sem samkeppnishamlandi aðferðum er beitt, til þess að brjóta upp einkafyrirtæki í einokunar- eða fákeppnisumhverfi í smærri einingar, og til þess að leggja til refsingar (fangelsi) stjórnenda og eigenda fyrirtækja sem staðin eru að brotum á samkeppnislögum. Skaðabætur til handa einstaklingum vegna samkeppnislagabrota á að leiða í lög. Við búum því miður við fákeppnisumhverfi á flestum sviðum atvinnulífsins sem hefur leitt til mun hærra verðlags en í öllum okkar nágrannalöndum. Þessu þarf að breyta.
Samfylking – Jafnaðarmannaflokkur Íslands
Samfylkingin styður að innleiða skipun 2014/104/ESB inn í íslensk lög enda mikilvægt að tryggja hagsmuni neytenda. Samfylkingin mun beita sér fyrir því að tilskipun þessi sé afgreidd innan EES-EFTA nefndarinnar og í kjölfarið samþykkt á Alþingi. Það er þó mikilvægt að halda því til streitu að íslenskar stofnanir á sviði neytendamála og dómstólar muni vega til jafns við lönd sem eiga aðild að Evrópusambandinu. Þar sem tilskipun 2014/104/ESB styrkir neytendur innan alls Evrópska Efnahagssvæðisins, þá telur Samfylkingin að íslenskum neytendum sé best borgið að reyna að innleiða tilskipunina frekar en að gera sambærileg lög, þó það væri möguleiki sem yrði að skoða í samhengi við fullnaðarafgreiðslu á tilskipun 2014/104/ESB.
Miðflokkurinn
Erlendis er við stórfyrirtæki að eiga sem eru af annarri stærðagráðu en hér tíðkast. Íslenskt laga- og regluumhverfi á að miðast við íslenskar aðstæður og hefur þannig allar forsendur til að vera skilvirkt og vandað og þarf ekki erlendar formúlur til þess. Miðflokkurinn er tilbúinn að vinna með öðrum á Alþingi Íslendinga til að styrkja vernd íslenskra neytenda eins og þarf. Ef þarf breytingar á lögum mun Miðflokkurinn styðja slíkt.
Flokkur fólksins
Flokkur fólksins er heilshugar fylgjandi því að innleiða tilskipun 2014/104/ESB í íslenskan rétt, til að auðvelda neytendum að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota, eða að sambærileg lög verði sett.