Tollur á franskar verði afnuminn
Neytendasamtökin, SAF – Samtök ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent erindi til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið er fram á að hann beiti sér fyrir niðurfellingu tolla sem lagðir eru á við innflutning á frönskum kartöflum.
Í ljósi þess að framleiðsla franskra kartaflna hefur verið hætt á Íslandi eru ekki lengur til staðar þær verndarforsendur sem liggja til grundvallar 46–76% verðtolli sem lagður er á við slíkan innflutning.
Hagsmunir neytenda, verslana og ferðaþjónustunnar fara saman þegar kemur að niðurfellingu tollanna. Niðurfellingin kemur neytendum til góða þar sem hún stuðlar að lægra vöruverði. Hún kemur versluninni til góða þar sem hún veitir henni færi á að kaupa franskar kartöflur frá fleiri ríkjum en þeim sem falla undir gildandi fríverslunarsamninga og stuðlar þannig bæði að aukinni verðsamkeppni og bættu framboði. Veitingamenn selja töluvert af frönskum kartöflum til viðskiptavina sinna og ætti niðurfellingin að veita þeim tækifæri til verðlækkana sem munu í einhverjum mæli bæta samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart erlendri.
Tolltekjur ríkisins af frönskum kartöflum virðast hafa numið um 300 millj. kr. á síðasta ári. Það nemur rúmum 7% allra tolltekna það ár en þó aðeins 0,04% heildarskatttekna ríkisins 2021. Það er ljóst að tekjurnar ríða ekki baggamuninn þegar að tekjuöflun ríkisins kemur. Hins vegar skiptir hver króna máli fyrir mörg heimili í landinu um þessar mundir og ætti niðurfellingin að hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun.
Samtökin hafa m.a. farið fram á að ráðherra svari erindinu og lýsi afstöðu sinni telji hann sér ekki fært að verða við beiðni samtakanna.