Vaxtamálið
Hver og ein/n þarf að meta hvort hann/hún treysti sér til að reka málið sjálf/ur án aðstoðar, en málin geta verið nokkuð snúin fyrir marga.
Ef þú treystir þér ekki í að reka málið sjálf/ur getur þú nýtt þér aðstoð lögmannstofu (sjá nánar hér). Viljir þú reka mál þitt sjálf/ur og á eigin ábyrgð geta neðangreindar upplýsingar mögulega gagnast þér:
1 .
Kannaðu hvort að þú sért með lán með breytilegum vöxtum.
Í raun varðar þetta öll lán með breytilegum vöxtum til neytenda, bæði verðtryggð og óverðtryggð, hjá öllum lánastofnunum, bæði húsnæðislán sem og önnur lán. Lán sem bera „fasta vexti“ hluta lánstímans, til dæmis 3-5 ár, en sem geta tekið breytingum, eru í raun lán með breytilegum vöxtum. Lánin einskorðast ekki við bankana, heldur einnig aðrar lánastofnanir, svo sem lífeyrissjóði og sparisjóði. Þetta á þó bara við um lán sem veitt hafa verið einstaklingum, ekki lán sem veitt hafa verið fyrirtækjum.
2 .
Gerðu kröfu á hendur lánveitanda þinn til endurgreiðslu á mögulegri ofgreiðslu. Samtökin mæla með því að kröfur séu sendar með skriflegum og sannanlegum hætti, svo sem með tölvupósti á virkt netfang.
Efni kröfunnar gæti mögulega verið eitthvað á þessa leið:
„Góðan dag.
Ég (nafn + kennitala lántaka) tók þann (dagsetning lántöku) lán með breytilegum vöxtum hjá (nafn lánastofnunar), hér eftir lánastofnun, (númer láns).
Lán mitt var/er með breytilegum vöxtum og tel ég að lánastofnunin hafi ekki staðið rétt að vaxtabreytingum á umræddu láni.
Í því samhengi er m.a. vísað til ákvörðunar Neytendastofu í máli nr. 67/2020, þar sem lánastofnun var talin hafa brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 6 og 9. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, með því að tilgreina ekki í skilmálum um endurskoðun vaxta við hvaða aðstæður vextir geti breyst. Jafnframt var talið að lánastofnunin hefði brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með breytingu á vöxtum neytendaláns á grundvelli ófullnægjandi vaxtabreytingarskilmála lánsins. Auk framangreinds er vísað til minnisblaðs Lögfræðistofu Reykjavíkur til Neytendasamtakanna dags. 31. ágúst 2020:
https://eldri.ns.is/wp-content/uploads/2020/09/2020-08-31-Minnisblad_breytilegir-vexti-1.pdf
Með vísan í ofangrein fer ég fram á eftirfarandi:
Aðalkrafa – Að lánastofnunin endurgreiði mér allar ófyrndar vaxtagreiðslur sem ég hef innt af hendi af umræddu láni og felli niður vaxtaákvæði lánsins.
Varakrafa – Að lánastofnunin endurreikni lánið og allar mínar afborganir sem ég hef innt af hendi, og þær sem eftir eru á afborgun minni – ef einhverjar eru- þannig að lagðir verða til grundvallar meginvextir Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Gerð er krafa um að vextir á láninu lækki í samræmi við lækkun meginvaxtanna á gildistíma lánsins. Farið er fram á að umframvextir miðað við framangreindar forsendur verði endurgreiddir.
Þrautavarakrafa – Að lánastofnunin endurreikni lánið og að vaxtaákvörðun fari eftir þeim hlutlægu mælikvörðum sem fram koma í skilmála þess sem standast ákvæði laga um neytendalán og eftir atvikum ákvæði laga um fasteignalán til neytenda. Með öðrum orðum að þeir vaxtaákvörðunarskilmálar sem kveðið er á um í láninu og standast ekki lög miðað við ofangreint verði felldir úr gildi.Ég óska svara við erindi þessu sem allra fyrst, en þó eigi síðar en 4 vikum eftir dagsetningu þessa tölvupósts. Verði ekki fallist á kröfur mínar áskil ég mér rétt til að leita úrskurðar hjá Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
Með kveðju,
(Nafn lántaka)
(Kennitala lántaka)“
Rétt er að taka fram að ofangreind fyrirmynd hentar e.t.v. ekki í öllum tilvikum og er aðeins sett fram sem mögulegt dæmi.
3 .
Ef ekki fæst farsæl niðurstaða í kjölfar skrefsins hér að ofan – Legðu málið fyrir Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þetta er m.a. ráðlegt með það fyrir augum að slíta fyrningu. Hægt er að lesa nánar um úrskurðarnefndina hér.
Hvernig á að óska eftir úrskurði?
Til þess að leggja mál fyrir nefndina þá þarf að fylla út sérstakt eyðublað sem hægt er að nálgast hér (PDF) eða hér (Word skjal). Eyðublaðið þarf að fylla út og senda, ásamt fylgigögnum, í tölvupósti á urskfjarm@sedlabanki.is eða í pósti á Seðlabanka Íslands, Kalkofnsvegi 1, 101 Reykjavík merkt „Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki“. Við mælum með að neytendur sendi kvörtunina í tölvupósti til að hafa staðfestingu þess efnis að erindi hafi verið sent á nefndina.
Sú hætta er fyrir hendi að krafa neytenda um endurgreiðslu fyrnist, en slíkar kröfur lúta almennum reglum um fyrningu kröfuréttinda og fyrnast á fjórum árum. Þeir sem til dæmis hafa greitt upp lán á síðastliðnum misserum geta þurft að grípa til ráðastafana til þess að fyrirbyggja að kröfu þeirra um endurgreiðslu ofgreiddra vaxta fyrnist á meðan dómsmál er rekið til þess að útkljá ágreininginn. Þetta á auðvitað ekki við um þá sem höfðað hafa mál til þess að innheimta ofgreidda vexti, því með málsókn er fyrningu slitið.
Hægt er að slíta fyrningu með því að leggja mál til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til að ljúka deilu um ágreininginn, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Því leggja samtökin það til að mál sé lagt fyrir Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Hægt er að lesa nánar um úrskurðarnefndina hér.
Úrskurðarnefndin tekur einungis fyrir mál þar sem fjármálafyrirtæki hefur hafnað kröfu viðskiptamanns eða ekki hefur náðst sátt innan fjögurra vikna frá því að viðskiptamaður lagði málið fyrir fjármálafyrirtæki. Þannig er frumskilyrði að neytandi hafi sent inn kvörtun áður en mál fer fyrir úrskurðarnefndina, sbr. lið 2 hér að ofan.
Kvörtunareyðublaðið þarf að fylla út ýmsa reiti, m.a. kröfugerð og rökstuðning fyrir kvörtuninni. Þeir sem vilja senda inn kvörtun sjálfir geta stuðst við minnisblöð sem Lögfræðistofa Reykjavíkur gerðu fyrir Neytendasamtökin þann 31. ágúst 2020. Í minnisblöðunum er farið yfir helstu lagalegu þætti sem snýr að lánum sem bera breytilega vexti, en minnisblöðin má nálgast hér og hér.
Æskilegt væri ef kvartendur gætu lagt fram fjárkröfu í málum ef það á við, þ.e. að reiknuð sé út sú fjárhæð sem talið er að hafi verið ofgreitt og láta hana ásamt útreikningum fylgja með kröfu málsins. Það getur verið flókið að reikna út hver sú upphæð er og ef kvartendur treysta sér ekki í að reikna út þá tölu þá þyrfti að setja fram t.d. þá kröfu um að lánveitandi endurútreikni lánið eða setja fram viðurkenningarkröfu.
Neytendasamtökin mæla með því að með kvörtuninni fylgi jafnframt afrit af:
- lánaskilmálum/lánasamningi og öll þau gögn sem varða lánið.
- Minnisblöð Lögfræðistofu Reykjavíkur.
- Samskipti kvartanda við lánastofnunina (til að sýna fram á að skrifleg kvörtun hafi verið send).
- Útreikningar og rökstuðningur fyrir fjárkröfu í málinu, ef við á.
- Önnur gögn sem kvartandi kann að búa yfir til að styrkja mál sitt
Þá þarf lántaki að greiða málskotsgjald að upphæð 5.000 kr. Málskotsgjald er greitt inn á reikning:
Seðlabanki Íslands nr. 0001-26-040029 og kt. 560269-4129
Nauðsynlegt er að láta kvittun fyrir greiðslunni fylgja málskotinu.
Gjaldið fæst endurgreitt falli mál að hluta til eða öllu leyti málskotsaðila í vil.
Þegar/ef nefndin samþykkir að taka kvörtunina til meðferðar þá er málsmeðferðin sú að kvörtunin er send til varnaraðila og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og skýra sjónarmið sín. Svör varnaraðila eru almennt send svo á kvartanda og honum gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Almennt fær því kvartandi tækifæri á að sjá svör varnaraðila og koma að sínum athugasemdum við þau áður en nefndin tekur málið til úrskurðar.
Fyrir nánari upplýsingar um nefndina bendum við á heimasíðu Seðlabankans.
4 .
Dugi ofangreind skref ekki til þess að fá lausn í málið gæti þurft að höfða mál fyrir dómstólum. Best er að leggja það í hendur á lögmanni að vinna málið en einnig getur þú tekið þátt í málarekstri okkar.
Neytendasamtökin taka enga ábyrgð á efni fyrirmynda eða þeim upplýsingum sem hér eru veittar. Ofangreint er fyrst og fremst stuðningsgögn og hagnýtar upplýsingar fyrir þau sem ákveða að senda mál inn á eigin vegum og eigin ábyrgð.