Verðtryggt fjárlagafrumvarp – umsögn
Neytendasamtökin sendu í dag fjárlaganefnd Alþingis eftirfarandi umsögn um fjárlagafrumvarpið 2023:
—
Neytendasamtökin senda að öllu jöfnu ekki umsögn um frumvörp til fjárlaga, en gera undantekningu í þetta sinn til að gera athugasemd við verðtryggingu krónutölugjalda, nefskatta og aukatekna ríkissjóðs.
Í 2. mgr. bls. 116 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 segir: „Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að svokölluð krónutölugjöld, nefskattar og aukatekjur breytist í samræmi við áætlaða vísitölu neysluverðs í árslok… Breytingin nær til áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjalds ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjaldi og gjöldum sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs…“
Áætlað er að þessi verðtrygging skili ríkissjóði 6,4 ma.kr. og leiði til hækkunar verðbólgu um 0,2 prósentustig. Í frumvarpinu er þó ósagt látið að verðbólgutenging þessi leiðir til hækkunar verðtryggðra lána heimilanna (sem nema rúmum 1.000 ma.kr.) um það sem nemur rúmlega 2 ma.kr. eða um þriðjung ávinnings ríkissjóðs. Þannig er kostnaður neytenda ekki einvörðungu þær umframálögur sem verðtrygging gjaldanna leggur á herðar þeirra, heldur einnig kostnaður vegna hækkunar lána heimilanna sem og annar kostnaður sem hlýst af minnkandi verðgildi krónunnar.
Að því Neytendasamtökin fá best séð er þetta í fyrsta sinn á síðari tímum sem fjárlagafrumvarpið er verðtryggt, en undanfarin ár hafa þessi gjöld hækkað í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Vísitölutenging tekna ríkissjóðs er verðbólguhvetjandi aðgerð sem leiðir af sér kuðungsferil sífelldra hækkana og viðheldur vítahring verðbólgu. Ríkissjóður er þar með orðinn forkólfur í vexti og viðhaldi verðbólgunnar, þvert á það sem vera skyldi.
Það skýtur skökku við að stjórnvöld ausi olíu á verðbólgubálið. Neytendasamtökin telja þvert á móti að stjórnvöld ættu að leita allra leiða til að draga úr verðbólgu og lækka vöruverð á nauðsynjavöru svo sem matvælum. Þar liggur beinast við að draga úr og afnema tollvernd með öllu.
Fyrir hönd Neytendasamtakanna, Breki Karlsson formaður.